Graskers- og brokkolímauk

Grasker er mjög sniðug fæða fyrir lítil kríli. Bragðið er frekar milt og gott og það passar vel með mörgum öðrum tegundum af mauki. Það er auk þess mjög hollt og inniheldur t.d. mikið af C-vítamínum. Þar sem C-vítamínuð aðstoðar líkamann við að nýta járn úr fæðu er þetta einstaklega heppilegt með járnríku grænmeti eins og brokkolí. Skortur á járni hefur m.a. áhrif á ónæmiskerfið og þess vegna er mikilvægt að börnin fái nóg af því um leið og þau byrja að borða. Þessi uppskrift er frekar stór og alveg í góðu lagi að helminga hana ef maður vill gera minna magn í einu. Ég set olíu eða aðra fitu beint út í maukið og frysti svo, en sumum finnst betra að frysta það án fitu og bæta henni svo út í þegar komið er að því að gefa barninu að borða. Magnið af fitu fer eftir því hvað maður telur barnið þurfa mikið. Ég er t.d. í þeirri stöðu að þurfa að gefa extra mikið af fitu þar sem strákurinn minn hefur ekki þyngst nógu mikið undanfarið.

Brokkolí- og graskersmauk:

Hentar frá 6 mánaða
Geymist í 2 mánuði í frysti eða sirka 2 daga í ísskáp.

IMG_9715

500 gr. grasker (ég notaði Butternut squash)
400 gr. brokkolí
1-2 msk. olía eða ósaltað smjör

 

 

 

IMG_9717Byrjið á því að afhýða graskerið. Ef ekki á að nota það allt er gott að skera það niður í helminga eða minni bita áður en hýðið er tekið af. Það er svo skorið í bita og sett í gufusuðupott eða í gufusuðusigti ofan í potti. Því minni bitar því styttri tíma tekur að sjóða það. Vatni er bætt út í pottinn, sirka 3-5 dl. ættu að duga – en það getur farið aðeins eftir pottum hve mikið þarf. Graskerið þarf svo að sjóða í sirka 15-20 mín, eða þangað til það er orðið mjúkt.

IMG_9721Þegar graskerið er byrjað að malla þá er gott að skola brokkolíið og skera niður í minni bita. Brokkolíið þarf ekki að sjóða jafn lengi og graskerið og því finnst mér auðveldasta leiðin að bæta því bara út í pottinn með graskerinu þegar það hefur fengið að sjóða í svona 5-10 mín. En það er líka í góðu lagi að sjóða það bara eitt og sér.

Þegar grænmetið er orðið mjúkt er það maukað ásamt olíu eða smjöri, annað hvort með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Gott er að nota vatnið sem var notað í gufusuðuna til að ná fram hæfilegri þykkt á maukinu.

IMG_9742

Share

Sveskju og perumauk

Eins og kom fram í síðustu færslu hafa sveskjur losandi áhrif á krílin. Það eru hins vegar ekki öll börn hrifin af þessu eintómu, auk þess sem það er gott að geta drýgt þetta aðeins til að minnka kostnað og vinnu. Þá hentar vel að nota perur þar sem þær eru líka frekar losandi, auk þess eru þær bragðgóðar og oftast eitthvað sem börnin hakka í sig af bestu lyst. Hér á eftir kemur uppskrift að sveskju og perumauki sem er í miklu uppáhaldi hjá syni mínum. Þetta mauk má gefa eintómt eða blanda því út í graut eða annað gott.

Peru og sveskjumauk:

Hentar frá 6 mánaða
Geymist í 2 mánuði í frysti eða sirka 2 daga í ísskáp.

200 gr. sveskjur (sirka 1/2 poki)
2 vel þroskaðar perur
Vatn

Sveskjurnar eru mýktar með því að annað hvort leggja þær í bleyti eða sjóða þær örstutt eins og hægt er að lesa um hérna.

Perurnar eru afhýddar og kjarninn hreinsaður úr þeim. Þær þarf ekki að sjóða ef þær eru vel þroskaðar og mjúkar. Perur og sveskjur eru svo maukaðar með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Notið vatnið sem sveskjurnar voru mýktar í til að þetta verði hæfilega þykkt.

Gott að frysta í klakaboxum eða í litlum boxum í hæfilegri skammtastærð.

