Mjúkir kanilsnúðar

Þegar ég bjó úti í Svíþjóð voru þessir snúðar eitthvað sem var alltaf til í frystinum. Mamma bakaði þá reglulega og þeir voru alltaf jafn góðir, sérstaklega nýbakaðir beint úr ofninum. Kanilsnúðar eru eitthvað voðalega sænskt fyrir mér, enda elska Svíar þá og þeir eiga meira að segja sinn eigin dag – “dagur kanilsnúðsins” sem er alltaf þann 4. október. Það verða samt að vera mjúkir snúðar, þessir gamaldags hörðu sem hafa verið vinsælir hér á Íslandi þekkjast ekki í Svíþjóð.

Hér kemur uppskriftin hennar mömmu að þessum dásamlegu mjúku kanilsnúðum.

 

Mjúkir kanilsnúðar:
40 snúðar
Ofnhiti 230-240°C
Tími: undirbúningur 20 mín, hefun 45 mín, fletja út og vinna snúðana 30 mín, hefun nr. 2 30-40 mín og bakstur 5-10 mín

Deig:
150 gr. smjör
½ l. mjólk
50 gr. pressuger eða einn pakki af þurrgeri (12 gr.)
1 dl. Sykur
½ tsk. Salt
900-950 gr. Hveiti (ca. 1,5 l. )
2 tsk. Mulin kardimomma eða kardimommuduft (má sleppa, en mér finnst þetta gefa snúðunum svo gott bragð)

Fylling:
100 gr.  Smjör
1 dl sykur
2 msk.  Kanill
Egg til að pensla með

Súkkulaðibráð:
Suðusúkkulaði
smá síróp (sirka 1 msk. fyrir hverja plötu af suðusúkkulaði)
örlítið af rjóma

Aðferð:

IMG_0194Smjörið er brætt, mjólkinni bætt út í og hitað í 37°C. Þessu er svo hellt í skál og gerið mulið útí. Blanda vel þannig að gerið leysist upp. Hveiti, sykur og salt (og kardimomma) sett útí mjólkina og hnoðað vel. Það er fínt að setja ekki alveg allt hveitið út í strax, og bæta frekar út í ef deigið er of blautt. Deigið er svo látið hefast í sirka 45 mín.

IMG_0197Á meðan er fínt að útbúa fyllinguna. En til að það sé auðveldast að blanda þessu saman hita ég smjörið alltaf smá í örbylgjunni til að mýkja það. Svo er sykri og kanil bætt út í og hrært saman.

 

 

IMG_0204Þegar deigið er búið að tvöfalda stærð sína er hveiti stráð á borðplötuna og deigið tekið úr skálinni og hnoðað aðeins. Því næst er því skipt upp í 4 hluta. Hver hluti er svo flattur út í ferhyrning (sirka 20×30 cm.) og svo er fyllingin smurð á og rúllað saman.

 

IMG_0209Svo er hver rúlla skorin í 10 sneiðar og sneiðarnar settar á plötu. Mér finnst best að nota muffins form fyrir snúðana. Þannig halda þeir sér betur saman í staðinn fyrir að gliðna í sundur. En það er líka í góðu lagi að setja þá bara beint á bökunarpappírsklædda plötu. Snúðarnir stækka töluvert í viðbót, þannig það þarf að passa að hafa nóg bil á milli þeirra.

IMG_0217Þegar þeir eru allir komnir á plötur þá eru þeir látnir hefast í 30-40 mín. í viðbót. Að lokum eru þeir penslaðir með hrærðu eggi bakaðir í 5-10 mín á 230-240° í miðjum ofni. Það þarf að fylgjast mjög vel með snúðunum því þeir eru fljótir að bakast.

 

Þegar búið er að taka snúðana út úr ofninum er fínt að gera súkkulaðibráðina á meðan þeir kólna. Ef maður vill frekar venjulegan glassúr (flórsykur, kakó, vatn) er það líka í góðu lagi. Svo er súkkulaðið sett ofaná og þá eru þeir tilbúnir. Það er í góðu lagi að frysta snúðana, en ég myndi sleppa súkkulaðinu þá og setja það frekar á þegar þeir eru þýddir.

IMG_0236


IMG_0242

Share

3 Comments

 • By Ólöf, 02/09/2013 @ 10:45

  Hvað heldur þú að þurfi af kardimommudufti (á bara svoleiðis) … var að spá í 1/2 – 1 teskeið.

  Líst rosalega vel á þessa uppskrift og ætla að gera hana næstu helgi 🙂

 • By Unnur Karen, 02/09/2013 @ 11:11

  Það er í raun það sem ég er að nota og nota 2 tsk. af því. Upphaflega uppskriftin er með 2 tsk. af dufti, en þetta er sænsk uppskrift og þar er oftast sett kardimomma í kanilsnúða. Þannig fólk er vant því að finna ágætis kardimommubragð. E.t.v. mætti hafa minna, en ég set alltaf 2 tsk. og hef aldrei fengið annað en hrós fyrir þessa kanilsnúða 🙂

 • By Ólöf, 02/09/2013 @ 16:04

  Takk fyrir svarið. Sammála þér með kardimommubragðið – finnst það nauðsynlegt 😉 en það má ekki vera of mikið samt

Other Links to this Post

RSS feed for comments on this post.

Leave a comment

WordPress Themes