Posts tagged: Súkkulaði

Súkkulaðirúlluterta með bananarjóma

Súkkulaðibananarúllutertan hjá Bakarameistaranum hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér og ég var því heldur betur ánægð þegar mér tókst að baka svipaða, eiginlega betri og meira djúsí, köku sjálf. Núna hef ég gert sömu uppskriftina í 3 veislum og þetta er ein af þeim kökum sem klárast alltaf. Hún er frekar einföld og ég læt fylgja góðar myndir af bakstursferlinu. Ég get ímyndað mér að það sé gott að setja t.d. jarðaber eða hindber í staðinn fyrir banana í kremið – en hef þó ekki prófað það sjálf enn sem komið er.

 

Bananarúlluterta:

Ofnhiti: 180°C annað hvort blástur eða undir og yfirhit
Tími: Undirbúningur 20 mín – bakstur 15 mín – kólnun og kremgerð 1 klst. og svo 10 mín til að klára

Tertudeig:
5 egg (aðskilin í eggjarauður og hvítur)
1 og 3/4 dl. sykur
200 gr. suðusúkkulaði
2-3 tsk. skyndikaffiduft (fer efitr því hversu sterkt kaffibragð á að vera – þessu má líka sleppa)
3/4 dl. heitt vatn
1/4 tsk. salt

Krem:
3 dl. rjómi
2 bananar
100 gr. suðusúkkulaði
1 tsk. vanilludropar

Aðferð:
IMG_9646Byrjið á því að leysa kaffið upp í heita vatninu. Bræðið súkkulaðið, annað hvort yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni (passið að brenna ekki, hita smá stund og hræra og hita svo aftur). Blandið saman kaffi og súkkulaði og látið standa á meðan restin er kláruð. Aðskiljið eggjarauður varlega frá hvítunum og þeytið rauðurnar með sykrinum þar til þetta er orðið ljóst og létt.

IMG_9648Þeytið svo eggjahvíturnar ásamt saltinu í annarri skál þangað til eggjahvíturnar eru orðnar stífþeyttar.

 

 

 

IMG_9650Blandið því næst súkkulaðiblöndunni varlega saman við sykur- og eggjablönduna. Næst er báðum blöndunum blandað varlega saman. Best að nota sleif eða sleikju til þess.

 

 

IMG_9652Setjið smjörpappír á ofnplötu. Mér finnst gott að spreyja eða smyrja smá olíu á smjörpappírinn, en passa að setja bara mjög lítið. Hellið deiginu á pappírinn og dreifið úr því þannig það þekji alla plötuna. Bakið svo í 15 mín í 180°C.

 

IMG_9658Þegar kakan er tekin út er rakt viskustykki lagt yfir hana og hún látin standa þannig í sirka 1 klst. Þetta er gert til að hún verði ekki of stökk til að hægt sé að rúlla henni. Á meðan er hægt að útbúa bananakremið. Þeytið rjómann ásamt vanilludropum og bræðið svo súkkulaðið annað hvort yfir vatnsbaði eða í örbylgjunni (alltaf varlega því það er auðvelt að brenna súkkulaði í örbylgjunni). Stappið banana frekar gróflega og blandið að lokum þeim ásamt súkkulaðinu saman við rjómann. Ekki hræra of mikið, heldur er best ef súkkulaðið blandist ekki alveg við rjómann.

IMG_9661Þegar þetta er tilbúið er tertubotninum snúið við þannig að hann liggi ofan á viskustykkinu. Dragið smjörpappírinn mjög varlega af. Setjið bananablönduna á botninn og dreifið vel úr henni. Notið svo viskustykkið til að ná að rúlla þessu upp. Komið svo rúllutertunni fyrir á því fati sem á að bera hana fram á og sigtið smá flórsykur yfir hana alla.

IMG_9081

Share

Mjúkir kanilsnúðar

Þegar ég bjó úti í Svíþjóð voru þessir snúðar eitthvað sem var alltaf til í frystinum. Mamma bakaði þá reglulega og þeir voru alltaf jafn góðir, sérstaklega nýbakaðir beint úr ofninum. Kanilsnúðar eru eitthvað voðalega sænskt fyrir mér, enda elska Svíar þá og þeir eiga meira að segja sinn eigin dag – “dagur kanilsnúðsins” sem er alltaf þann 4. október. Það verða samt að vera mjúkir snúðar, þessir gamaldags hörðu sem hafa verið vinsælir hér á Íslandi þekkjast ekki í Svíþjóð.