IMG_9725

Share

Sveskjumauk

Um daginn þegar ég var að skoða Gerber krukku af sveskjumauki komst ég að því að í krukkunni er aðeins 28% sveskjur. Mér finnst það skuggalega lágt hlutfall, sérstaklega miðað við það sem hver krukka kostar. Svona mauk er ótrúlega vinsælt, sérstaklega þegar litlu krílin stíflast af öðrum mat. Þá er gott að setja smá mauk út í grautinn eða annan mat. Eða gefa það eintómt.

Það er mjög lítið mál að búa til sveskjumauk sjálfur, og margfalt ódýrara og því tilvalið að hafa það fyrstu maukuppskriftina hérna á síðunni.

 

Sveskjumauk:

Hentar frá 6 mánaða
Geymist í 2 mánuði í frysti eða sirka 2 daga í ísskáp.

1 poki af sveskjum
Vatn

Til að hægt sé að mauka sveskjurnar þarf að mýkja þær fyrst og þá er hægt að nota tvær aðferðir, leggja í bleyti yfir nótt eða sjóða þær.

IMG_9714

Sveskjurnar eru settar í skál og vatni hellt yfir þannig það fljóti yfir þær. Svo eru þær látnar liggja í vatninu í lágmark 5 klst., sniðugt að láta þær liggja í bleyti yfir nótt.

Hin aðferðin hentar vel fyrir þá sem eru óþolinmóðir eins og ég, en það er að setja þær í pott, setja vatn svo það fljóti yfir og sjóða svo í 10 mín. sirka.

Sveskjurnar eru svo maukaðar í matvinnsluvél eða með töfrasprota og vatnið sem þær lágu í/voru soðnar í er notað til að þetta verði hæfilega þykkt. Það þarf að nota frekar mikið vatn og oft þarf jafnvel að bæta við smá vatni úr krananum.

Maukið má frysta t.d. í ísmolaboxi. Því meira vatn því harðari verða molarnir. Ef lítið vatn er sett í það er jafnvel hægt að hafa það í stærra boxi og taka alltaf jafn óðum úr boxinu með skeið.

IMG_9728

Share

Barnamatur!

Þessa dagana fer mikill tími í allt sem tengist litlum 6 mánaða gaur, og þá finnst mér sérstaklega spennandi að gera fjölbreytt og bragðgóð mauk handa honum. Þar sem lítill tími hefur gefist í aðrar uppskriftir ákvað ég að búa til sér flokk fyrir barnamatinn og koma þar með uppskriftir að því sem ég er að gera fyrir strákinn minn.

Það er nóg að smella á flokkinn “barnamatur” til að finna þessar uppskriftir. Smám saman bætast líka við uppskriftir að öðru en mauki sem sniðugt er að gera fyrir litlu krílin, t.d. hollar útgáfur af kexi og öðru í þeim dúr.

Hér eru svo nokkrar síður sem eru með helling af uppskriftum af barnamat:

http://www.cafesigrun.com/flokkur/fyrir-smafolkid
http://www.pureebba.com/Tags/babyfood
http://www.annabelkarmel.com/recipes/first-foods

Og tvær á sænsku:

http://brabarnmat.se
http://www.barnmatsburken.se

Hér eru svo síður og bæklingar með upplýsingum um hvað á að gefa hvenær:

http://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item11448/version15/Naering_net.pdf
http://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item11428/version13/Dagforeldrar_Juni_2011.pdf
http://www.6h.is/index.php?option=content&task=view&id=285&Itemid=309
http://www.naeringarsetrid.is/Fyrsta_fa_yngri.html

Vonandi nýtist þetta einhverjum vel 🙂

Share

Beikonvafðar grísalundir

Ég er almennt enginn sérlegur aðdáandi svínakjöts, en mér finnst lundirnar mjög góðar ef þær eru eldaðar rétt. Sem hentar vel þar sem þær eru oft á mjög góðu verði þannig það kostar þá ekki annað nýrað að elda góða máltíð. Þessi uppskrift hentar vel til ofnsteikingar, en það er líka mjög gott að grilla grísalundir og þá má alveg gera svipað – nema rjómasveppasósunni er þá ekki helt yfir heldur höfð til hliðar bara. Uppskriftin miðast við að lundirnar séu fylltar með fetaosti. En það er alls ekki nauðsynlegt að fylla þær. Þær verða mjög góðar beikonvafðar en án fyllingu.

