Súkkulaðibitakökur með daím
Það hafa allir sínar hefðir um jól sem verða að vera til staðar, hjá mér er það graflaxinn eins og hefur komið fram, en það er líka sænska jólaskinkan sem ég mun eflaust skrifa um þegar nær dregur jólum og svo eru það súkkulaðibitakökurnar sem eru gerðar í tonnatali fyrir hver jól. Þessi uppskrift er mjög einföld, en smákökurnar hafa alltaf verið þær vinsælustu af þeim sortum sem ég geri. Ég geri þær með súkkulaðibitum og daím, en það má setja nánast hvað sem er í staðinn fyrir þetta. T.d. kemur mjög vel út að setja lakkrískurl. Mér finnst samt smá súkkulaði vera algjört “must” samt, en um að gera að prófa sig áfram með þetta.
Hér kemur uppskriftin:
Súkkulaðibitakökur með daím:
200 gr. mjúkt smjör
230 gr. sykur (1 bolli)
230 gr. púðursykur (1 bolli)
2 egg
1 tsk. Matarsódi
1 tsk. Salt
1 msk. Heitt vatn
1 tsk. Vanilludropar
360 gr. Hveiti (2 bollar og 2 msk.)
200-300 gr. Súkkulaðibitar, daím eða hvað sem er, t.d. er lakkrískurl mjög gott. Ég sjálf nota yfirleitt blöndu af daími og súkkulaðibitum
Gott að hafa 200gr. Af daím kúlum og svo ca. 200gr. Af súkkulaðispænum, þá verða þær sérstaklega gómsætar.
Hræra allt nema súkkulaði(og daím) saman í skál. Ef þetta verður of þykkt er í lagi að setja aðeins meira vatn, bara passa að hafa það ekki of mikið. Bæta svo súkkulaðinu út í, nota svo teskeið til að setja á plötu með bökunarpappír og baka í miðjum ofni á sirka 170 °c þangað til þær verða ljósbrúnar, fer eftir ofnum en í sirka 5-12 mín.
Þetta gera sirka 50-60 smákökur og maður getur haft þær mislengi í ofninum eftir því hvort þær eiga að vera alveg stökkar eða aðeins mjúkar í miðjunni.
By Inga Rún, 16/12/2012 @ 00:41
Mmm bakaði þessar kökur og þær eru sjúklega góðar 🙂