Sætkartöflusúpa með indverskum blæ

Ég hef oft rekist á uppskriftir að súpum með sætum kartöflum, en aldrei þorað almennilega að prófa – þangað til núna. Og ég varð heldur betur ekki fyrir vonbrigðum. Ég var búin að finna nokkrar mismunandi uppskriftir á netinu og ákvað að blanda þeim svolítið saman frekar en að velja bara einhverja eina þeirra. Útkoman er rosalega góð og holl súpa sem er alls ekki flókin og auðvelt er að breyta eftir því hvað maður á í ísskápnum. Það er t.d. alveg hægt að sleppa gulrótum og setja bara aðeins meira af kartöflum í staðinn. Hún er pínu spicy þannig það er best að smakka sig svolítið til með kryddin. Ég elska sjálf ferskt kóríander og finnst rosalega gott að hafa það í súpunni, en hún er samt alveg góð án þess – þannig um að gera að sleppa því ef maður á það ekki til eða er ekki hrifinn af því.

Sætkartöflusúpa með indverskum blæ:
Tími: 2 klst. í heildina, með pásum til að kæla kartöflurnar o.þ.
Dugar fyrir 4-6 manns.

700-800 gr. sætar kartöflur (ég notaði 5 frekar litlar)
3 gulrætur
1 laukur
3-4 hvítlauksrif
2 stilkar sellerí ( má sleppa )
3-4 msk. olía
1 msk. rifið ferskt engifer
2-3 tsk. Garam Masala ( fæst í kryddrekkanum í Bónus – best smakka sig svo til – svo þetta verði ekki of sterkt )
1 tsk. karrý
1-2 tsk. salt
1-2 teningar grænmetis- eða kjúklingakraftur
1,5 l. vatn
1 dós kókosmjólk
1 dl. Ferskt smátt skorið kóríander

Skrælið kartöflurnar og skerið í þykkar sneiðar og raðið á ofnplötu. Hellið smá olíu yfir þær og saltið smá. Ofnbakið þær við 180 °C í sirka klst. eða þangað til þær eru mjúkar í gegn.
Á meðan kartöflurnar bakast má byrja á að undirbúa restina af hráefnunum. Skerið hvítlauk og lauk smátt. Rífið engifer og skerið sellerí og gulrætur í litla bita. Steikið svo lauk og engifer í restinni af olíunni. Bætið gulrótum og sellerí út í og bætið svo karrý og Garam Masala út í. Steikið þetta í smá stund og hrærið vel. Bætið svo vatni og krafti út í og látið malla á meðan beðið er eftir kartöflunum.
Þegar kartöflurnar eru tilbúnar er þeim bætt út í súpuna. Látið þetta malla í sirka 15 mín og takið af plötu og látið kólna aðeins. Maukið súpuna svo annað hvort í matvinnsluvél, mixer eða með töfrasprota. Ef matvinnsluvél eða mixer er notað þarf að gera þetta litlum skömmtum. Setjið súpuna aftur í pottinn, bætið kókosmjólk út í og smakkið til með smá salti. Ef súpan er of sterk er hægt að bæta einni dós af kókosmjólk í viðbót út í. Ef hún er of þunn er gott að láta hana sjóða aðeins lengur.  Að lokum er kóríander skorið smátt og bætt út í, hrært smá og borið svo fram með góðu brauði.

 

Share

No Comments

No comments yet.

RSS feed for comments on this post.

Leave a comment

WordPress Themes