Sveskju og perumauk

Eins og kom fram í síðustu færslu hafa sveskjur losandi áhrif á krílin. Það eru hins vegar ekki öll börn hrifin af þessu eintómu, auk þess sem það er gott að geta drýgt þetta aðeins til að minnka kostnað og vinnu. Þá hentar vel að nota perur þar sem þær eru líka frekar losandi, auk þess eru þær bragðgóðar og oftast eitthvað sem börnin hakka í sig af bestu lyst. Hér á eftir kemur uppskrift að sveskju og perumauki sem er í miklu uppáhaldi hjá syni mínum. Þetta mauk má gefa eintómt eða blanda því út í graut eða annað gott.

Peru og sveskjumauk:

Hentar frá 6 mánaða
Geymist í 2 mánuði í frysti eða sirka 2 daga í ísskáp.

200 gr. sveskjur (sirka 1/2 poki)
2 vel þroskaðar perur
Vatn

Sveskjurnar eru mýktar með því að annað hvort leggja þær í bleyti eða sjóða þær örstutt eins og hægt er að lesa um hérna.

Perurnar eru afhýddar og kjarninn hreinsaður úr þeim. Þær þarf ekki að sjóða ef þær eru vel þroskaðar og mjúkar. Perur og sveskjur eru svo maukaðar með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Notið vatnið sem sveskjurnar voru mýktar í til að þetta verði hæfilega þykkt.

Gott að frysta í klakaboxum eða í litlum boxum í hæfilegri skammtastærð.

IMG_9725

Share

No Comments

No comments yet.

RSS feed for comments on this post.

Leave a comment

WordPress Themes