Heimagerð pizza og pizzasósa

Mér finnst pizzur sem fást á flestum pizzastöðum bæjarinns ekkert sérstakar, alveg ágætar í neyð, en ekkert meira en það. Það eru alveg 2-3 ár síðan ég fór að gera pizzurnar oftast bara heima í staðinn fyrir að panta þær, en það sem mér hefur fundist erfiðast er að finna uppskrift af deigi sem er góð. Fyrst keypti ég alltaf pizzadeigsrúllurnar sem fást í flestum búðum og svo Hunts pizzasósu sem fékkst í áldósum (finnst þessi í brúsunum ekki góð), en svo rakst ég á snilldar uppskrift af deigi sem klikkar aldrei. Pizzurnar verða mjúkar og góðar, með góðum mjúkum endum, en ekki of þykkar eða of þunnar eins og mér finnst oft gerast þegar maður bakar sjálfur. Svo er þetta líka alveg hrikalega bragðgott. Hunts pizzasósan hætti að fást í búðunum þannig ég fór að gera mína eigin sósu líka. Þessi samsetning finnst okkur svo svakalega góð að við höfum frekar fyrir því að gera þetta heima heldur en að panta þetta dýrum dómum af einhverjum stöðum. Svo er náttúrulega snilld að geta stjórnað álegginu sjálfur, og þá er í mesta uppáhaldi að gera pizzu bara með sósu, osti og sveppum og svo þegar pizzan er bökuð skelli ég hráskinku, parmesan, klettasalati og ferskri basiliku á þetta.

Hér kemur svo uppskriftin af deiginu og sósunni. Þetta eru frekar stórar uppskriftir og duga fyrir sirka 4 stórar pizzur (álíka stórar og ofnplötur). En ekkert mál að helminga uppskriftirnar, eða frysta afganginn af deiginu þangað til seinna og geyma restina af sósunni bara í ísskáp.

Pizzadeig

1 kg. Hveiti

1 msk. hunang

1 msk. salt

14 gr. þurrger

4 msk. olía

600-650 ml. volgt vatn

Hveiti og salt sett í skál. Hunangið er leyst upp í vatninu ásamt þurrgerinu. Best að byrja á að nota 600 ml. vatn og bæta frekar við ef þess þarf. Þegar það fer að freyða er því, ásamt olíunni bætt út í  hveitið. Hnoðað saman og látið hefast í sirka klst. Pizzurnar er best að baka í mjög háum hita (en fylgjast vel með svo þær brenni ekki). Ég er yfirleitt með ofninn stilltan á 250-275° C og þá heppnast þetta fullkomlega. Tekur bara nokkrar mínútur, bara lyfta pizzunni örlítið og kíkja undir til að vera viss um að hún sé tilbúin.

 

Pizzasósa

5-6 hvítlauksrif

smá olía

2 litlar dósir af tómatpúrru

1 ferna af tómat “passata” eða 1-2 dósir af hökkuðum tómötum (tómat passata eru fínt maukaðir tómatar og fæst í fernum frá euroshopper – mér finnst það betra heldur en hökkuðu tómatarnir því mér finnst ekki gott að hafa tómatbita í þessu)

pizzakrydd (oregano, timjan, basilika)

salt

Hvítlaukurinn hakkaður smátt og steiktur upp úr olíunni. Tómatpúrru og tómatmauki bætt út í og svo kryddinu. Best að smakka þetta til með salti eða kjötteningi. Það er líka gott að setja smá chili ef maður vill hafa þetta smá spicy. Svo er þetta látið malla í smá stund, eða þangað til þetta er hæfilega þykkt og bragðast vel.

Share

No Comments

No comments yet.

RSS feed for comments on this post.

Leave a comment

WordPress Themes