LKL skyrterta / Ostadessert

Þessi kolvetnaskerta uppskrift er í algjöru uppáhaldi. Það er hægt að nota hana og gera ostaköku, eða ostadessert í litlum skálum, eða hreinlega fá sér sem morgunmat – með eða án hindberjasultunnar. Ég hef t.d. fengið mér kurlið ofaná sykurlaust skyr – í staðinn fyrir morgunkorn eða müslí.

Uppskriftirnar fyrir kurlið og hindberjasósuna eru frekar ríflegar og duga fyrir fleiri en ég gef upp hér að neðan. Það má minnka uppskriftirnar aðeins, en sjálfri finnst mér betra að hafa þær svona og eiga þá afgang.

Mæli svo sannarlega með þessari 🙂

Ostadessert / ostakaka / lúxus morgunmatur:

Dugar fyrir sirka 4 (kurlið og hindberjasósa dugar fyrir fleiri)
Tími: 30-45 mín

Kurl/Botn:
50 gr. brætt smjör
1,5-2 dl. möndlumjöl
hakkaðar pecanhnetur (magn eftir smekk – má líka sleppa)
örlítið sætuefni (stevía eða sukrin eða annað, best að smakka til – en það má líka sleppa þessu)
Kanill (eftir smekk – má líka sleppa)

Þessu er blandað saman og dreift á bökunarplötu og svo inn í ofn á 175°C í sirka 15-20 mín, eða þangað til þetta fær smá lit (passa bara að þetta brenni ekki). Það má setja aðrar tegundir af hnetum og gróf hakkaðar möndlur jafnvel. Leyfa svo að kólna. Þetta geymist vel í lokuðu íláti – mjög gott að eiga þetta og nota t.d. út á sykurlaust skyr.

Hindberjasósa
250 gr. frosin hindber
2-3 msk. sukrin/erythritol sætuefni ( má nota annað líka – best að smakka bara til ) – Ath. ef notaðir eru stevia dropar þarf bara örfáa dropa.

Hindberin sett í pott og hituð ásamt sætuefninu. Smakka til, sumir vilja hafa þetta mjög sætt en aðrir kannski aðeins súrara. Ef þetta verður of þykkt má þynna með smá vatni.  Leyfa svo að kólna.

Rjóma/osta/skyr blanda
Ég er búin að prófa þrjár útáfur, hér koma þær. Ef það á að nota þetta t.d. til að gera ostaköku í fati þá er betra að tvöfalda uppskriftirnar svo þetta dugi betur. En ef þær eru ekki tvöfaldaðar þá dugar þetta fyrir 3-4 skammta.

Útgáfa 1 (þessi er með meira ostabragði):
2 dl. grísk jógúrt
100 gr. rjómaostur
Smá rjómi til að þynna
Sætuefni (ég nota smá stevíu)

Hræra öllu saman og smakka til með sætuefninu.

Útgáfa 2 (svipaður og skyrkaka):
2-3 dl. Vanillu skyr.is (hér mætti líka nota hreint skyr og svo sætuefni, t.d. stevíu með bragði)
2-3 dl. Þeyttur rjómi
2-3 msk. Grísk jógúrt

Þessu er öllu blandað saman. Í rauninni mætti sleppa jógúrtinni, en mér fannst þetta allt of sætt án hennar.

Útgáfa 3 (einföld, en mjög bragðgóð):
2-3 dl. sykurlaust skyr.is, t.d. vanillu eða melónur og ástaraldin  (hér mætti líka nota hreint skyr og svo sætuefni, t.d. stevíu með bragði)
2-3 dl. grísk jógúrt
2-3 msk. rjómi til að þynna

Allt hrært saman, rjóminn notaður til að þynna aðeins svo þetta verði ekki of þykkt.

Þegar búið er að gera kurlið, sultuna og ostablönduna er komið að því að setja þetta saman. Þá er hægt að fara nokkrar leiðir.

Ef það á að gera ostaköku er kurlið sett í botninn á fati og þjappað svolítið. Í þessu tilfelli mætti setja aðeins meira smjör og hafa þetta aðeins blautara svo að þetta þéttist betur. Því næst er ostablandan sett ofaná og að lokum er hindberjasósunni dreift yfir.

Það má líka gera þetta bara í glös eða skálar.  Setja kurlið á botninn, svo ostablönduna og svo hindberjasósu og svo jafnvel gera annað lag með kurli og svo framvegis.  Kæla svo í smá stund áður en þetta er borið fram.

Maður stjórnar því svo bara sjálfur hvað maður setur mikið af hverju. En kurlið og sósan dugar allavegana fyrir 6-8 skammta, hins vegar duga rjómablöndurnar aðeins minna og betra að tvöfalda uppskriftirnar ef þetta á að duga fyrir marga.

skyrdessert

Share

No Comments

No comments yet.

RSS feed for comments on this post.

Leave a comment

WordPress Themes