Posts tagged: Bananar

Súkkulaðirúlluterta með bananarjóma

Súkkulaðibananarúllutertan hjá Bakarameistaranum hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér og ég var því heldur betur ánægð þegar mér tókst að baka svipaða, eiginlega betri og meira djúsí, köku sjálf. Núna hef ég gert sömu uppskriftina í 3 veislum og þetta er ein af þeim kökum sem klárast alltaf. Hún er frekar einföld og ég læt fylgja góðar myndir af bakstursferlinu. Ég get ímyndað mér að það sé gott að setja t.d. jarðaber eða hindber í staðinn fyrir banana í kremið – en hef þó ekki prófað það sjálf enn sem komið er.

 

Bananarúlluterta:

Ofnhiti: 180°C annað hvort blástur eða undir og yfirhit
Tími: Undirbúningur 20 mín – bakstur 15 mín – kólnun og kremgerð 1 klst. og svo 10 mín til að klára

Tertudeig:
5 egg (aðskilin í eggjarauður og hvítur)
1 og 3/4 dl. sykur
200 gr. suðusúkkulaði
2-3 tsk. skyndikaffiduft (fer efitr því hversu sterkt kaffibragð á að vera – þessu má líka sleppa)
3/4 dl. heitt vatn
1/4 tsk. salt

Krem:
3 dl. rjómi
2 bananar
100 gr. suðusúkkulaði
1 tsk. vanilludropar

Aðferð:
IMG_9646Byrjið á því að leysa kaffið upp í heita vatninu. Bræðið súkkulaðið, annað hvort yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni (passið að brenna ekki, hita smá stund og hræra og hita svo aftur). Blandið saman kaffi og súkkulaði og látið standa á meðan restin er kláruð. Aðskiljið eggjarauður varlega frá hvítunum og þeytið rauðurnar með sykrinum þar til þetta er orðið ljóst og létt.

IMG_9648Þeytið svo eggjahvíturnar ásamt saltinu í annarri skál þangað til eggjahvíturnar eru orðnar stífþeyttar.

 

 

 

IMG_9650Blandið því næst súkkulaðiblöndunni varlega saman við sykur- og eggjablönduna. Næst er báðum blöndunum blandað varlega saman. Best að nota sleif eða sleikju til þess.

 

 

IMG_9652Setjið smjörpappír á ofnplötu. Mér finnst gott að spreyja eða smyrja smá olíu á smjörpappírinn, en passa að setja bara mjög lítið. Hellið deiginu á pappírinn og dreifið úr því þannig það þekji alla plötuna. Bakið svo í 15 mín í 180°C.

 

IMG_9658Þegar kakan er tekin út er rakt viskustykki lagt yfir hana og hún látin standa þannig í sirka 1 klst. Þetta er gert til að hún verði ekki of stökk til að hægt sé að rúlla henni. Á meðan er hægt að útbúa bananakremið. Þeytið rjómann ásamt vanilludropum og bræðið svo súkkulaðið annað hvort yfir vatnsbaði eða í örbylgjunni (alltaf varlega því það er auðvelt að brenna súkkulaði í örbylgjunni). Stappið banana frekar gróflega og blandið að lokum þeim ásamt súkkulaðinu saman við rjómann. Ekki hræra of mikið, heldur er best ef súkkulaðið blandist ekki alveg við rjómann.

IMG_9661Þegar þetta er tilbúið er tertubotninum snúið við þannig að hann liggi ofan á viskustykkinu. Dragið smjörpappírinn mjög varlega af. Setjið bananablönduna á botninn og dreifið vel úr henni. Notið svo viskustykkið til að ná að rúlla þessu upp. Komið svo rúllutertunni fyrir á því fati sem á að bera hana fram á og sigtið smá flórsykur yfir hana alla.

IMG_9081

Share

WordPress Themes