Posts tagged: kaffi

Sörur – skref fyrir skref

Ég hef alltaf miklað það fyrir mér að baka sörur. Einhvern vegin hélt ég að það væri svo rosalega flókið og tímafrekt að ég hef ekki nennt því hingað til. En þar sem ég er í fæðingarorlofi núna, með nægan tíma, þá ákvað ég að prófa þetta. Og þetta er miklu minna mál en ég hélt. Svolítið föndur, en alls ekki flókið. Átti erfitt með að finna hina einu réttu uppskrift, þannig ég endaði á að blanda saman nokkrum. Er núna búin að baka þær aftur og fullkomnaði þá (að mínu mati) uppskriftina og ætla að birta hérna mína útgáfu af þessum ótrúlega góðu smákökum. Læt einnig fylgja aðferðina ásamt myndum fyrir hvert skref – og auðvelda þannig baksturinn fyrir þeim sem vilja prófa 🙂

Þessi uppskrift gerir sirka 80-100 litlar sörur (1-2 munnbitar) eða 50-60 stærri. Hægt er að stækka myndirnar með því að smella á þær.

 

Sörur
Tími: 1,5-2 klst. með smá bið á meðan þær eru kældar áður en þær eru hjúpaðar með súkkulaði
Ofnhiti: 180°C

Botnar:
250 gr. möndluflögur eða hakkaðar möndlur
225 gr. flórsykur
4 eggjahvítur

Krem:
4 eggjarauður
80 ml. síróp
250 gr. smjör – mjúkt
2 tsk. skyndikaffi
1 msk. heitt vatn
2 msk. kakó

Hjúpur:
300 gr. dökkur súkkulaðihjúpur

 

Botnar – aðferð:

Setjið möndlurnar og flórsykurinn í matvinnsluvél og keyrið þetta í smá stund. Ég er ekkert rosalega hrifin af möndlum og finnst því best að hafa þær fínmalaðar. Ef maður vill finna meira fyrir möndlunum er í góðu lagi að nota bara hakkaðar möndlur eins og þær eru beint úr pokanum.

 

Setjið eggjahvíturnar í tandurhreina skál og þeytið þangað til hægt er að hvolfa skálinni án þess að þær renni úr. Best er að hafa eggin við stofuhita til að þetta heppnist sem best.

 

 

 

Blandið flórsykrinum og möndlunum varlega út í eggjahvíturnar. Best er að nota bara sleif eða álíka til að hræra. Ekki hræra of mikið, það er nóg að þetta sé bara blandað saman.

 

 

 

Setjið bökunarpappír á ofnplötur og notið teskeið til að setja deigið á plöturnar. Ef þið viljið ekki mjög stórar sörur þarf að passa að setja lítið deig. Það stækkar aðeins í ofninum þannig það þarf að passa að hafa nóg bil á milli.

 

 

Þetta er svo bakað í 10-14 mín. í 180°C eða þangað til þær eru hæfilega stökkar. Það er best að prófa fyrst eina plötu til að ákvarða tímann endanlega, en hann ræðst af stærðinni og því hversu mjúkar/stökkar þær eiga að vera. Mér finnst gott að hafa þær litlar og frekar í mýkri kantinum og hef þær inni í sirka 12 mín. Látið sörurnar kólna áður en þið takið þær af plötunum.

 

Krem – aðferð:

Byrjið á því að leysa kaffið upp í matskeið af heitu vatni. Látið þetta standa og kólna á meðan þið klárið að blanda saman hinum hráefnunum.  Þeytið eggjarauðurnar vel. Hellið sírópinu út í í mjórri bunu á meðan þið haldið áfram að þeytið rauðurnar. Þeytið þetta svo vel þannig að þetta er mjög ljóst og létt.

 

Passið að smjörið sé mjúkt (t.d. hægt að hita það örstutt í örbylgjunni) og hrærið það svo saman við eggjablönduna. Bætið svo kakói og kaffi út í eggja og smjörblönduna og þeytið vel þangað til þetta er orðið ljóst og mjúkt. Einstaka sinnum getur þetta skilið sig aðeins, en þá er ekkert mál að hræra bara áfram því þetta verður fínt á endanum. Ef þetta er of lint til að smyrja á botnana er hægt að kæla þetta aðeins áður.

 

 

Þegar botnarnir eru kaldir er kremið sett á flötu hliðina á þeim. Mér finnst best að nota skeið til þess að gera það, en þá er auðveldara að setja kremið á þannig sörurnar verði kúptar ofan á líka. Þegar búið er að setja krem á alla botnanna eru þeir kældir í ísskáp eða frysti þangað til kremið hefur stífnað vel, oftast nóg að kæla bara í 10-20 mín.

 

Að lokum er súkkulaðihjúpurinn bræddur yfir vatnsbaði eða í örbylgjunni (passa bara að það brenni ekki). Kremhlutanum er svo dýft í súkkulaðið þannig að kremið sé alveg falið. Best er að láta súkkulaðið stífna alveg og geyma þær svo í boxi inn í ísskáp eða frysti og taka þær bara út rétt áður en það á að borða þær.

 

Share

WordPress Themes