 

Beikonvafðar grísalundir:

Dugar fyrir sirka 4
Hiti: 180°C
Tími: Undirbúningur: 30 mín, ofnbökun: 30 mín

800 gr. – 1 kg. grísalundir
1/2 krukka fetaostur, eða annar góður ostur – má sleppa ef maður vill ekki fyllingu
200-300 gr. beikon
1 box sveppir
500 ml. rjómi (ég nota oftast matreiðslurjóma en sósan verður þykkari með venjulegum)
1/2 – 1 rifinn piparostur (eða annar ostur eftir smekk, villisveppaosturinn er líka mjög góður) – þessu má sleppa, en gerir sósuna aðeins meira djúsí
salt + pipar

 

IMG_9550Skerið sveppina í sneiðar og rífið piparostinn. Hreinsið sinar af svínalundunum og skerið svo rauf í þær til að setja fetaostinn inn. Raufirnar þurfa að vera eins djúpar og hægt er án þess að skera alveg í gegn. Dreifið úr fetaostinum í raufirnar og lokið þeim svo.

 

IMG_9553Vefjið beikoninu þétt utanum lundirnar þannig að þær haldist lokaðar og osturinn renni ekki út.

 

Brúnið lundirnar á frekar heitri pönnu. Ég nota enga olíu því beikonið gefur frá sér svo mikla fitu. Þegar búið er að brúna allar hliðar á lundunum eru þær settar í eldfast mót.

Því næst eru sveppirnir steiktir á pönnunni, rjómanum helt yfir og piparosturinn bræddur í rjómanum og saltað og piprað eftir smekk. Passið saltið því sósan verður enn saltari út af beikoninu. Um leið og osturinn er bræddur er sósunni helt yfir grísalundirnar og þetta sett inn í 180°C heitan ofninn og látið malla þar í 25-30 mín. Mér finnst langbest að nota kjöthitamæli til að vita hvenær kjötið er tilbúið. Við 65° eru þær medium steiktar en vel steiktar við 75°.

Mér finnst gott að bera lundirnar fram með kartöflubátum (kaupi oft tilbúnar frá Þykkvabæ sem mér finnst mjög góðar – en auðvitað er best að búa þær til sjálfur), maísbaunum og góðu fersku salati. Í þetta skiptið gerði ég þessa salatdressingu með salatinu, en oft er ég bara með afganginn af fetaostinum 🙂

IMG_9570

Share

Einföld salatdressing með hunangi og sinnepi

Þessi er mjög einföld og tekur enga stund að hræra saman. Það má líka útfæra hana á ýmsa vegu. T.d. sleppa hunangi til að minnka sætuna, bæta við kryddjurtum eða hvítlauk og bara nota hugmyndaflugið :). Ég nota einfaldlega glerkrukku til að búa dressinguna til í. Auðvelt að hrista hana saman og svo geymi ég afgangana í krukkunni.

 

Hunangs-sinneps dressing:

1 dl. góð olía (t.d. ólífuolía, en ég nota oft bara þá olíu sem ég á til)
4 msk. balsamic edic
1 – 1,5 msk. gott sinnep
1 msk. hunang
salt + pipar eftir smekk
 

Öll hráefni eru sett í glerkrukku eða annað ílát sem gott er að hrista í. Lokið sett á og þetta hrist vel þannig þetta blandist vel saman. Einnig hægt að nota skál og hræra kröftulega.

 

IMG_9592

 

Share

Karamellu skúffukaka

Þetta er upphaflega uppskrift sem ég bakaði og fannst vanta eitthvað í, þannig ég breytti henni aðeins. Bætti púðursykri í staðinn fyrir sykur og gerði karamellukrem ti lað setja ofaná. Útkoman er að mínu mati algjört sælgæti, mjúk og bragðgóð karamellusúkkulaðikaka með ótrúlega góðu kremi. Í uppskriftinni eru pekanhnetur, en það má alveg sleppa þeim fyrir þá sem borða ekki hnetur.

Karamelluskúffukaka og karamellukrem:

Tími: 60 mín (20 mín undirbúningur, 20 mín bakstur, 10 mín krem)
Hiti: 175°C

5 dl. hveiti
5 dl. púðursykur
1/2 tsk. salt
4 msk. kakó
230 gr. smjör
2,5 dl. sjóðandi vatn
1,25 dl. súrmjólk eða ab-mjólk
2 egg
1 tsk. matarsódi
1 tsk. vanilludropar

 

Krem:

200 gr. smjör
2,5 dl. púðursykur
1 dl. mjólk
1 tsk. vanilludropar
6,5 dl. flórsykur
1,25 dl. hakkaðar pekanhnetur
(2 msk. kakó) – ef maður vill smá súkkulaðibragð af kreminu

 

IMG_9431Blandið saman hveiti, sykri og salti í skál. Bræðið smjörið í potti og bætið út í kakói og hrærið. Bætið svo vatni út í og látið malla í sirka hálfa mínútu.  Hellið svo blöndunni  yfir hveitiblönduna og hrærið varlega saman þannig þetta sé nokkurn vegin blandað saman.

