Mexikósk baka – lkl
Mexikósk baka eins og þessi er í miklu uppáhaldi hér á bæ. Einföld, ódýr og allir í fjölskyldunni borða hana (ég nota ekki chili út af strákunum mínum). Þessa dagana er ég hins vegar að reyna að borða minna af kolvetnum og þess vegna ákvað ég að prófa að gera lágkolvetna útgáfu. Hún kom alveg svakalega vel út og enginn fann muninn. Þannig ég ákvað að skella inn uppskriftinni hérna, þrátt fyrir að hún sé í raun mjög svipuð og upprunalega uppskriftin.
Mexikósk lágkolvetna tacobaka:
Deig:
3,5 dl. möndlumjöl
1 msk. husk (má sleppa, en þá þarf meira möndlumjöl)
50 gr. smjör
1 tsk. paprikuduft
1/4 tsk. salt
1 egg
Hakkfylling:
500 gr. nautahakk
1 laukur
3 hvítlauksrif
2 dl. vatn
1 lítil dós, eða 2-3 msk. tómatpúrra
2-3 msk. chilisósa (t.d. frá Heinz – en þessu má sleppa og nota frekar hálfa dós af niðursoðnum tómötum eða annað sem er ekki jafn kolvetna ríkt og chilisósan)
2 tsk. chiliduft (sleppið eða minnkið ef þetta á ekki að vera mjög sterkt)
2 tsk. cumin
2 tsk. kóríanderduft
1 msk. sojasósa
1-2 tsk. salt
Ostafylling:
2-3 Tómatar, eða eitt box af kirsuberjatómötum
1 dós, eða sirka 2 dl. sýrður rjómi
3-4 msk. rjómaostur
150 gr. rifinn ostur
Byrjið á að gera deigið, því það þarf smá tíma til að standa og svo til að forbakast áður en fyllingin er sett í það. Skerið smjörið í litla teninga og hnoðið það saman við möndlumjöl, husk, salt og paprikuduft. Þegar þetta er orðið að mulningi er egginu bætt út í og hnoðað saman þannig úr verði þétt deig. Ef deigið er of blautt er minnsta mál að bæta við meira möndlumjöl eða kókoshveiti jafnvel. Þrýstið deiginu svo í bökuform eða annað eldfast mót. Stingið með gaffli hér og þar í botninn og látið deigið standa í smá stund (fínt ef hægt er að setja það í ísskáp á meðan). Bakið svo í 225 °C í sirka 10 mín.
Skerið laukinn smátt og pressið eða hakkið hvítlaukinn fínt, steikið svo ásamt hakkinu þar til hakkið er gegnumsteikt. Bætið vatni, tómatpúrru, chilisósu, sojasósu og kryddum út í og látið sjóða í 10-15 mín, eða þar til vatnið hefur að mestu gufað upp. Gott að smakka þetta til og bæta e.t.v. salti eða öðru kryddi við eftir smekk.
Hrærið sýrðum rjóma, rjómaosti og rifnum osti saman. Skerið tómatana í bita (í helminga ef kirsuberjatómatar) og dreifið yfir hakkið. Dreifið svo ostablandinu yfir tómatana.
Bakið svo í 200 °c í 20 mín, eða þar til ostablandið hefur fengið fallegan lit.
Gott að bera fram með fersku salsa, salati , sýrðum rjóma, avocado í bitum, guacamóle eða því sem ykkur dettur í hug hverju sinni.
No Comments
No comments yet.
RSS feed for comments on this post.
Leave a comment