Posts tagged: Fljótlegt

Fljótleg berja- / ávaxtakaka

Ég rakst á þessa uppskrift á sænskri síðu og leist strax vel á hana. Það sem heillaði fyrst og fremst var það hve fljótleg og einföld hún er. Það tók mig ekki nema 10 mín að hræra deigið, koma því í formið og inn í ofn í fyrsta skipti sem ég bakaði hana. Hráefnin eru líka einföld og almennt eitthvað sem er alltaf til heima hjá mér og svo má leika sér aðeins með ávextina. Hér að neðan í minni útgáfu af uppskriftinni nota ég hindber, en það má nota ýmislegt annað. T.d. rabbabara, epli sem búið er að velta upp úr kanil og sykri, bláber eða bara það sem manni dettur í hug. Þetta hentar vel með kaffinu eða sem eftirréttur. Gott að hafa þeyttan rjóma eða jafnvel vanilluís með.

 

Fljótleg hindberjakaka

Tími: Undirbúningur 10 mín – bakstur 30 mín
Hiti: 175°C
75 gr. smjör
1 tsk. lyftiduft
1 tsk. vanilludropar
2 dl. sykur
2 egg
2,5 dl. hveiti
2 dl. frosin hindber (eða aðrir ávextir)

Smjörið er brætt í potti. Þegar það er alveg bráðið er slökt á hellunni og lyftidufti, vanilludropum, sykri, eggjum og hveiti bætt út í. Hrært saman þannig að þetta blandist vel. Það þarf ekki að þeyta neitt, heldur er alveg nóg að hræra bara með sleif eða álíka.

IMG_1302Smelluform, eldfast mót eða bökuform (eða annað sambærilegt) er smurt með smjöri eða olíu. Ef það á að taka kökuna úr forminu og bera fram á kökudisk er gott að nota smjörpappír í botninn. Deigið sett í formið og dreift úr því ef þess þarf. Að lokum er berjunum dreift yfir deigið. Passa að dreifa vel úr þeim.

Kakan er svo bökuð í 175°C í 30 mín. Það er gott að stinga prjón í miðjuna til að fullvissa sig um að hún sé fullbökuð áður en hún er tekin úr ofninum. Best er að bera hana fram heita, eða volga með þeyttum rjóma.

IMG_1310

Share

WordPress Themes