Hér kemur uppskriftin hennar mömmu að þessum dásamlegu mjúku kanilsnúðum.

 

Mjúkir kanilsnúðar:
40 snúðar
Ofnhiti 230-240°C
Tími: undirbúningur 20 mín, hefun 45 mín, fletja út og vinna snúðana 30 mín, hefun nr. 2 30-40 mín og bakstur 5-10 mín

Deig:
150 gr. smjör
½ l. mjólk
50 gr. pressuger eða einn pakki af þurrgeri (12 gr.)
1 dl. Sykur
½ tsk. Salt
900-950 gr. Hveiti (ca. 1,5 l. )
2 tsk. Mulin kardimomma eða kardimommuduft (má sleppa, en mér finnst þetta gefa snúðunum svo gott bragð)

Fylling:
100 gr.  Smjör
1 dl sykur
2 msk.  Kanill
Egg til að pensla með

Súkkulaðibráð:
Suðusúkkulaði
smá síróp (sirka 1 msk. fyrir hverja plötu af suðusúkkulaði)
örlítið af rjóma

Aðferð:

IMG_0194Smjörið er brætt, mjólkinni bætt út í og hitað í 37°C. Þessu er svo hellt í skál og gerið mulið útí. Blanda vel þannig að gerið leysist upp. Hveiti, sykur og salt (og kardimomma) sett útí mjólkina og hnoðað vel. Það er fínt að setja ekki alveg allt hveitið út í strax, og bæta frekar út í ef deigið er of blautt. Deigið er svo látið hefast í sirka 45 mín.

IMG_0197Á meðan er fínt að útbúa fyllinguna. En til að það sé auðveldast að blanda þessu saman hita ég smjörið alltaf smá í örbylgjunni til að mýkja það. Svo er sykri og kanil bætt út í og hrært saman.

 

 

IMG_0204Þegar deigið er búið að tvöfalda stærð sína er hveiti stráð á borðplötuna og deigið tekið úr skálinni og hnoðað aðeins. Því næst er því skipt upp í 4 hluta. Hver hluti er svo flattur út í ferhyrning (sirka 20×30 cm.) og svo er fyllingin smurð á og rúllað saman.

 

IMG_0209Svo er hver rúlla skorin í 10 sneiðar og sneiðarnar settar á plötu. Mér finnst best að nota muffins form fyrir snúðana. Þannig halda þeir sér betur saman í staðinn fyrir að gliðna í sundur. En það er líka í góðu lagi að setja þá bara beint á bökunarpappírsklædda plötu. Snúðarnir stækka töluvert í viðbót, þannig það þarf að passa að hafa nóg bil á milli þeirra.

IMG_0217Þegar þeir eru allir komnir á plötur þá eru þeir látnir hefast í 30-40 mín. í viðbót. Að lokum eru þeir penslaðir með hrærðu eggi bakaðir í 5-10 mín á 230-240° í miðjum ofni. Það þarf að fylgjast mjög vel með snúðunum því þeir eru fljótir að bakast.

 

Þegar búið er að taka snúðana út úr ofninum er fínt að gera súkkulaðibráðina á meðan þeir kólna. Ef maður vill frekar venjulegan glassúr (flórsykur, kakó, vatn) er það líka í góðu lagi. Svo er súkkulaðið sett ofaná og þá eru þeir tilbúnir. Það er í góðu lagi að frysta snúðana, en ég myndi sleppa súkkulaðinu þá og setja það frekar á þegar þeir eru þýddir.

IMG_0236


IMG_0242

Share

Kanilkaka með súkkulaðidropum

Í Svíþjóð er s.k. “Sockerkaka” ótrúlega vinsælt fyrirbæri – bein þýðing á íslensku er “Sykurkaka”, en þetta er í raun bara klassísk sandkaka. En svona kökur eru til í ótrúlegustu útfærslum í Svíþjóð. T.d. er eplakakan sem ég er með á síðunni í raun svona kaka, en með eplum. Svíar elska líka kanil og allt með kanil í, t.d. kanilsnúða (sem eiga meira að segja sinn eigin dag þarna úti, “dagur kanilsnúðsins”) og að sjálfsögðu er til útfærsla af sandkökunni með kanil í.
Þar sem kanill og súkkulaði fara einstaklega vel saman ákvað ég að prófa að bæta súkkulaði út í hana og útkoman var alveg ótrúlega góð. Hér kemur uppskriftin, en athugið að það er í góðu lagi að sleppa súkkulaðinu og þá er þetta orðin bara klassísk kanilkaka.

