Posts tagged: kanill

Kanilkaka með súkkulaðidropum

Í Svíþjóð er s.k. “Sockerkaka” ótrúlega vinsælt fyrirbæri – bein þýðing á íslensku er “Sykurkaka”, en þetta er í raun bara klassísk sandkaka. En svona kökur eru til í ótrúlegustu útfærslum í Svíþjóð. T.d. er eplakakan sem ég er með á síðunni í raun svona kaka, en með eplum. Svíar elska líka kanil og allt með kanil í, t.d. kanilsnúða (sem eiga meira að segja sinn eigin dag þarna úti, “dagur kanilsnúðsins”) og að sjálfsögðu er til útfærsla af sandkökunni með kanil í.
Þar sem kanill og súkkulaði fara einstaklega vel saman ákvað ég að prófa að bæta súkkulaði út í hana og útkoman var alveg ótrúlega góð. Hér kemur uppskriftin, en athugið að það er í góðu lagi að sleppa súkkulaðinu og þá er þetta orðin bara klassísk kanilkaka.

Kanilkaka með súkkulaði:

Tími: 65 mín (15 mín undirbúningur, 50 mín bakstur)
Hiti: 175°C

175 gr. mjúkt smjör
2 egg
4 1/2 dl. hveiti
2 1/2 dl. sykur
3 dl. súrmjólk eða AB-mjólk
2 tsk. vanilludropar
1 msk. lyftiduft
1/2 tsk. salt
150 gr. súkkulaðidropar eða hakkað súkkulaði

kanilsykur:
1 1/2 dl. sykur
1 1/2 msk. kanill

Stillið ofninn á 175°C. Smyrjið kökuformið vel. Ég nota kringlótt lausbotna form sem er sirka 26 cm. í þvermál, en það má nota hvaða form sem er.

IMG_9796Setjið smjörið og sykurinn í skál og þeytið þangað til áferðin verður létt og ljós. Þetta getur tekið smá stund, en það er mikilvægt að þeyta nógu lengi því annars verður kakan ekki jafn mjúk og góð.

Bætið einu eggi í einu út í og hrærið á milli. Súrmjólk, vanilludropum og þurrefnum er svo blandað út í og hrært varlega saman. Alveg nóg að hræra bara þangað til þetta er orðið vel blandað saman. Að lokum er súkkulaðinu bætt út í og hrært aðeins til að  þeir dreifist um deigið.

Kanilsykurinn er svo útbúinn í sér skál. Sykrinum og kanilnum er einfaldlega hrært vel saman.

Setjið sirka helming af deiginu í formið og dreifið úr því. Stráið 2/3 af kanilsykrinum yfir og setjið svo afganginn af deiginu yfir. Stráið að lokum afgangnum af kanilsykrinum yfir allt saman.

Mér finnst svo gott að hafa kökuna vel stökka að ofan og þess vegna spreyja ég með smá olíuspreyi (keypt tilbúið í spreybrúsa út í búð) yfir sykurinn. Það er ekki nauðsynlegt en ef maður sleppir því þá á sykurinn það til að vera pínu laus ofaná þegar hún er bökuð. Ef þetta er spreyjað með olíu verður sykurinn stökkur og góður.

Bakið kökuna í 175°c í 50 mín.

Kakan er mjög góð ein og sér, en enn betri með þeyttum rjóma.

IMG_9807

 

 

 

Share

Smákökur með kanil, súkkulaði og höfrum

Ég geri alltaf sömu smákökurnar, ár eftir ár, en þetta árið ákvað ég að prófa eitthvað nýtt. Ég fann þessa uppskrift í Gestgjafanum, en breytti henni örlítið og prófaði að gera hana í gær. Ég varð heldur betur sátt við hana, þessar smákökur eru æði! Mæli hiklaust með henni. Ekki flókin uppskrift heldur.

Smákökur með kanil, súkkulaði og höfrum:

115 gr. sykur

200 gr. púðursykur

225 gr. smjör, mjúkt

2 egg

1 tsk. vanilludropar

1 msk. síróp

145 gr. hveiti

5 tsk. kanill

1 tsk. matarsódi

1/2 tsk. salt

1/2 tsk. múskat

300 gr. suðusúkkulaði – saxað

240 gr. haframjöl

 

Hitið ofninn í 180°C. Sykur og smjör hrært saman vel. Egg, vanilludropar, sírópi bætt saman við blönduna. Hveiti, kanill, matarsódi, salt og múskati blandað saman og síðan bætt út í sykurblönduna. Að lokum er súkkulaðinu og haframjölinu bætt út í og hrært saman. Degið er sett á bökunarpappírsklædda ofnplötu með teskeið (eða matskeið ef þær eiga að vera stórar) og svo bakað í 10-12 mín. Kökurnar þurfa að kólna í smá stund áður en þær eru teknar af plötunni.

Share

WordPress Themes