Einföld eplakaka
Þessi kaka er alveg rosalega einföld, en líka alveg rosalega góð. Og stór kostur að það má frysta hana og þannig eiga alltaf eitthvað heimabakað til ef þess þarf. Hún er góð ein og sér, en enn betri með vanillurjóma eins og ég minnist á hérna, eða bara venjulegum rjóma.
Eplakaka:
Deig:
100 gr. mjúkt smjör
2 dl. sykur
2 tsk. lyftiduft
1 egg
4 dl. hveiti
1,5 dl. mjólk
Fylling:
2-3 epli
4 msk. sykur
1 msk. kanill
Hrærið smjör og sykur vel saman í hrærivél eða með handþeytara. Eggi og lyftidufti er bætt útí og þetta hrært saman þar til þetta verður ljóst. Svo er hveiti og mjólk bætt útí og hrært saman. Það má ekki hræra of lengi og alveg nóg að hætta þegar þetta hefur blandast saman. Þetta á að vera frekar þykkt deig, en það gæti þurft örlítið meira af mjólk stundum.
Kökuform sem er sirka 22 sm. í þvermál er smurt með smjöri og svo er brauðraspi stráð yfir þannig það dreifist yfir allt formið. Deigið er svo sett í formið og dreyft úr því vel.
Eplin eru skræluð og skorin í þunna báta. Hverjum bát er velt upp úr blöndu af sykri og kanil og svo er þeim er þrýst vel ofan í deigið. Ef það verður afgangur af sykurblöndunni má strá því yfir kökuna áður en hún fer inn í ofninn.
Kakan er svo bökuð í 175°C neðarlega í ofninum í sirka 45 mín.
Verði ykkur að góðu!
No Comments
No comments yet.
RSS feed for comments on this post.
Leave a comment