Posts tagged: rjómi

Súkkulaðirúlluterta með bananarjóma

Súkkulaðibananarúllutertan hjá Bakarameistaranum hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér og ég var því heldur betur ánægð þegar mér tókst að baka svipaða, eiginlega betri og meira djúsí, köku sjálf. Núna hef ég gert sömu uppskriftina í 3 veislum og þetta er ein af þeim kökum sem klárast alltaf. Hún er frekar einföld og ég læt fylgja góðar myndir af bakstursferlinu. Ég get ímyndað mér að það sé gott að setja t.d. jarðaber eða hindber í staðinn fyrir banana í kremið – en hef þó ekki prófað það sjálf enn sem komið er.

 

Bananarúlluterta:

Ofnhiti: 180°C annað hvort blástur eða undir og yfirhit
Tími: Undirbúningur 20 mín – bakstur 15 mín – kólnun og kremgerð 1 klst. og svo 10 mín til að klára

Tertudeig:
5 egg (aðskilin í eggjarauður og hvítur)
1 og 3/4 dl. sykur
200 gr. suðusúkkulaði
2-3 tsk. skyndikaffiduft (fer efitr því hversu sterkt kaffibragð á að vera – þessu má líka sleppa)
3/4 dl. heitt vatn
1/4 tsk. salt

Krem:
3 dl. rjómi
2 bananar
100 gr. suðusúkkulaði
1 tsk. vanilludropar

Aðferð:
IMG_9646Byrjið á því að leysa kaffið upp í heita vatninu. Bræðið súkkulaðið, annað hvort yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni (passið að brenna ekki, hita smá stund og hræra og hita svo aftur). Blandið saman kaffi og súkkulaði og látið standa á meðan restin er kláruð. Aðskiljið eggjarauður varlega frá hvítunum og þeytið rauðurnar með sykrinum þar til þetta er orðið ljóst og létt.

IMG_9648Þeytið svo eggjahvíturnar ásamt saltinu í annarri skál þangað til eggjahvíturnar eru orðnar stífþeyttar.

 

 

 

IMG_9650Blandið því næst súkkulaðiblöndunni varlega saman við sykur- og eggjablönduna. Næst er báðum blöndunum blandað varlega saman. Best að nota sleif eða sleikju til þess.

 

 

IMG_9652Setjið smjörpappír á ofnplötu. Mér finnst gott að spreyja eða smyrja smá olíu á smjörpappírinn, en passa að setja bara mjög lítið. Hellið deiginu á pappírinn og dreifið úr því þannig það þekji alla plötuna. Bakið svo í 15 mín í 180°C.

 

IMG_9658Þegar kakan er tekin út er rakt viskustykki lagt yfir hana og hún látin standa þannig í sirka 1 klst. Þetta er gert til að hún verði ekki of stökk til að hægt sé að rúlla henni. Á meðan er hægt að útbúa bananakremið. Þeytið rjómann ásamt vanilludropum og bræðið svo súkkulaðið annað hvort yfir vatnsbaði eða í örbylgjunni (alltaf varlega því það er auðvelt að brenna súkkulaði í örbylgjunni). Stappið banana frekar gróflega og blandið að lokum þeim ásamt súkkulaðinu saman við rjómann. Ekki hræra of mikið, heldur er best ef súkkulaðið blandist ekki alveg við rjómann.

IMG_9661Þegar þetta er tilbúið er tertubotninum snúið við þannig að hann liggi ofan á viskustykkinu. Dragið smjörpappírinn mjög varlega af. Setjið bananablönduna á botninn og dreifið vel úr henni. Notið svo viskustykkið til að ná að rúlla þessu upp. Komið svo rúllutertunni fyrir á því fati sem á að bera hana fram á og sigtið smá flórsykur yfir hana alla.

