Karamellu-súkkulaði brownies með mars
Þessar brownies eru alveg rosalega djúsí og góðar og vekja alltaf mikla lukku þegar ég býð upp á þær. Svo er stór kostur að það er ekki flókið að baka þær 🙂
Ég hef þær þó ekki alveg alltaf alveg eins. Ég set t.d. ekki alltaf hneturnar á þær, og það er misjafnt hvort ég beri þær fram kaldar, skornar niður í ferninga, eða beint úr ofninum og ber þá fram með ís. Ef þær eru bornar fram heitar þá er ekki hægt að skera þær því þær eru of blautar í miðjunni, heldur er best að hafa þetta bara í forminu og leyfa fólki að fá sér með skeið eða álíka. En ef þær fá að kólna í forminu er ekkert mál að skera þær í bita.
Súkkulaði brownies með karamellu:
280 gr. púðursykur
80 gr. hveiti
280 gr. suðusúkkulaði eða jafnvel enn dekkra súkkulaði
200 g smjör
3 egg
2 tsk. vanilludropar
1½ tsk. lyftiduft
¼ tsk. salt
3-4 lítil Mars skorið í litlar sneiðar
50-100 gr. gróf hakkaðar pekanhnetur (hægt að sleppa)
Stillið ofninn á 170°C.
Þeytið eggin, púðursykurinn og vanilludropana vel saman. Blandan á að vera létt og ljós eins og sjá má á myndinni til hliðar (hægt að smella á myndina til að sjá hana stærri).
Saxið helminginn af súkkulaðinu og bræðið hinn helminginn ásamt smjörinu við vægan hita í potti eða í örbylgjuofni. Athugið að passa að súkkulaðið brenni ekki ef örbylgjuofn er notaður.
Blandið hveiti, lyftidufti og salti varlega saman við eggin og sykurinn með sleif. Bætið bráðnu súkkulaðinu og smjörinu að lokum varlega út í deigið. Bætið að lokum söxuðu súkkulaðinu útí og hrærið varlega.
Smyrjið sirka 20 x 30 sm. ferkantað form vel og setjið smjörpappír í botninn. Ef bera á kökuna fram heita þarf ekki að nota smjörpappír. Ég set hana þá frekar í stórt eldfast mót og ber hana fram í því.
Hellið deiginu í formið. Raðið marsbitunum yfir deigið og þrýstið þeim gjarnan aðeins niður svo þeir fari ofan í deigið (það er samt í góðu lagi þótt þeir liggji bara ofan á deiginu). Ef það eiga að vera hnetur á kökunni er þeim dreift yfir áður en hún er svo sett í ofninn. Kakan er svo bökuð í 20-30 mín. eftir því hversu blaut hún á að vera. Ég baka yfirleitt í 30 mín ef ég ætla að bera hana fram kalda.
Ef það á að bera kökuna fram heita þá ber ég hana oftast fram með ís – rjómi er líka góður með henni. En ef hún á að vera köld hef ég bara skorið hana þegar hún hefur kólnað og borið fram eins og hún er. Fínt að hafa rjóma með, en ekki nauðsynlegt. Mæli þó með að skera bitana frekar smátt þar sem þetta er “mikið af því góða” því það er mikið af súkkulaði í þessu, meira eins og að borða konfekt í rauninni 🙂
Hér er svo mynd af henni eins og hún verður oftast ef hún borðuð heit. Svolítið klessuleg, en alveg rosalega góð – og best með vanilluís.
No Comments
No comments yet.
RSS feed for comments on this post.
Leave a comment