Beikonvafðar grísalundir

Ég er almennt enginn sérlegur aðdáandi svínakjöts, en mér finnst lundirnar mjög góðar ef þær eru eldaðar rétt. Sem hentar vel þar sem þær eru oft á mjög góðu verði þannig það kostar þá ekki annað nýrað að elda góða máltíð. Þessi uppskrift hentar vel til ofnsteikingar, en það er líka mjög gott að grilla grísalundir og þá má alveg gera svipað – nema rjómasveppasósunni er þá ekki helt yfir heldur höfð til hliðar bara. Uppskriftin miðast við að lundirnar séu fylltar með fetaosti. En það er alls ekki nauðsynlegt að fylla þær. Þær verða mjög góðar beikonvafðar en án fyllingu.

 

Beikonvafðar grísalundir:

Dugar fyrir sirka 4
Hiti: 180°C
Tími: Undirbúningur: 30 mín, ofnbökun: 30 mín

800 gr. – 1 kg. grísalundir
1/2 krukka fetaostur, eða annar góður ostur – má sleppa ef maður vill ekki fyllingu
200-300 gr. beikon
1 box sveppir
500 ml. rjómi (ég nota oftast matreiðslurjóma en sósan verður þykkari með venjulegum)
1/2 – 1 rifinn piparostur (eða annar ostur eftir smekk, villisveppaosturinn er líka mjög góður) – þessu má sleppa, en gerir sósuna aðeins meira djúsí
salt + pipar

 

IMG_9550Skerið sveppina í sneiðar og rífið piparostinn. Hreinsið sinar af svínalundunum og skerið svo rauf í þær til að setja fetaostinn inn. Raufirnar þurfa að vera eins djúpar og hægt er án þess að skera alveg í gegn. Dreifið úr fetaostinum í raufirnar og lokið þeim svo.

 

IMG_9553Vefjið beikoninu þétt utanum lundirnar þannig að þær haldist lokaðar og osturinn renni ekki út.

 

Brúnið lundirnar á frekar heitri pönnu. Ég nota enga olíu því beikonið gefur frá sér svo mikla fitu. Þegar búið er að brúna allar hliðar á lundunum eru þær settar í eldfast mót.

Því næst eru sveppirnir steiktir á pönnunni, rjómanum helt yfir og piparosturinn bræddur í rjómanum og saltað og piprað eftir smekk. Passið saltið því sósan verður enn saltari út af beikoninu. Um leið og osturinn er bræddur er sósunni helt yfir grísalundirnar og þetta sett inn í 180°C heitan ofninn og látið malla þar í 25-30 mín. Mér finnst langbest að nota kjöthitamæli til að vita hvenær kjötið er tilbúið. Við 65° eru þær medium steiktar en vel steiktar við 75°.

Mér finnst gott að bera lundirnar fram með kartöflubátum (kaupi oft tilbúnar frá Þykkvabæ sem mér finnst mjög góðar – en auðvitað er best að búa þær til sjálfur), maísbaunum og góðu fersku salati. Í þetta skiptið gerði ég þessa salatdressingu með salatinu, en oft er ég bara með afganginn af fetaostinum 🙂

IMG_9570

Share

No Comments

No comments yet.

RSS feed for comments on this post.

Leave a comment

WordPress Themes