Brownie með súkkulaði fudge
Þessa prófaði ég um daginn þegar mig vantaði eitthvað gott til að bjóða miklum aðdáendum súkkulaðis upp á. Hún kom svo vel út að ég ákvað að henda henni inn á bloggið. Einföld og rosalega góð – og stór kostur að það er ekkert mál að frysta hana, þannig það hægt að útbúa hana fyrr og eiga hana tilbúna þegar kemur að veislu.
Ég gerði smá breytingu á upphaflegu uppskriftinni. T.d. setti ég smá síróp í fudge-ið, því mér finnst það gefa svo gott bragð. En það varð til þess að það varð ekki eins stíft og það hefði átt að vera – en bragðaðist alveg rosalega vel samt. Þannig ég mæli með því 🙂
Brownies með súkkulaði fudge:
Fjöldi: sirka 20 bitar.
Ofnhiti: 175°C annað hvort blástur eða undir og yfirhita
Tími: 20-30. Bakstur 20-25 mín. en svo smá bið til að kólna
125 gr. smjör
1,5 dl. sykur
1 dl. púðursykur
1 dl. kakó
salt á hnífsoddi
2 tsk. vanillusykur eða dropar
2 egg
1,5 dl. hveiti
Súkkulaði fudge
1,5 dl. rjómi
200 gr. suðusúkkulaði
1/2 tsk. smjör
(2 msk. síróp – fyrir þá sem vilja hafa þetta aðeins sætara)
Aðferð
Stillið ofninn á 175°. Bræðið smjörið í potti. Slökkvið á hellunni og bætið út í sykri, púðursykri, kakó, salti, vanillusykri og eggjum. Hrærið vel og bætið að lokum hveiti út í og hrærið þannig þetta verði slétt.
Setjið smjörpappír í botninn á formi sem er sirka 18 x 25 cm. eða kringlóttu formi sem er 23-24 cm. í þvermál. Smyrjið annað hvort með smjöri eða smá olíu. Hellið deiginu í formið og bakið í miðjum ofni í 20-25 mín. Þegar kakan er tilbúin er hún látin kólna í forminu.
Fudge
Hitið rjómann í potti upp að suðumarki. Slökkvið svo á hellunni og setjið súkkulaðið og smjörið út í. Hrærið þangað til það er bráðnað og ef þið viljið hafa þetta aðeins sætara má núna bæta sírópinu út í. Athugið að ef sett er síróp verður þetta aðeins mýkra og klessist frekar. Kælið að lokum fudge-ið í ísskáp í sirka klukkutíma. Hrærið í því af og til og passið að það verði bara aðeins þykkara, en ekki alveg stíft.
Losið kökuna úr forminu þegar hún hefur kólnað. Smyrjið svo fudge-inu yfir hana. Leyfið þessu að standa í smá tíma, helst í kæli, þannig að það verði auðveldara að skera án þess að fudge-ið fari út um allt.
Kakan er best með smá rjóma – hún er mjög þétt og með miklu súkkulaðibragði og því þurfa sneiðarnar ekki að vera mjög stórar.