Kanilkaka með súkkulaði:

Tími: 65 mín (15 mín undirbúningur, 50 mín bakstur)
Hiti: 175°C

175 gr. mjúkt smjör
2 egg
4 1/2 dl. hveiti
2 1/2 dl. sykur
3 dl. súrmjólk eða AB-mjólk
2 tsk. vanilludropar
1 msk. lyftiduft
1/2 tsk. salt
150 gr. súkkulaðidropar eða hakkað súkkulaði

kanilsykur:
1 1/2 dl. sykur
1 1/2 msk. kanill

Stillið ofninn á 175°C. Smyrjið kökuformið vel. Ég nota kringlótt lausbotna form sem er sirka 26 cm. í þvermál, en það má nota hvaða form sem er.

IMG_9796Setjið smjörið og sykurinn í skál og þeytið þangað til áferðin verður létt og ljós. Þetta getur tekið smá stund, en það er mikilvægt að þeyta nógu lengi því annars verður kakan ekki jafn mjúk og góð.

Bætið einu eggi í einu út í og hrærið á milli. Súrmjólk, vanilludropum og þurrefnum er svo blandað út í og hrært varlega saman. Alveg nóg að hræra bara þangað til þetta er orðið vel blandað saman. Að lokum er súkkulaðinu bætt út í og hrært aðeins til að  þeir dreifist um deigið.

Kanilsykurinn er svo útbúinn í sér skál. Sykrinum og kanilnum er einfaldlega hrært vel saman.

Setjið sirka helming af deiginu í formið og dreifið úr því. Stráið 2/3 af kanilsykrinum yfir og setjið svo afganginn af deiginu yfir. Stráið að lokum afgangnum af kanilsykrinum yfir allt saman.

Mér finnst svo gott að hafa kökuna vel stökka að ofan og þess vegna spreyja ég með smá olíuspreyi (keypt tilbúið í spreybrúsa út í búð) yfir sykurinn. Það er ekki nauðsynlegt en ef maður sleppir því þá á sykurinn það til að vera pínu laus ofaná þegar hún er bökuð. Ef þetta er spreyjað með olíu verður sykurinn stökkur og góður.

Bakið kökuna í 175°c í 50 mín.

Kakan er mjög góð ein og sér, en enn betri með þeyttum rjóma.

IMG_9807

 

 

 

Share

Rice Krispies kökur

Síðan ég gerði döðlukonfektið með Rice Krispies um daginn er mig búið að langa mjög mikið í svona klassískar Rice Krispies kökur, svona með súkkulaði í muffinsformum – þannig ég ákvað að skella í eina uppskrift og tók í leiðinni mynd af þessu. Svona uppskrift eiga flestir til, en ég skelli henni inn samt sem áður. Þessi útgáfa er mátulega klístruð og bragðgóð að mínu mati. Svo framarlega sem maður setur ekki of mikið af Rice Krispies í súkkulaðiblönduna þá haldast kökurnar vel saman.

Rice Krispies kökur:
Tími: 20-30 mín + 30 mín til að kæla í ísskáp

100 gr. súkkulaði
60 gr. smjör
5 msk. síróp
5 dl. Rice Krispies

Súkkulaði, smjör og síróp er brætt saman á lágum hita í potti. Þegar þetta er alveg bráðið og er Rice Krispies bætt út í og hrært saman. Svo er þetta sett í muffins form. Ég nota oftast lítil mini muffins form því mér finnst það hæfilegir munnbitar fyrir svona, en það er í góðu lagi að nota venjuleg form.
Að lokum er þetta látið kólna, inn í ísskáp eða í lengri tíma við stofu hita.

