Beikonvafðar döðlur
Ef manni vantar einhvern smárétt til að hafa í veislu, eða einfaldan forrétt þá er mjög einfalt að gera beikonvafðar döðlur. Ég hef t.d. boðið upp á þetta sem smá forréttasmakk í matarboði og var þá með þetta í skál og með tannstönglum og sweet chili sósu til hliðar þannig fólk gat fengið sér eins og það vildi. En það má að sjálfsögðu bera þetta fram t.d. nokkur saman á spjóti á diski eða hvernig sem er.
Það er ekkert mál að undirbúa þetta deginum áður og svo bara hita þegar á að borða þetta. Einfaldast er að hafa bara döðlur og beikon, en það verður enn betra að setja ost, t.d. gráðaost, í döðlurnar, þannig ég reyni að gera það þannig þegar ég nenni. Uppskriftin er mjög einföld, og magnið sem er notað fer alveg eftir því hvað maður ætlar að gera mikið af þessu. En það fer ekkert sérstaklega mikið af ostinum í hverja döðlu.
Beikonvafðar döðlur:
Döðlur – best að velja stórar og góðar, en það má alveg nota ódýrustu gerðina líka
Beikon – reyna að velja beikon með lítilli fitu og sem er frekar langt
(Gráðaostur eða annar góður ostur, t.d. mozzarella, mexikóostur eða brie)
Beikonið er skorið í tvennt, þannig að þetta verði lengjur sem eru 7-10 cm. sirka. Ef það á að vera ostur í döðlunum er skorin smá rauf í þær og smá bút af osti stungið inn. Beikonið er vafið um döðluna og reynt að þrýsta því vel að svo að það haldist. Það má líka nota tannstöngla til að festa þetta, en ég sleppi því oftast og reyni bara að fara varlega þegar ég steiki þetta.
Þetta er svo annað hvort steikt á pönnu eða í eldföstu móti við 200-220°C þar til beikonið er orðið stökt. Borið fram með t.d. sweet chili sósu.
No Comments
No comments yet.
RSS feed for comments on this post.
Leave a comment