Ostakaka með Rolo
Um helgina var litli strákurinn okkar skírður, þannig ég fékk tækifæri til að baka helling. Ákvað að baka nokkrar kökur sem ég hef gert áður, en langaði líka til að prófa eitthvað nýtt. Rakst á uppskrift að Rolo ostaköku og ákvað að gera hana, en með nokkrum breytingum þó. Þetta kom rosalega vel út – og var alls ekki erfitt. Stór kostur að það þarf ekki að baka neitt, og kakan er fryst þannig það má gera hana löngu áður og svo er hún bara tekin út rétt áður en á að bera hana fram, helst á hún að vera aðeins frosin þegar hún er borin fram. Kakan vakti mikla lukku og það kom mér sjálfri á óvart hversu ótrúlega bragðgóð hún var. Þannig ég mæli klárlega með henni 🙂
Rolo ostakaka:
1 pakki af Bastogne LU-kexi (kanilkex)
100 gr. smjör
300 gr. rjómaostur
150 gr. flórsykur
1 tsk. vanilludropar
5 dl. rjómi
6 rúllur af Rolo
150 gr. sýrður rjómi
Byrjið á því að setja smjörpappír í botninn á smelluformi ( sirka 26 cm. ). Bræðið smjörið og myljið kexið. Blandið þessu svo saman og setjið í botninn á forminu.
Hrærið rjómaost, flórsykur og vanilludropa saman. Þeytið rjómann og blandið honum svo saman við ostablönduna. Bræðið 2 rúllur af Rolo(gott að setja örlítið af rjóma með) og hellið út í rjóma og ostablönduna. Hrærið bara létt, þannig að þetta blandist ekki alveg heldur verði “röndótt”. Hellið svo blöndunni ofan á kexmylsnuna og dreifið vel úr henni. Sléttið þetta eins vel og hægt er.
Bræðið sýrðan rjóma og 4 rúllur af Rolo varlega saman yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni. Passið að hita ekki of lengi ef notaður er örbylgjuofn. Látið þetta kólna aðeins og hellið svo yfir kökuna. Kakan er svo fryst þangað til það á að bera hana fram.
Þegar á að bera hana fram er gott að taka hana út smá stund áður. Hægt er að skreyta hana t.d. með bræddu súkkulaði, en hún er best hálffrosin.