 

IMG_9435Setjið eggin í skál og hrærið þau aðeins. Bætið út í súrmjólk, matarsóda og vanilludropum og hrærið létt saman. Bætið blöndunni út í hina blönduna og hrærið saman.

Hellið blöndunni í form. Stærð formsins fer eftir því hversu háa köku þið viljið. Ég myndi mæla með formi sem er sirka 40 x 25 cm..

Bakið kökuna við 175°C í 20 mín.

 

Krem:

Á meðan kakan bakast er upplagt að gera kremið. Byrjið á því að hakka pekanhneturnar smátt. Mér finnst best að rista þær svo aðeins á pönnu, en það er ekki nauðsynlegt.

Bræðið smjörið í potti og bætið púðursykri út í. Látið malla í smá stund þangað til þetta blandast vel og verður eins konar þunn karamella. Hrærið stöðugt í pottinum á meðan til að þetta brenni ekki. Bætið svo mjólkinni útí og hrærið. Látið suðuna koma upp og takið svo af hellunni. Bætið svo vanilludropum og flórsykri út í og að lokum hnetunum. Ef maður vill fá smá súkkulaðibragð af kreminu er 2 msk. af kakói bætt út í á sama tíma og vanilludropunum. Hrærið vel svo að sykurinn leysist almennilega upp.

Gott er að láta kremið kólna aðeins svo það sé ekki of þunnt þegar það er sett á kökuna. Þetta er frekar stór uppskrift af kremi og það þarf því ekki að nota það allt á kökuna.

IMG_9591

 

Share

Ítölsk súpa með grænmeti

Þegar ég ætla að gera súpu bara úr því sem ég finn í ísskápnum enda ég oftast að gera eitthvað afbrigði af þessari súpu – það er nefnilega svo auðvelt að setja bara það sem maður á til í hana. Í þessari uppskrift er smá beikon, þannig það er kannski ekki rétt að kalla hana grænmetissúpu. En beikonið er eingöngu í henni til að gefa bragð og maður finnur varla fyrir því þegar súpan er borðuð – hins vegar er mikið grænmeti í henni og það er í raun það sem skiptir máli. Það er í raun hægt að setja bara það grænmeti sem maður á til í ísskápnum, uppskriftin er bara til viðmiðunar og alveg í góðu lagi að sleppa t.d. púrrulauk eða brokkolí – eða jafnvel sleppa beikoninu ef maður vill ekkert kjöt. Þá getur maður hins vegar þurft örlítið meira af salti.

Það er svo smekksatriði (og pínu hollustuatriði) hvort maður setur pasta eða ekki. Ég er með einn 4 ára sem elskar pasta og þess vegna finnst mér gott að hafa það í súpunni. Það er samt mikilvægt að setja ekki of mikið. Pastað bólgnar út og yfirgnæfir allt annað ef það er sett of mikið.  Einstaka sinnum set ég pylsubita út í þessa súpu – en þar sem ég reyni oftast að halda óhollustunni í lágmarki reyni ég að sleppa því. Þær gefa hins vegar gott bragð og súpan verður fyrir vikið enn vinsælli hjá eldri stráknum okkar.

Ítölsk grænmetissúpa með beikoni:

Tími: 1-2 klst.

smá olía
4-5 hvítlauksrif
1-2 laukar
4-5 gulrætur (sleppa ef súpan á að vera lkl væn)
Smá bútur af púrrulauk
200 gr. beikon
1 dós hakkaðir tómatar (velja sykurlausa ef súpan á að vera lkl væn)
3 msk. eða 1 lítil dós af tómatpúrru
2 teningar kjúklingakraftur
1,5-2 l. vatn
1 tsk. basilkrydd
1 tsk. oregano
1 tsk. timjan – ef maður á ekki eitthvert af þessum kryddum er allt í góðu að setja bara meira af því sem maður á. Það er einnig hægt að nota 3 tsk. af blönduðu ítölsku kryddi.
salt + pipar
brokkolí og annað grænmeti að eigin vali.
pasta (sleppa ef súpan á að vera lkl væn)
rifinn ostur

