Sveppasúpa með kókosmjólk
Þessi sveppasúpa er mjög einföld og alveg rosalega bragðgóð. Kókosmjólkin gefur svo gott bragð og fyllingu. Í uppskriftinni er ekki neitt hveiti eða álíka til að þykkja súpuna. Hún hentar því vel þeim sem eru á lágkolvetnafæði sem er svo vinsælt núna 🙂
Ég vil ekki hafa súpur of þykkar og sumum myndi jafnvel finnast þessi súpa aðeins of þunn, en þá er lítið mál að bæta bara við meiri rjóma og sjóða aðeins lengur. Þá þykknar hún aðeins. Svo er alltaf hægt að hrista smá vatn og hveiti saman og hella út í til að þykkja hana.
Sveppasúpa með kókosmjólk:
Dugar fyrir sirka 4
Tími: 30-45 mín
1 box af sveppum (má vera meira ef maður vill mikið af sveppum)
1 laukur
2-3 hvítlauksrif
50 gr. smjör
smá búnt graslaukur (má sleppa eða nota þurrkaðan graslauk)
800 ml. vatn
2 teningar af grænmetiskrafti
1 dós kókosmjólk
1 dl. rjómi eða mjólk
Aðferð:
Laukur, graslaukur og hvítlaukur er skorinn smátt og steiktur í smjörinu. Sveppirnir eru skornir í sneiðar og settir út í þegar laukurinn er farinn að mýkjast vel. Þegar sveppir eru orðnir vel steiktir er vatni bætt út í og grænmetisteningum. Að lokum er kókosmjólkinni bætt út í og svo smá rjóma eða mjólk. Þetta er svo látið malla í smá stund eða þangað til þetta er hæfilega þykkt.
Til að hafa súpuna enn þykkari er hægt að setja meiri rjóma eða gera hveitiblöndu (hrista saman vatn + smá hveiti) og þykkja með því.
No Comments
No comments yet.
RSS feed for comments on this post.
Leave a comment