Share

Sörur – skref fyrir skref

Ég hef alltaf miklað það fyrir mér að baka sörur. Einhvern vegin hélt ég að það væri svo rosalega flókið og tímafrekt að ég hef ekki nennt því hingað til. En þar sem ég er í fæðingarorlofi núna, með nægan tíma, þá ákvað ég að prófa þetta. Og þetta er miklu minna mál en ég hélt. Svolítið föndur, en alls ekki flókið. Átti erfitt með að finna hina einu réttu uppskrift, þannig ég endaði á að blanda saman nokkrum. Er núna búin að baka þær aftur og fullkomnaði þá (að mínu mati) uppskriftina og ætla að birta hérna mína útgáfu af þessum ótrúlega góðu smákökum. Læt einnig fylgja aðferðina ásamt myndum fyrir hvert skref – og auðvelda þannig baksturinn fyrir þeim sem vilja prófa 🙂

Þessi uppskrift gerir sirka 80-100 litlar sörur (1-2 munnbitar) eða 50-60 stærri. Hægt er að stækka myndirnar með því að smella á þær.

 

Sörur
Tími: 1,5-2 klst. með smá bið á meðan þær eru kældar áður en þær eru hjúpaðar með súkkulaði
Ofnhiti: 180°C

Botnar:
250 gr. möndluflögur eða hakkaðar möndlur
225 gr. flórsykur
4 eggjahvítur

Krem:
4 eggjarauður
80 ml. síróp
250 gr. smjör – mjúkt
2 tsk. skyndikaffi
1 msk. heitt vatn
2 msk. kakó

Hjúpur:
300 gr. dökkur súkkulaðihjúpur

 

Botnar – aðferð:

Setjið möndlurnar og flórsykurinn í matvinnsluvél og keyrið þetta í smá stund. Ég er ekkert rosalega hrifin af möndlum og finnst því best að hafa þær fínmalaðar. Ef maður vill finna meira fyrir möndlunum er í góðu lagi að nota bara hakkaðar möndlur eins og þær eru beint úr pokanum.

 

Setjið eggjahvíturnar í tandurhreina skál og þeytið þangað til hægt er að hvolfa skálinni án þess að þær renni úr. Best er að hafa eggin við stofuhita til að þetta heppnist sem best.

 

 

 

Blandið flórsykrinum og möndlunum varlega út í eggjahvíturnar. Best er að nota bara sleif eða álíka til að hræra. Ekki hræra of mikið, það er nóg að þetta sé bara blandað saman.

 

 

 

Setjið bökunarpappír á ofnplötur og notið teskeið til að setja deigið á plöturnar. Ef þið viljið ekki mjög stórar sörur þarf að passa að setja lítið deig. Það stækkar aðeins í ofninum þannig það þarf að passa að hafa nóg bil á milli.

 

 

Þetta er svo bakað í 10-14 mín. í 180°C eða þangað til þær eru hæfilega stökkar. Það er best að prófa fyrst eina plötu til að ákvarða tímann endanlega, en hann ræðst af stærðinni og því hversu mjúkar/stökkar þær eiga að vera. Mér finnst gott að hafa þær litlar og frekar í mýkri kantinum og hef þær inni í sirka 12 mín. Látið sörurnar kólna áður en þið takið þær af plötunum.

 

Krem – aðferð:

Byrjið á því að leysa kaffið upp í matskeið af heitu vatni. Látið þetta standa og kólna á meðan þið klárið að blanda saman hinum hráefnunum.  Þeytið eggjarauðurnar vel. Hellið sírópinu út í í mjórri bunu á meðan þið haldið áfram að þeytið rauðurnar. Þeytið þetta svo vel þannig að þetta er mjög ljóst og létt.

 

Passið að smjörið sé mjúkt (t.d. hægt að hita það örstutt í örbylgjunni) og hrærið það svo saman við eggjablönduna. Bætið svo kakói og kaffi út í eggja og smjörblönduna og þeytið vel þangað til þetta er orðið ljóst og mjúkt. Einstaka sinnum getur þetta skilið sig aðeins, en þá er ekkert mál að hræra bara áfram því þetta verður fínt á endanum. Ef þetta er of lint til að smyrja á botnana er hægt að kæla þetta aðeins áður.

