Bjórkjúklingur
Mér fannst heilsteiktur kjúklingur ekkert rosalega góður því hann verður svo oft allt of þurr, alveg þangað til ég lærði að gera bjórkjúkling. En þá er bjórdós með bjór og ýmsu öðru í stungið í afturendann á kjúklingnum og hann eldaður þannig, annað hvort á grilli eða í ofni. Þá verður hann alveg rosalega safaríkur og mjög bragðgóður. Besti kjúklingur sem ég hef smakkað, þótt ég segi sjálf frá ;). Svo er þetta svo einfalt og hollt líka. Hér kemur uppskriftin ásamt leiðbeiningum.
Bjórkjúklingur
1 heill kjúklingur
1 bjórdós (skiptir ekki öllu máli hvaða tegund, meira að segja hægt að nota annað en bjór eins og eplasafa í dós utan af gosi/bjór…)
Sítrónusafi af hálfri sítrónu (eða smá skvetta af tilbúnum sítrónusafa)
Salt
Pipar
0,5 laukur
3-4 hvítlauksrif
smá olía
kjúklingakrydd til að krydda kjúklinginn með
Bjórnum í dósinni er helt í annað ílát og toppurinn af dósinni er klipptur af, svo dósin verði eins og glas. Ef þetta er 0,5 lítra dós þá má minnka hana svo hún verði álíka stór og lítil bjórdós. Ef maður gerir svona kjúkling oft er jafnvel sniðugt að kaupa sérstakan stand fyrir þetta. Hann fæst í flestum verslunum þar sem hægt er að fá grillvörur. Laukur og hvítlaukur er skorinn gróft og settur í dósina. Salti og pipar er bætt út í og sítrónusafanum. Að lokum er dósin fyllt með bjór. Kjúklingurinn er settur á dósina, þannig að dósin fara í afturendann á honum og hann “sitji” á henni. Hægt er að nota leggina til að hann haldi jafnvægi. Hægt að sjá þetta vel hérna. Svo er kjúklingurinn smurður með smá olíu og kryddaður með einhverju góðu kjúklingakryddi. Ég nota bara það sem ég á hverju sinni.
Ef það á að elda þetta í venjulegum ofni þarf þetta að vera á eldföstu móti. Þetta er svo sett í 180°C heitan ofn, eða beint á grillið, og eldað í sirka 1-1,5 klst. (fer allt eftir stærð kjúklingsins). Ég nota oftast kjöthitamæli til að vera viss um að þetta sé tilbúið. En kjúklingur þarf að vera 72°C til þess að vera alveg eldaður í gegn. Þegar kjúklingurinn er tilbúinn er hann tekinn út úr ofninum (af grillinu) og látinn standa í smá stund. Svo þarf að fara varlega þegar hann er tekinn af dósinni (gott að nota eitthvað eins og viskustykki til að halda utan um hann). Það sem er í dósinni getur verið mjög heitt og því þarf að passa vel að brenna sig ekki.
Gott er að bera þetta fram með kartöflubátum eða hrísgrjónum, fersku salati, rjómasveppaostasósu og heimagerðri kokteilsósu.