Posts tagged: hvítlaukur

Rjómapasta með beikoni, sveppum og hvítlauk

Það eru ekki allir jafn óhræddir að taka til hendinni í eldhúsinu eins og ég er. Gott dæmi um það er maðurinn minn. En til þess að hann eldi þarf helst mjög ítarlegar leiðbeiningar svo að ekkert fari úrskeiðis. Ég ætla því að byrja að setja inn einfaldar en mjög ítarlega útskýrðar uppskriftir. Þær verða allar settar í flokkinn “skref fyrir skref” og það verður því auðvelt að finna þær allar með því að smella á flokkinn hér til hliðar. Fyrsta uppskriftin er uppáhaldspastað mitt. Þetta er svona pasta sem hentar vel hvenær sem er, jafnvel sem veislumatur, en er samt alveg ótrúlega einfalt. Við fínni tilefni er gott að skipta út hluta af beikoninu fyrir hráskinku, eða jafnvel steiktum kjúkling. Hér kemur uppskriftin ásamt myndum sem útskýra hvert skref nánar. Athugið að það er hægt að smella á myndirnar til að sjá þær stærri :)´

 

Rjómapasta með beikoni, sveppum og hvítlauk

(dugar fyrir sirka 4-6)

400-500 gr. pasta – t.d. skrúfur eða slaufur
500 gr. beikon
500 ml. matreiðslurjómi
1 rifinn villisveppaostur (eða annar góður ostur eins og piparostur)
1 box af sveppum
4-5 hvítlauksrif
0,5 – 1 kjötkraftsteningur
smá olía

 

Sjóðið pastað skv. leiðbeiningum á pokanum. Yfirleitt er það gert sirka svona: 3-4 l. af vatni er sett í stóran pott og beðið eftir að það fari að sjóða. Þá er 1-2 tsk. af salti bætt út í og svo pastanu og soðið í sirka 10 mín (mjög misjafnt eftir tegund pasta, en þetta stendur alltaf utan á pokanum). Þegar pastað er soðið má hella vatninu af því og láta það bíða.

 

 


Skerið beikonið í litla bita og sveppina í sneiðar. Hvítlaukurinn er hakkaður smátt eða pressaður. Sirka matskeið af olíu er hituð á pönnu eða í potti. Þegar olían er orðin nokkuð heit er hvítlauknum bætt út í og steiktur þangað til hann er mjúkur og örlítið brúnaður.

 

 

 

Næst er beikoninu bætt út í og það steikt þangað til það er allt gegnum steikt. Að lokum eru sveppirnir settir út í og þeir steiktir þangað til þeir eru mjúkir.

 

 

 

 

Þegar búið er að steikja beikon, sveppi og hvítlauk er rjómanum bætt út í. Þegar rjóminn er kominn út í er komið að ostinum. Ef það er ekki búið að rífa hann þarf að gera það, en svo má bæta honum út í rjómann. Hrærið svo þangða til osturinn er alveg bráðinn. Þegar þetta er búið að malla í svona 5-10 mín. er best að smakka þetta. Beikonið getur nefnilega verið svo mis bragðmikið og það þarf því stundum að bæta við salti eða kjötkrafti. Ef þetta er ekki nógu bragðmikið er best að byrja á að setja hálfan tening af kjötkrafti. Það má líka nota salt, en mér finnst betra að nota kraftinn. Þegar hálfi teningurinn er orðinn uppleystur og búið að hræra aðeins í þessu er best að smakka aðeins aftur. Ef þetta er ennþá ekki nógu bragðmikið má setja hinn helminginn, en farið varlega, því það er ekki gott að setja of mikið.

 

Að lokum er pastanu bætt út í og þetta látið malla í 2-3 mín. til viðbótar. Best er að láta þetta standa í svona 5 mín eftir að þetta er tilbúið. Við það þykkist sósan og pastað dregur meira í sig bragðefnin.

 

 

 


Pastað er gott eitt og sér, en langbest er að bera það fram með hvítlauksbrauði og fersku salati. Mitt uppáhaldssalat með þessum rétti er með káli, klettasalati, gúrkum, tómötum, rauðlauk og vínberjum.

Share

WordPress Themes