Enchiladas a ‘la Unnur

Þessi uppskrift varð til einhvern daginn sem mig langaði rosalega í mexikóskan mat, en vildi þó ekki þetta venjulega eins og fajitas eða taco. Þannig ég skáldaði þessa uppskrift úr því sem ég fann í ísskápnum. Ég hef notað svipaða uppskrift með nautagúllas, nautahakki og kjúkling og allt saman virkar með sömu uppskrift. Bara um að gera að nota það sem maður á til eða það sem manni langar í hverju sinni. Það mætti jafnvel sleppa kjöti og setja í staðinn nýrnabaunir eða aðrar góðar baunir út í þetta. Ég ætla að reyna að hafa þetta eins nákvæmt og hægt er, en þetta er einn af þeim réttum sem ég geri ekki endilega eins í hvert skipti, heldur fer það alveg eftir því hvað ég á og hvað ég nenni hverju sinni. Hún virkar kannski flókin í fyrstu sýn, en er í raun frekar einföld og tekur alls ekki mjög langan tíma að gera. Það er mikill kostur við uppskriftina að það er auðvelt að stjórna því hversu holl hún er. Þegar ég vil hafa hana frekar holla þá nota ég heilhveiti tortillur og nota minna magn af osti. Fyrir utan þetta er uppskriftin nefnilega mjög holl.
Stundum sleppi ég því að nota cumin og hvítlaukskryddið og nota í staðinn tilbúið burrito, fajitas eða taco krydd – það kemur oftast mjög vel út líka 🙂

Enchiladas

1 msk. olía
3-4 hvítlauksrif
1-2 laukur ( fer eftir stærð, 1 stór eða 2 litlir)
1-2 paprikur ( fer eftir stærð – best finnst mér að hafa gula eða appelsínugula, en rauðar og grænar eru í góðu lagi líka)
1 box af sveppum (ef ég er löt nota ég 1 poka af frystum sveppum í sneiðum)
500 gr. kjöt (t.d. nautahakk, nautagúllas, kjúklingabringur eða jafnvel nýrnabaunir eða álíka)
1 dós hakkaðir tómatar
1-2 tsk. Cumin (ath. ekki Kúmen, heldur cumin)
1-2 tsk. salt
1 tsk. hvítlauksduft
Ferskt kóríander
4-6 msk. sweet chili sósa

Rifinn ostur
Tortilla kökur
Salsa sósa

Hvítlauksrifin eru pressuð og laukurinn skorinn í sneiðar og þetta steikt í olíunni þar til þetta mýkist smá. Kjötið er skorið í hæfilega munnsbita og bætt út í þetta og svo er þetta steikt þar til kjötið er alveg gegnum steikt.

 

 

Paprika og sveppir eru skornir í sneiðar og bætt út í og allt saman látið malla í smá stund þar til grænmetið er gegnumsteikt.

 

 

 

 

Næst er 1 dós af hökkuðum tómötum bætt út í ásamt salti, cumin og hvítlauksdufti. Þegar þetta er búið að malla í smá stund er sweet chili sósu bætt út í. Það má alveg sleppa henni, en mér finnst hún gera gæfumuninn. Það þarf að passa að setja ekki of mikið, setja frekar smá og smakka svo. Að lokum er fersku kóríander bætt út í – magnið fer oftast eftir því hvað ég er að elda meira. Ef ég er að nota kóríander í t.d. ferskt salsa þá set ég oftast aðeins minna í enchiladas kássuna. Annars er ágætt að áætla sirka hálft knippi, eða rétt tæplega það. Ég nota alltaf alla stilkana í þetta – þeir gefa helling af bragði líka. Ef ég er að gera ferska salsað sleppi ég stilkunum þar og set þá frekar í kássuna. Það er líka alveg í lagi að sleppa kóríander, en mér finnst þetta lang best með því.

Þegar kássan er búin að malla í örfáar mínútur er kominn tími að setja þetta á tortilla kökurnar og skella þessu í ofn. Á hverja köku set ég smá ost og svo smá kássu og svo rúlla ég saman og set í eldfast mót.

 

 

 

 

 

 

Áður en þetta fer inn í ofninn set ég 1-2 tsk. af salsasósu á hverja köku og svo dreifi ég rifnum osti yfir þetta allt saman. Þetta er svo sett í 200° C heitan ofn í sirka 15-20 mín. eða þangað til osturinn er alveg bráðinn og kominn með smá lit.

 

Ég geri alltaf heimagert ferskt salsa og heimagert guacamole með þessum rétt, uppskriftirnar að því má finna hérna neðar á síðunni. Svo ber ég þetta fram með fersku salati sem þarf ekki að vera flókið. Oftast er ég bara með kál og gúrkusneiðar. Að lokum er gott að hafa sýrðan rjóma með þessu líka.

 

Share

2 Comments

  • By Tinna Rán, 17/02/2013 @ 22:52

    Þessi réttur er algjört sælgæti. Takk fyrir að deila þessari uppskrift 🙂

  • By Unnur Karen, 17/02/2013 @ 23:21

    Minnsta málið – þessi er einmitt ansi oft á boðstólnum hjá okkur, í ýmsum útfærslum 😉

Other Links to this Post

RSS feed for comments on this post.

Leave a comment

WordPress Themes