Mexikósk baka

Mexikósk baka, eða Tacopaj eins og Svíarnir kalla hana, er réttur sem er alveg ótrúlega vinsæll hjá vinum mínum úti í Svíþjóð. Ég hef hins vegar aldrei gert svona sjálf fyrr en í kvöld – en það tókst svona rosalega vel að ég ákvað að deila uppskriftinni með ykkur. Það kom mér mikið á óvart hversu einfalt var að gera þetta, var búin að mikla það svolítið fyrir mér að þurfa að búa til deig, forbaka það, gera hakkið og svo það sem er sett ofan á hakkið. En þetta tók töluvert styttri tíma en ég bjóst vil. Svo er stór kostur að það kostar ekki mikið að kaupa hráefnið í þetta. Þegar ég skoðaði uppskriftir að þessu á netinu tók ég eftir því að margar þeirra fara einföldu leiðina og nota tilbúið taco krydd. Ég er samt hrifnari af því að vita nákvæmlega hvað er í matnum mínum og ákvað því að fara frekar flóknari leiðina (sem var svo ekkert flókin). Fyrir þá sem vilja einfalda þetta þá er hægt að nota einn poka af tacokryddi og sleppa þá hvítlauk, tómatpúrru, chilisósu, soja, chiliduft, cumin, kóríander og salti.

 

Mexikósk tacobaka:

Deig:
3 dl. hveiti
150 gr. smjör
1 tsk. paprikuduft
2 msk. vatn

Hakkfylling:
500 gr. nautahakk
1 laukur
3 hvítlauksrif
2 dl. vatn
1 lítil dós, eða 2-3 msk. tómatpúrra
2-3 msk. chilisósa (t.d. frá Heinz)
2 tsk. chiliduft (sleppið eða minnkið ef þetta á ekki að vera mjög sterkt)
2 tsk. cumin
2 tsk. kóríanderduft
1 msk. sojasósa
1-2 tsk. salt

Ostafylling:
2-3 Tómatar, eða eitt box af kirsuberjatómötum
1 dós, eða sirka 2 dl. sýrður rjómi
3-4 msk. rjómaostur
150 gr. rifinn ostur

Byrjið á að gera deigið, því það þarf smá tíma til að standa og svo til að forbakast áður en fyllingin er sett í það. Skerið smjörið í litla teninga og hnoðið það saman við hveiti og paprikuduft. Þegar þetta er orðið að mulningi er vatninu bætt út í og hnoðað snögglega svo að smjörið bráðni ekki of mikið út af hitanum á höndunum. Þrýstið deiginu svo í bökuform eða annað eldfast mót. Stingið með gaffli hér og þar í botninn og látið deigið standa í smá stund (fínt ef hægt er að setja það í ísskáp á meðan). Bakið svo í 225 °C í sirka 10 mín.

Skerið laukinn smátt og pressið eða hakkið hvítlaukinn fínt, steikið svo ásamt hakkinu þar til hakkið er gegnumsteikt. Bætið vatni, tómatpúrru, chilisósu, sojasósu og kryddum út í og látið sjóða í 10-15 mín, eða þar til vatnið hefur að mestu gufað upp. Gott að smakka þetta til og bæta e.t.v. salti eða öðru kryddi við eftir smekk.

Hrærið sýrðum rjóma, rjómaosti og rifnum osti saman. Skerið tómatana í bita (í helminga ef kirsuberjatómatar) og dreifið yfir hakkið. Dreifið svo ostablandinu yfir tómatana.

Bakið svo í 200 °c í 20 mín, eða þar til ostablandið hefur fengið fallegan lit.

Gott að bera fram með maísbaunum, fersku salati, sýrðum rjóma, avocado í bitum, guacamóle eða því sem ykkur dettur í hug hverju sinni.

Share

1 Comment

  • By Lína Rut, 14/08/2013 @ 08:29

    Þetta var ekkert smá góð baka! 🙂

Other Links to this Post

RSS feed for comments on this post.

Leave a comment

WordPress Themes