Pepperóní og sveppapasta
Ég elska góða pastarétti og þá sérstaklega þá sem tekur ekki langan tíma að elda. Oft verða svoleiðis réttir fyrir valinu um helgar þegar okkur langar í eitthvað gott og erum lítið að spá í hollustunni. Þessi uppskrift er alveg rosalega bragðgóð. Hún er ekki með rjóma en er samt alveg rosalega djúsí og góð. Það er þó mikilvægt að nota fersk hráefni í hana; ferska tómata og sveppi, ferska basiliku og ferskan parmesan.
Pasta með pepperóní, sveppum og tómötum:
Dugar fyrir sirka 4
Tími: Undirbúningur: 30 mín, eldun: 30 mín
350-400 gr. gott pasta að eigin vali
3 msk. olía
50 gr. smjör
6-7 hvítlauksrif
2 box af sveppum (400-500 gr.)
2 box af kirsuberjatómötum eða sirka 500 gr. af tómötum.
200 gr. pepperóní
Búnt af ferskri basiliku
4 msk. balsamic edik
100-150 gr. parmesan ostur
salt og pipar
Fyrir þessa uppskrift er best að undirbúa hráefnið áður en byrjað er að elda. Merjið eða skerið hvítlaukinn smátt. Skerið sveppina í grófar sneiðar og skerið kirsuberjatómatana í tvennt (eða í sambærilega bita ef þið eruð með stærri tómata). Pepperóníið er skorið frekar smátt. Ég nota oft pepperóní enda sem eru seldir aðeins ódýrari en eru alveg jafn góðir. Sker þá svo í hæfilega stóra teninga. Basilikan er skorin gróft og parmesan osturinn rifinn frekar gróft.
Pastað er eldað skv. leiðbeiningum. Á meðan það er að sjóða er sósan útbúin.
Hitið olíuna á stórri pönnu. Steikið hvítlaukinn í olíunni og bætið svo smjörinu við. Þegar smjörið er bráðið er sveppunum bætt við. Steikið þá í smá stund og bætið svo pepperóní við. Tómötum og meirihluti basilikunnar er svo bætt við (geymið smá til að dreyfa yfir í lokin). Látið malla í smá stund eða þangað til tómatarnir eru farnir að mýkjast. Þá er balsamic edikinu bætt út í og sirka 2/3 af parmesan ostinum (geymið afgangin til að setja yfir í lokin). Þegar þetta hefur blandast vel er pastanu bætt út í og blandað saman. Ef þetta er of þurrt má hafa smá vatn af pastanu með til að bleyta upp í þessu.
Að lokum er pastað sett á diska og smá basiliku og osti dreyft yfir. Gott að bera fram með góðu salati og hvítlauksbrauði.
No Comments
No comments yet.
RSS feed for comments on this post.
Leave a comment