(Pylsubitar eru líka góðir út í súpuna – þeim er þá bætt út í á sama tíma og pastað)

 

Hvítlaukur er pressaður eða skorinn mjög smátt. Laukur og púrrulaukur eru skorin frekar smátt. Þetta er svo steikt upp úr smá olíu þangað til laukarnir eru búnir að mýkjast. Beikonið er skorið mjög smátt og bætt út í laukinn. Steikt þar til beikonið er gegnumsteikt. Þá er hökkuðum tómötum, tómatpúrru, gulrótum og öðru grænmeti og vatni bætt út í. Kjúklingateningar eru settir út í ásamt þurrkuðu kryddjurtunum (hér mætti nota ferskar kryddjurtir líka). Smakkað til með pipar og salti og látið malla þar til gulrætur eru gegnum soðnar og mjúkar. Þegar þetta bragðast vel og er að mestu leyti tilbúið er pastanu bætt út í og þetta soðið þar til pastað er tilbúið. Passið að sjóða ekki lengur en þarf þar sem pastað getur auðveldlega orðið ofsoðið og allt of mjúkt.

Það er rosalega gott að bera þetta fram með rifnum osti. Hann bráðnar og gefur mjög gott bragð – en að sjálfsögðu er hægt að sleppa honum ef maður vill vera í hollustunni.

 

IMG_9312

Share

Hollt bananabrauð

Ég hef áður sagt frá því að ég er dugleg að nota gamla banana í baksturinn. Ég hef þó hingað til alltaf gert dísætt ansi óhollt bananabrauð og verið hálf hrædd við að prófa hollar uppskriftir. Þar sem núna er tíminn fyrir átak ákvað ég samt að láta á það reyna og prófa eina uppskrift sem ég fann á netinu – og hún kom mikið á óvart. Bragðast mjög vel og er alls ekki flókið.

 

Hollt bananabrauð, sykurlaust og með heilhveiti
Hiti: 170°C
Tími: undirbúningur 20-30 mín, bakstur 60 mín

150 gr. döðlur (sirka 2,5 dl.)
1,5 dl. heitt vatn
1/2 dl. olía
2 egg
1/2 tsk. salt
5 dl. hveiti eða heilhveiti (ég setti helming af hvoru)
1 tsk. matarsódi
1/2 tsk. lyftiduft
3 stórir vel þroskaðir bananar
1 tsk. vanilludropar
1,5 dl. hakkaðar hnetur, t.d. pecan hnetur (hér er líka hægt prófa t.d. fersk bláber – en þessu má líka sleppa)

 

Hitið ofninn í 170°C og smyrjið ílangt form með olíu eða smjöri.

Setjið döðlurnar í matvinnsluvél eða mixer (hér er líka hægt að nota skál og töfrasprota). Hellið heita vatninu yfir og látið standa í lágmark 10 mín. Á meðan er fínt að undirbúa restina af hráefninu. Stappið bananana og geymið þá til síðar. Blandið saman hveiti ( + heilhveiti ), matarsóda, lyftidufti og salti í skál.

Þegar döðlurnar hafa legið í vatninu í 10 mín eru þær maukaðar með vatninu þar til þetta er orðið leðjukennt. Olíunni er bætt út í og eggjunum svo einu í einu og hrært á milli. Bætið vanilludropunum og stöppuðu bönununum að lokum í og blandið þessu saman.

Döðlu og banana blöndunni er svo hellt út í hveitiblönduna ásamt hnetunum. Blandið þessu varlega saman. Passið að hræra ekki of lengi. Þessu er svo hellt í formið og bakað í sirka 50-60 mín. Prófið að stinga hníf eða öðru í þetta til að athuga hvort þetta sé tilbúið. Eftir að þetta er tekið út úr ofninum er gott að láta þetta standa í 10-20 mín og kólna aðeins í forminu. Þetta er svo losað úr forminu og helst borið fram heitt. Gott að bera fram með smjöri og osti (en þá hverfur hollustan aðeins..)

