Himnesk karamellusósa
Ég reyni alltaf að gefa eitthvað heimagert með jólapökkunum, sérstaklega sniðugt fyrir þá sem eiga allt – t.d. ömmur og afar. Síðustu jól langaði mig að gera eitthvað nýtt, en fyrri ár hefur heimagert konfekt og heimaberður brjóstsykur fengið að fljóta með gjöfunum. Þetta árið ákvað ég að gera sítrónumarmelaði og heimagerða karamellusósu. Ég prófaði nokkrar uppskriftir af karamellusósu og breytti og bætti og endaði með því sem að mínu mati er hin fullkomna karamella. Einföld, góð og hentar með ýmsu – t.d. á kökur, á ís, á aðra eftirrétti, út í kaffidrykkinn og svona gæti ég haldið áfram lengi. Þessa karamellusósu má geyma í sirka 2 vikur í lokuðu íláti inn í ísskáp – þannig það hentar einstaklega vel að útbúa jafnvel tvöfalda uppskrift og eiga svo afgangana inn í ísskáp fyrir seinni tilfelli 🙂
Karamellusósa:
Magn: sirka 2-3 dl.
Tími: sirka 60 mín
2,5 dl. sykur
1 dl. vatn
1,5 dl. rjómi
1/2 tsk. salt
1 tsk. vanilludropar
Vatnið og sykurinn er sett í pott og hrært aðeins til að þetta blandist, en eftir það er mikilvægt að hræra ekkert á meðan þetta mallar. Potturinn er settur á helluna á miðlungshita (eða rétt undir miðlungs, hjá mér var ég með þetta á 4, en 9 er hæst). Þarna er þetta látið malla ÁN ÞESS AÐ HRÆRA þangað til þetta verður gullinbrúnt á litinn. Þetta á ekki að bullsjóða, heldur bara rétt malla þannig það komi “bubblur”. Þetta getur tekið alveg 15-20 mín, jafnvel aðeins lengur. Á meðan er sniðugt að blanda saman rjóma, salti og vanilludropum.
Þegar sykurinn er orðinn gullinbrúnn á litinn þá er þetta tekið af hellunni og rjómablöndunni helt út í. Núna er mikilvægt að hræra vel þannig rjóminn blandist við sykurinn. Það getur verið að sykurinn kristallist að einhverju leyti, en þá er um að gera að hræra enn meira og láta hitann bræða hann aftur.
Þegar þetta hefur blandast ágætlega er þetta sett aftur á helluna, en hitinn lækkaður niður í mjög lágan, jafnvel lægsta hitann (ég stillti á 2 hjá mér) og þetta látið malla þangað til þetta er orðið slétt og fínt og farið að þykkna aðeins. Passið að hræra reglulega og fylgjast vel með svo þetta brenni ekki. Því lengur sem þetta fær að malla því þykkari verður karamellusósan. Ég lét þetta malla í u.þ.b. 10-15 mín og fékk góða þykka karamellusósu. Athugið að þegar sósan kólnar þá þykknar hún enn meira – þannig það er ekki mikið að marka það hvernig hún er þegar hún er heit.
Svo er bara að skella í hreina krukku, eða annað ílát, ef það á að geyma þetta.
No Comments
No comments yet.
RSS feed for comments on this post.
Leave a comment