Bananamuffins með stökkum karamellutoppi

Það gerist allt of oft á þessu heimili að bananar gleymist og svo eru þeir orðnir aðeins of þroskaðir til að þeir séu borðaðir einir og sér. Þá er rosalega gott að nota þá í bakstur. Ég geri eiginlega alltaf bananabrauðið sem þið getið fundið hérna, en mig langaði að breyta til og googlaði aðeins til að sjá hvað ég myndi finna. Fann alveg dásamlega bananamuffins uppskrift sem ég prófaði í kvöld og er klárlega strax orðin uppáhalds. Fann líka aðra muffins uppskrift þar sem Nutella var bætt út í áður en þessu var stungið inn í ofninn – hljómaði svo vel að ég ákvað að prófa að gera nokkur muffins með nutella líka. Útkoman var hrikalega góð, bæði með og án Nutella 🙂

Bananamuffins með stökkum karamellutoppi (og Nutella):

Deig:
3, 75 dl. hveiti
1 tsk. lyftiduft
1 tsk. matarsódi
1/2 tsk. salt
3 stórir vel þroskaðir bananar
1,5 dl. sykur
1 egg
70 gr. smjör
1 tsk. vanilludropar
(4 msk. Nutella eða annað sambærilegt – fyrir þá sem vilja enn meiri sykur ;), ég set þetta bara einstaka sinnum út í)

Karamellutoppur:
85 gr. púðursykur
1,5 msk. hveiti
20 gr. smjör (kallt)
0,5-1 tsk. kanill (meira ef maður vill sterkara kanilbragð)
0,75 dl. hnetur (má sleppa)

 

Bræðið smjörið sem á að fara út í deigið. Bætið eggi, sykri, vanilludropum og stöppuðum banönum út í smjörið. Hrærið þetta vel saman, t.d. með gaffli. Bætið svo hveiti, salti, lyftidufti og matarsóda út í og hrærið saman. Ekki hræra of lengi – það er alveg í góðu lagi að deigið sé svolítið kekkjótt. Setjið deigið í 12-18 form – hafið þau rúmlega hálf full (svona 2/3 full).

 

Ef það á að vera Nutella í þeim er það hitað örlítið (svo það verði mýkra) og svo er sirka 1/2 tsk. sett út í hvert form. Notið svo tannstöngul eða álíka til að hræra örlítið í þessu svo súkkulaðið dreifist aðeins.

 

 

Því næst er hráefnunum sem eiga að vera í karamellu toppnum blandað saman. Púðursykri, hveiti, kanil og hnetum er blandað saman. Smjörið er skorið í litla bita (eða skorið með ostaskera) og sett út í. Svo er þetta mulið í höndunum þangað til þetta verður eins konar mulningur. Mulningnum er svo dreift yfir muffinsin.

 

Að lokum eru muffinsin bökuð í sirka 20-25 mín í 190°C. Passa að athuga hvort þau séu tilbúin með því að stinga í þau með hníf eða gafli áður en þau eru tekin út.  Þótt það geti verið erfitt að bíða er best að láta þau kólna aðeins áður en þau eru borðuð 🙂

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Share

No Comments

No comments yet.

RSS feed for comments on this post.

Leave a comment

WordPress Themes