 

IMG_9309

Share

Frönsk lauksúpa

Þessi súpa er alveg tilvalin þegar manni langar í eitthvað hollt og gott sem má ekki kosta of mikinn pening. Megin uppistaðan er laukur og hann er hræódýr – þannig það er vel hægt að gera risa pott af þessu án þess að það kosti mikið meira en 1000 kr. Svo bætist brauð + ostur við, en það er alveg hægt að stjórna því hve mikið maður setur af því. Þessi uppskrift er ekki alveg eins og þessar hefðbundnu því ég set smá tómatpúrru og worcestershire  út í til að gera þetta enn bragðbetra. Það er í góðu lagi að sleppa því og þá er restin alls ekki mjög frábrugðin öðrum hefðbundnari uppskriftum. Mér finnst líka mjög gott að gera hana aðeins “spicy” með því að setja smá cayenne pipar og jafnvel smá chili líka.

Frönsk lauksúpa með tómatívafi:
Tími: 1-2 klst. (þessi verður betri ef hún fær að malla svolítið lengi)
Dugar fyrir 4-6
ca. 6 laukar (650-750 gr. – þarf alls ekki að vera mjög nákvæmt)
1 msk. olía
50 gr. smjör
3 msk. hveiti
1 msk. worcestershire sósa
2 l. vatn
3 teningar af kjötkrafti
2 msk. tómatpúrra
cayenne og chili eftir smekk
salt

ristaðar brauðsneiðar (hér myndu flestir segja hvítt brauð, en ég nota oftast bara það sem ég á til svo framarlega sem það er ekki mjög dökkt brauð)
ostur

Laukurinn er skorinn í þunnar sneiðar. Smjörið og olían eru sett í stóran pott og hitað þangað til smjörið er bráðnað, svo er lauknum bætt út í og steikt við vægan hita þangað til laukurinn er farinn að brúnast aðeins. Þetta getur tekið smá stund, en um að gera að vera þolinmóður því súpan verður best ef laukurinn fær að brúnast. Svo er hveitinu stráð yfir og hrært í þessu í sirka 2 mín. Vatninu er svo bætt út í og svo kjötkrafti, worcestershire sósu og tómatpúrrunni. Mér finnst best að byrja á 2 teningum af kjötkrafti og bæta hinum svo við ef þess þarf í lokin til að þetta verði ekki of salt. Þetta er svo látið malla í lágmark 30 mín, helst lengur. Að lokum er þetta smakkað til með cayenne og chili og smá salti.

Þegar súpan er tilbúin er ofninn stilltur á grill og súpan sett í skálar, ristuð brauðsneið sett ofaná hverja skál og svo er rifnum osti, eða ostasneiðum dreift yfir. Þessu er svo skellt inn í ofn og osturinn látinn bráðna og gjarnan brúnast örlítið. Ef maður vill halda hollustunni í hámarki þá er best að vera sparsamur á brauð + ost, súpan er best með þessu ofaná, en er samt sem áður mjög góð ein og sér líka.

Farið varlega þegar þið takið þetta úr ofninum því skálarnar eru sjóðandi heitar.

 

IMG_9261

Share

Facebook síðan!

Vildi bara rétt minna á facebook síðuna mína sem er hérna: https://www.facebook.com/HerErMaturUmMat
Þar læt ég vita um leið og ný uppskrift er komin og kem með ýmislega pósta varðandi mat og bakstur 🙂

Share

Kjúklingaborgari með fetaosti

Ég er lengi búin að vera á leiðinni að prófa að búa til kjúklingaborgara frá grunni. Hef einhverra hluta vegna miklað það fyrir mér og gert ráð fyrir að það væri flókið og tímafrekt – en þar hafði ég heldur betur rangt fyrir mér. Prófaði þetta loksins í dag og þetta var ekkert mál. Notaði bara það sem var til í ísskápnum og þetta kom alveg ótrúlega vel út. Hlakka til að prófa að nota önnur krydd seinna meir. Ég bar þetta svo fram með spelt hamborgarabrauðum og sinnepsjógúrtsósu og grænmeti, en það má líka bera þetta fram sem buff með t.d. hrísgrjónum. Það kom mér mikið á óvart hversu safaríkt og bragðgott þetta var – sérstaklega gott fyrir einhvern eins og mig sem finnst kjúklingur oft verða of þurr. Uppskriftin er frekar stór, ég nefnilega notaði heilan poka af frystum kjúklingabringum – en það má auðvitað minnka magnið ef maður vill ekki eiga afgang. Mér sjálfri fannst tilvalið að skella bara afganginum í frysti og eiga næst þegar ég nenni ekki að elda 😉

 

Kjúklingaborgari með fetaosti:
Tími: 30-40 mín
dugar í sirka 10 stk. 100 gr. borgara.

