Ferskt ítalskt salat með hráskinku
Ég er forfallinn hráskinku aðdáandi og sérstaklega þegar henni fylgir annað ítalskt góðgæti eins og parmesanostur. Þar sem ég er að prófa mig áfram á lágkolvetnamataræðinu þá ákvað ég að reyna að búa til eitthvað djúsí og gott salat sem hentar því vel. Útkoman varð það góð að ég gæti borðað þetta í öll mál. Og það besta er, er að þetta er ótrúlega einfalt – og ekkert mál að eiga allt hráefni til í ísskápnum og útbúa þetta þegar aðrir á heimilinu fá eitthvað kolvetnaríkara.
Hér er uppskriftin, en það er tilvalið að bæta því við sem hver vill. T.d. get ég ímyndað mér að það sé gott að setja ólífur í þetta líka.
Ferskt ítalskt salat með hráskinku:
Dugar fyrir 1
Tími: 15 mín
Klettasalat (ruccola) (magn fer eftir smekk, ég nota tæplega hálfan poka í einn skammt fyrir mig)
3-4 sneiðar af hráskinku
ferskur mozzarellaostur ( best að nota litlu kúlurnar, en oft nota ég 1/3 af stórri kúlu sirka og sker bara í litla bita)
ferskur parmesan
3-5 konfekt – eða kirsuberjatómatar
sólþurrkaðir tómatar eftir smekk
fersk basilika (má sleppa, en gerir ótrúlega gott bragð)
2 tsk. grænt pestó
Aðferð:
Klettasalatið er skolað og sett á disk. Mozzarellaostinum er stráð yfir, tómatarnir skornir í “báta” og settir yfir og svo er hráskinkan rifin niður og sett yfir allt saman. Sólþurrkuðu tómatarnir eru skornir smátt niður og bætt út í salatið. Pestóinu er dreift eins og hægt er (ég set bara smá klessur hér og þar) yfir allt saman og basilikan hökkuð smátt og sett yfir. Að lokum er ferskur parmesan rifinn yfir.
Ef maður er ekki að spá í kolvetnum er gott að fá sér hvítlauksbrauð með þessu.
No Comments
No comments yet.
RSS feed for comments on this post.
Leave a comment