IMG_9081

Share

Ostakaka með Rolo

Um helgina var litli strákurinn okkar skírður, þannig ég fékk tækifæri til að baka helling. Ákvað að baka nokkrar kökur sem ég hef gert áður, en langaði líka til að prófa eitthvað nýtt. Rakst á uppskrift að Rolo ostaköku og ákvað að gera hana, en með nokkrum breytingum þó. Þetta kom rosalega vel út – og var alls ekki erfitt. Stór kostur að það þarf ekki að baka neitt, og kakan er fryst þannig það má gera hana löngu áður og svo er hún bara tekin út rétt áður en á að bera hana fram, helst á hún að vera aðeins frosin þegar hún er borin fram. Kakan vakti mikla lukku og það kom mér sjálfri á óvart hversu ótrúlega bragðgóð hún var. Þannig ég mæli klárlega með henni 🙂

 

Rolo ostakaka:

1 pakki af Bastogne LU-kexi (kanilkex)
100 gr. smjör
300 gr. rjómaostur
150 gr. flórsykur
1 tsk. vanilludropar
5 dl. rjómi
6 rúllur af Rolo
150 gr. sýrður rjómi

 

Byrjið á því að setja smjörpappír í botninn á smelluformi ( sirka 26 cm. ). Bræðið smjörið og myljið kexið. Blandið þessu svo saman og setjið í botninn á forminu.

 

Hrærið rjómaost, flórsykur og vanilludropa saman. Þeytið rjómann og blandið honum svo saman við ostablönduna. Bræðið 2 rúllur af Rolo(gott að setja örlítið af rjóma með) og hellið út í rjóma og ostablönduna. Hrærið bara létt, þannig að þetta blandist ekki alveg heldur verði “röndótt”. Hellið svo blöndunni ofan á kexmylsnuna og dreifið vel úr henni. Sléttið þetta eins vel og hægt er.

 

Bræðið sýrðan rjóma og 4 rúllur af Rolo varlega saman yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni. Passið að hita ekki of lengi ef notaður er örbylgjuofn. Látið þetta kólna aðeins og hellið svo yfir kökuna. Kakan er svo fryst þangað til það á að bera hana fram.

 

Þegar á að bera hana fram er gott að taka hana út smá stund áður. Hægt er að skreyta hana t.d. með bræddu súkkulaði, en hún er best hálffrosin.

 

 

Share

Rjómapasta með beikoni, sveppum og hvítlauk

Það eru ekki allir jafn óhræddir að taka til hendinni í eldhúsinu eins og ég er. Gott dæmi um það er maðurinn minn. En til þess að hann eldi þarf helst mjög ítarlegar leiðbeiningar svo að ekkert fari úrskeiðis. Ég ætla því að byrja að setja inn einfaldar en mjög ítarlega útskýrðar uppskriftir. Þær verða allar settar í flokkinn “skref fyrir skref” og það verður því auðvelt að finna þær allar með því að smella á flokkinn hér til hliðar. Fyrsta uppskriftin er uppáhaldspastað mitt. Þetta er svona pasta sem hentar vel hvenær sem er, jafnvel sem veislumatur, en er samt alveg ótrúlega einfalt. Við fínni tilefni er gott að skipta út hluta af beikoninu fyrir hráskinku, eða jafnvel steiktum kjúkling. Hér kemur uppskriftin ásamt myndum sem útskýra hvert skref nánar. Athugið að það er hægt að smella á myndirnar til að sjá þær stærri :)´

 

Rjómapasta með beikoni, sveppum og hvítlauk

(dugar fyrir sirka 4-6)

400-500 gr. pasta – t.d. skrúfur eða slaufur
500 gr. beikon
500 ml. matreiðslurjómi
1 rifinn villisveppaostur (eða annar góður ostur eins og piparostur)
1 box af sveppum
4-5 hvítlauksrif
0,5 – 1 kjötkraftsteningur
smá olía

 

Sjóðið pastað skv. leiðbeiningum á pokanum. Yfirleitt er það gert sirka svona: 3-4 l. af vatni er sett í stóran pott og beðið eftir að það fari að sjóða. Þá er 1-2 tsk. af salti bætt út í og svo pastanu og soðið í sirka 10 mín (mjög misjafnt eftir tegund pasta, en þetta stendur alltaf utan á pokanum). Þegar pastað er soðið má hella vatninu af því og láta það bíða.

 

 


Skerið beikonið í litla bita og sveppina í sneiðar. Hvítlaukurinn er hakkaður smátt eða pressaður. Sirka matskeið af olíu er hituð á pönnu eða í potti. Þegar olían er orðin nokkuð heit er hvítlauknum bætt út í og steiktur þangað til hann er mjúkur og örlítið brúnaður.