900 gr. bein- og skinlausar kjúklingabringur
1/2 krukka fetaostur
1 msk. rautt pestó
1 tsk. salt
1 egg

Hakkið kjúklingabringurnar annað hvort í matvinnsluvél, mixer, töfrasprota eða í hakkavél. Passið að hakka ekki of mikið svo þetta verði ekki of maukað – það er gott að hafa þetta frekar gróft. Þar sem þetta er frekar mikið magn í uppskriftinni er líklegt að það þurfi að gera þetta í 2-3 skömmtum. Setjið hakkaða kjúklingakjötið í skál og bætið út í fetaosti (sleppið olíunni), eggi, pestó og salti. Mótið borgara/buff úr þessu og steikið á pönnu. Ef ykkur finnst borgararnir verða of lausir í sér er ekkert mál að bæta 1 dl. af brauðmylsnu út í þetta. Ég kýs þó að sleppa því þar sem það er alveg nóg að maður borði kolvetnin í brauðinu.

Gott að bera fram með (helst grófu) hamborgarabrauði, góðu káli, gúrkum, tómötum og því grænmeti sem ykkur langar í. Við steiktum líka sveppi til að hafa með. Svo er hægt að nota t.d. sinnepssósu með þessu. Ég fann tilbúna sinnepsjógúrtsósu frá E. Finnson sem passaði rosalega vel með og var ekki eins fiturík og majonessósurnar.

 

Share

Kanilmuffins með vanillurjómaostakremi

Mig langaði svo í jólaleg muffins fyrir síðustu jól – og prófaði þá að gera kanilmuffins sem ég fann einhvers staðar á netinu, með smá breytingum þó. Þessi muffins voru mjög góð, mjúk og alveg nógu jólaleg – en samt ekki of, þannig þau passa allan ársins hring.

Kanilmuffins með vanillurjómaostakremi:
Sirka 18 stk.
Hiti: 190 °C

Muffins:
180 gr. púðursykur
130 gr. smjör
2 egg
5 dl. hveiti
1 tsk. matarsódi
1/2 tsk. salt
1,5 tsk. mulið engifer (krydd)
1 tsk. kanill
1/2 tsk. mulinn negull
2 dl. vatn

Krem:
60gr. smjör
100 gr. rjómaostur
250 gr. flórsykur
1 tsk. vanilludropar

Muffins – aðferð:
Stillið ofninn á 190°C. Ég nota blástur, en undir/yfirhiti hentar fínt líka en þá gæti baksturstíminn orðið örlítið lengri.

Hrærið smjör og púðursykur saman þannig þetta verði blautur sykurmassi. Bætið eggjunum út í einu í einu og hrærið vel á milli. Hrærið þetta þangað til þetta verður létt og ljóst. Bætið hveiti, matarsóda, kryddum og vatni útí og hrærið þangað til þetta er búið að blandast saman. Passið að hræra ekki of mikið því þá verður þetta ekki jafn mjúkt og gott.

Setjið deigið í form, ég nota alltaf tvær skeiðar og rétt rúmlega hálfylli formin. Þetta verða um 18 muffins, allt eftir því hve mikið þið setjið í hvert form. Ef það á að sleppa kreminu er alveg óhætt að setja aðeins meira í formin – en ef það á að setja kremið á finnst mér betra ef muffinsin séu ekki of stór.

Þetta er svo bakað í sirka 15-18 mín. Eftir 15 mín er fínt að stinga prjóni í eina köku til að athuga hvort hún sé tilbúin – ef það festist deig á prjóninum þá þarf að baka þetta aðeins lengur. Muffinsin þurfa svo að kólna áður en kremið er sett á, þannig það er fínt að taka þau út og gera svo kremið á meðan þau kólna.

Krem – aðferð:
Hrærið saman smjör og rjómaost. Bætið flórsykri og vanilludropum út í og þeytið í nokkrar mínútur. Smyrjið þessu, eða sprautið á kökurnar.

 

Share

Pavlova a’la Unnur

Þetta er ekki alveg hin klassíska pavlova, heldur smá breytt útfærsla eins og mér finnst góð. Mér finnst marengs með púðursykri svo góður þannig ég nota þannig í bland við venjulegan sykur svo set ég líka smá daím kurl með rjómanum.
Það er ekkert mál að gera botninn deginum áður, en best er að setja rjómakrem og ávexti á bara klst. áður en þetta er borið fram.

