Ítölsk súpa með grænmeti
Þegar ég ætla að gera súpu bara úr því sem ég finn í ísskápnum enda ég oftast að gera eitthvað afbrigði af þessari súpu – það er nefnilega svo auðvelt að setja bara það sem maður á til í hana. Í þessari uppskrift er smá beikon, þannig það er kannski ekki rétt að kalla hana grænmetissúpu. En beikonið er eingöngu í henni til að gefa bragð og maður finnur varla fyrir því þegar súpan er borðuð – hins vegar er mikið grænmeti í henni og það er í raun það sem skiptir máli. Það er í raun hægt að setja bara það grænmeti sem maður á til í ísskápnum, uppskriftin er bara til viðmiðunar og alveg í góðu lagi að sleppa t.d. púrrulauk eða brokkolí – eða jafnvel sleppa beikoninu ef maður vill ekkert kjöt. Þá getur maður hins vegar þurft örlítið meira af salti.
Það er svo smekksatriði (og pínu hollustuatriði) hvort maður setur pasta eða ekki. Ég er með einn 4 ára sem elskar pasta og þess vegna finnst mér gott að hafa það í súpunni. Það er samt mikilvægt að setja ekki of mikið. Pastað bólgnar út og yfirgnæfir allt annað ef það er sett of mikið. Einstaka sinnum set ég pylsubita út í þessa súpu – en þar sem ég reyni oftast að halda óhollustunni í lágmarki reyni ég að sleppa því. Þær gefa hins vegar gott bragð og súpan verður fyrir vikið enn vinsælli hjá eldri stráknum okkar.
Ítölsk grænmetissúpa með beikoni:
Tími: 1-2 klst.
smá olía
4-5 hvítlauksrif
1-2 laukar
4-5 gulrætur (sleppa ef súpan á að vera lkl væn)
Smá bútur af púrrulauk
200 gr. beikon
1 dós hakkaðir tómatar (velja sykurlausa ef súpan á að vera lkl væn)
3 msk. eða 1 lítil dós af tómatpúrru
2 teningar kjúklingakraftur
1,5-2 l. vatn
1 tsk. basilkrydd
1 tsk. oregano
1 tsk. timjan – ef maður á ekki eitthvert af þessum kryddum er allt í góðu að setja bara meira af því sem maður á. Það er einnig hægt að nota 3 tsk. af blönduðu ítölsku kryddi.
salt + pipar
brokkolí og annað grænmeti að eigin vali.
pasta (sleppa ef súpan á að vera lkl væn)
rifinn ostur
(Pylsubitar eru líka góðir út í súpuna – þeim er þá bætt út í á sama tíma og pastað)
Hvítlaukur er pressaður eða skorinn mjög smátt. Laukur og púrrulaukur eru skorin frekar smátt. Þetta er svo steikt upp úr smá olíu þangað til laukarnir eru búnir að mýkjast. Beikonið er skorið mjög smátt og bætt út í laukinn. Steikt þar til beikonið er gegnumsteikt. Þá er hökkuðum tómötum, tómatpúrru, gulrótum og öðru grænmeti og vatni bætt út í. Kjúklingateningar eru settir út í ásamt þurrkuðu kryddjurtunum (hér mætti nota ferskar kryddjurtir líka). Smakkað til með pipar og salti og látið malla þar til gulrætur eru gegnum soðnar og mjúkar. Þegar þetta bragðast vel og er að mestu leyti tilbúið er pastanu bætt út í og þetta soðið þar til pastað er tilbúið. Passið að sjóða ekki lengur en þarf þar sem pastað getur auðveldlega orðið ofsoðið og allt of mjúkt.
Það er rosalega gott að bera þetta fram með rifnum osti. Hann bráðnar og gefur mjög gott bragð – en að sjálfsögðu er hægt að sleppa honum ef maður vill vera í hollustunni.
No Comments
No comments yet.
RSS feed for comments on this post.
Leave a comment