 

 

 

Næst er beikoninu bætt út í og það steikt þangað til það er allt gegnum steikt. Að lokum eru sveppirnir settir út í og þeir steiktir þangað til þeir eru mjúkir.

 

 

 

 

Þegar búið er að steikja beikon, sveppi og hvítlauk er rjómanum bætt út í. Þegar rjóminn er kominn út í er komið að ostinum. Ef það er ekki búið að rífa hann þarf að gera það, en svo má bæta honum út í rjómann. Hrærið svo þangða til osturinn er alveg bráðinn. Þegar þetta er búið að malla í svona 5-10 mín. er best að smakka þetta. Beikonið getur nefnilega verið svo mis bragðmikið og það þarf því stundum að bæta við salti eða kjötkrafti. Ef þetta er ekki nógu bragðmikið er best að byrja á að setja hálfan tening af kjötkrafti. Það má líka nota salt, en mér finnst betra að nota kraftinn. Þegar hálfi teningurinn er orðinn uppleystur og búið að hræra aðeins í þessu er best að smakka aðeins aftur. Ef þetta er ennþá ekki nógu bragðmikið má setja hinn helminginn, en farið varlega, því það er ekki gott að setja of mikið.

 

Að lokum er pastanu bætt út í og þetta látið malla í 2-3 mín. til viðbótar. Best er að láta þetta standa í svona 5 mín eftir að þetta er tilbúið. Við það þykkist sósan og pastað dregur meira í sig bragðefnin.

 

 

 


Pastað er gott eitt og sér, en langbest er að bera það fram með hvítlauksbrauði og fersku salati. Mitt uppáhaldssalat með þessum rétti er með káli, klettasalati, gúrkum, tómötum, rauðlauk og vínberjum.

Share

Kókos-marengsterta

Það er ekki hægt að halda veislu án þess að vera allavega með eina marengstertu þessa dagana. Amma mín er marengstertusnillingur og þess vegna fannst mér sjálfsagt að leita til hennar til að fá hina fullkomnu uppskrift. Mér finnst samt svo skemmtilegt að breyta til þannig ég breytti henni aðeins – bætti við kókos og kókosbollum og úr varð Kókos-marengsterta 🙂

Kókos-marengsterta

Marengs:
4 eggjahvítur
200 gr. sykur
4 dl. rice crispies
1 dl. kókos
1 tsk. lyftiduft

Krem:
3 eggjarauður
1/4 plata suðusúkkulaði
1 rúlla róló
Flórsykur

2,5 dl. rjómi
3-4 kókosbollur

Eggjahvítur og sykur eru stífþeyttar þangað til hægt er að hvolfa skálinni án þess að innihaldið renni úr. Rice crispies, kókos og lyftidufti er bætt varlega saman við.

Best er að nota kringlótt kökuform og teikna eftir því á tvær arkir af smjörpappír. Setja svo marengsinn inn í hringina þannig að úr verði tveir jafn stórir kringlóttir marengsbotnar.
Baka svo á 100°gr. í allavegana 2 klst. Passa að marengsinn er stökkur þegar hann er tekinn út. Hafa lengur, og jafnvel hækka hitann örlítið ef hann er ennþá mjúkur í miðjunni.

Þegar botnarnir eru tilbúnir eru þeir látnir kólna. Rjóminn er þeyttur og kókosbollurnar kramdar og hrærðar saman við rjómann. Þetta er sett á annan botninn og hinn settur ofaná.

Að lokum er kremið gert. Þá eru eggjarauðurnar þeyttar ásamt 40-60 gr. af flórsykri þannig að þetta verði þykk “leðja” – gæti þurft meira/minna af flórsykri eftir því hve stórar eggjarauðurnar eru. Súkkulaði og róló er brætt saman og bætt út í eggja og sykurblönduna. Hrært saman og ef þetta er of þunnt er meri flórsykri bætt út í. Þessu er svo hellt yfir kökuna.

Mér finnst best að setja kökuna saman kvöldið áður en hún er borin fram. En það fer allt eftir því hversu blaut hún á að vera. Það er líka hægt að útbúa hana löngu áður og frysta hana og taka hana þá út nokkrum klst. áður en veislan byrjar. Hún endist mjög vel í frysti.

 

Share

WordPress Themes