 

Pavlova:

Marengs:
6 eggjahvítur
2,5 dl. sykur
1,5 dl. púðursykur
1 tsk. edik
1 /2 tsk. vanilludropar
salt á hnífsoddi
Rjómakrem:
4 dl. rjómi
4 msk. flórsykur
1/2 tsk. vanilludropar
100 gr. karamellukurl eða daím kurl

Ávextir að eigin vali. Gott að hafa t.d. jarðaber, bláber og kíví.

Marengs:

Stífþeytið eggjahvíturnar og bætið sykri, púðursykri, ediki, salti og vanilludropum við. Þeytið svo þangað til þetta er orðið stíft og hægt að hvolfa skálinni án þess að þetta renni út. Smyrjið marengsinn á smjörpappír – búið til 26-28 cm. hring (hægt að nota kökuform til að fara eftir). Bakið við 100 °C í 2 klst. Fínt að láta þetta kólna svo í ofninum.

Krem:

Þeytið rjómann og blandið flórsykri og vanilludropum við. Smyrjið honum á marengsinn. Dreifið karamellukurli yfir rjómann. Skerið ávextina niður og dreifið á rjómann.

 

 

Share

Sætkartöflusúpa með indverskum blæ

Ég hef oft rekist á uppskriftir að súpum með sætum kartöflum, en aldrei þorað almennilega að prófa – þangað til núna. Og ég varð heldur betur ekki fyrir vonbrigðum. Ég var búin að finna nokkrar mismunandi uppskriftir á netinu og ákvað að blanda þeim svolítið saman frekar en að velja bara einhverja eina þeirra. Útkoman er rosalega góð og holl súpa sem er alls ekki flókin og auðvelt er að breyta eftir því hvað maður á í ísskápnum. Það er t.d. alveg hægt að sleppa gulrótum og setja bara aðeins meira af kartöflum í staðinn. Hún er pínu spicy þannig það er best að smakka sig svolítið til með kryddin. Ég elska sjálf ferskt kóríander og finnst rosalega gott að hafa það í súpunni, en hún er samt alveg góð án þess – þannig um að gera að sleppa því ef maður á það ekki til eða er ekki hrifinn af því.

Sætkartöflusúpa með indverskum blæ:
Tími: 2 klst. í heildina, með pásum til að kæla kartöflurnar o.þ.
Dugar fyrir 4-6 manns.

700-800 gr. sætar kartöflur (ég notaði 5 frekar litlar)
3 gulrætur
1 laukur
3-4 hvítlauksrif
2 stilkar sellerí ( má sleppa )
3-4 msk. olía
1 msk. rifið ferskt engifer
2-3 tsk. Garam Masala ( fæst í kryddrekkanum í Bónus – best smakka sig svo til – svo þetta verði ekki of sterkt )
1 tsk. karrý
1-2 tsk. salt
1-2 teningar grænmetis- eða kjúklingakraftur
1,5 l. vatn
1 dós kókosmjólk
1 dl. Ferskt smátt skorið kóríander

Skrælið kartöflurnar og skerið í þykkar sneiðar og raðið á ofnplötu. Hellið smá olíu yfir þær og saltið smá. Ofnbakið þær við 180 °C í sirka klst. eða þangað til þær eru mjúkar í gegn.
Á meðan kartöflurnar bakast má byrja á að undirbúa restina af hráefnunum. Skerið hvítlauk og lauk smátt. Rífið engifer og skerið sellerí og gulrætur í litla bita. Steikið svo lauk og engifer í restinni af olíunni. Bætið gulrótum og sellerí út í og bætið svo karrý og Garam Masala út í. Steikið þetta í smá stund og hrærið vel. Bætið svo vatni og krafti út í og látið malla á meðan beðið er eftir kartöflunum.
Þegar kartöflurnar eru tilbúnar er þeim bætt út í súpuna. Látið þetta malla í sirka 15 mín og takið af plötu og látið kólna aðeins. Maukið súpuna svo annað hvort í matvinnsluvél, mixer eða með töfrasprota. Ef matvinnsluvél eða mixer er notað þarf að gera þetta litlum skömmtum. Setjið súpuna aftur í pottinn, bætið kókosmjólk út í og smakkið til með smá salti. Ef súpan er of sterk er hægt að bæta einni dós af kókosmjólk í viðbót út í. Ef hún er of þunn er gott að láta hana sjóða aðeins lengur.  Að lokum er kóríander skorið smátt og bætt út í, hrært smá og borið svo fram með góðu brauði.

 

Share

WordPress Themes