Graskers- og brokkolímauk
Grasker er mjög sniðug fæða fyrir lítil kríli. Bragðið er frekar milt og gott og það passar vel með mörgum öðrum tegundum af mauki. Það er auk þess mjög hollt og inniheldur t.d. mikið af C-vítamínum. Þar sem C-vítamínuð aðstoðar líkamann við að nýta járn úr fæðu er þetta einstaklega heppilegt með járnríku grænmeti eins og brokkolí. Skortur á járni hefur m.a. áhrif á ónæmiskerfið og þess vegna er mikilvægt að börnin fái nóg af því um leið og þau byrja að borða. Þessi uppskrift er frekar stór og alveg í góðu lagi að helminga hana ef maður vill gera minna magn í einu. Ég set olíu eða aðra fitu beint út í maukið og frysti svo, en sumum finnst betra að frysta það án fitu og bæta henni svo út í þegar komið er að því að gefa barninu að borða. Magnið af fitu fer eftir því hvað maður telur barnið þurfa mikið. Ég er t.d. í þeirri stöðu að þurfa að gefa extra mikið af fitu þar sem strákurinn minn hefur ekki þyngst nógu mikið undanfarið.
Brokkolí- og graskersmauk:
Hentar frá 6 mánaða
Geymist í 2 mánuði í frysti eða sirka 2 daga í ísskáp.
500 gr. grasker (ég notaði Butternut squash)
400 gr. brokkolí
1-2 msk. olía eða ósaltað smjör
Byrjið á því að afhýða graskerið. Ef ekki á að nota það allt er gott að skera það niður í helminga eða minni bita áður en hýðið er tekið af. Það er svo skorið í bita og sett í gufusuðupott eða í gufusuðusigti ofan í potti. Því minni bitar því styttri tíma tekur að sjóða það. Vatni er bætt út í pottinn, sirka 3-5 dl. ættu að duga – en það getur farið aðeins eftir pottum hve mikið þarf. Graskerið þarf svo að sjóða í sirka 15-20 mín, eða þangað til það er orðið mjúkt.
Þegar graskerið er byrjað að malla þá er gott að skola brokkolíið og skera niður í minni bita. Brokkolíið þarf ekki að sjóða jafn lengi og graskerið og því finnst mér auðveldasta leiðin að bæta því bara út í pottinn með graskerinu þegar það hefur fengið að sjóða í svona 5-10 mín. En það er líka í góðu lagi að sjóða það bara eitt og sér.
Þegar grænmetið er orðið mjúkt er það maukað ásamt olíu eða smjöri, annað hvort með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Gott er að nota vatnið sem var notað í gufusuðuna til að ná fram hæfilegri þykkt á maukinu.