 

 

Þegar botnarnir eru kaldir er kremið sett á flötu hliðina á þeim. Mér finnst best að nota skeið til þess að gera það, en þá er auðveldara að setja kremið á þannig sörurnar verði kúptar ofan á líka. Þegar búið er að setja krem á alla botnanna eru þeir kældir í ísskáp eða frysti þangað til kremið hefur stífnað vel, oftast nóg að kæla bara í 10-20 mín.

 

Að lokum er súkkulaðihjúpurinn bræddur yfir vatnsbaði eða í örbylgjunni (passa bara að það brenni ekki). Kremhlutanum er svo dýft í súkkulaðið þannig að kremið sé alveg falið. Best er að láta súkkulaðið stífna alveg og geyma þær svo í boxi inn í ísskáp eða frysti og taka þær bara út rétt áður en það á að borða þær.

 

Share

Ostakaka með Rolo

Um helgina var litli strákurinn okkar skírður, þannig ég fékk tækifæri til að baka helling. Ákvað að baka nokkrar kökur sem ég hef gert áður, en langaði líka til að prófa eitthvað nýtt. Rakst á uppskrift að Rolo ostaköku og ákvað að gera hana, en með nokkrum breytingum þó. Þetta kom rosalega vel út – og var alls ekki erfitt. Stór kostur að það þarf ekki að baka neitt, og kakan er fryst þannig það má gera hana löngu áður og svo er hún bara tekin út rétt áður en á að bera hana fram, helst á hún að vera aðeins frosin þegar hún er borin fram. Kakan vakti mikla lukku og það kom mér sjálfri á óvart hversu ótrúlega bragðgóð hún var. Þannig ég mæli klárlega með henni 🙂

 

Rolo ostakaka:

1 pakki af Bastogne LU-kexi (kanilkex)
100 gr. smjör
300 gr. rjómaostur
150 gr. flórsykur
1 tsk. vanilludropar
5 dl. rjómi
6 rúllur af Rolo
150 gr. sýrður rjómi

 

Byrjið á því að setja smjörpappír í botninn á smelluformi ( sirka 26 cm. ). Bræðið smjörið og myljið kexið. Blandið þessu svo saman og setjið í botninn á forminu.

 

Hrærið rjómaost, flórsykur og vanilludropa saman. Þeytið rjómann og blandið honum svo saman við ostablönduna. Bræðið 2 rúllur af Rolo(gott að setja örlítið af rjóma með) og hellið út í rjóma og ostablönduna. Hrærið bara létt, þannig að þetta blandist ekki alveg heldur verði “röndótt”. Hellið svo blöndunni ofan á kexmylsnuna og dreifið vel úr henni. Sléttið þetta eins vel og hægt er.

 

Bræðið sýrðan rjóma og 4 rúllur af Rolo varlega saman yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni. Passið að hita ekki of lengi ef notaður er örbylgjuofn. Látið þetta kólna aðeins og hellið svo yfir kökuna. Kakan er svo fryst þangað til það á að bera hana fram.

 

Þegar á að bera hana fram er gott að taka hana út smá stund áður. Hægt er að skreyta hana t.d. með bræddu súkkulaði, en hún er best hálffrosin.

 

 

Share

Muffins með súkkulaðibitum

Þetta er uppáhaldsmuffins uppskriftin mín. Hún er ekkert sérstaklega flókin, en það er mikilvægt að passa að þeyta smjör + sykur vel saman og að hræra ekki of mikið þegar búið er að bæta eggjunum við. Þessar eru mjög góðar einar og sér, en það er líka hægt að skella smjörkremi á þær.

 

Muffins með súkkulaðibitum:

24 meðalstórar muffins – hægt að hafa þær minni og gera fleiri
Ofnhiti 200°C
Tími: undirbúningur 20-30 mín bakstur 20 mín

5 dl. hveiti
4 dl. sykur
200 gr. mjúkt smjör
3 egg
1/2 tsk. matarsódi
1/2 tsk. salt
1 tsk. vanilludropar
100 gr. súkkulaði
1 lítil dós kaffi- eða karamellu og hnetujógúrt

 

Byrjaðu á því að hakka súkkulaðið í smáa bita eins og sést á myndinni til hliðar. Það er líka hægt að nota tilbúna súkkulaðidropa í staðinn. Einnig mætti nota súkkulaðispænir, en þá verða ekki neinir almennilegir súkkulaðibitar heldur blandast súkkulaðið meira við deigið.

 

 

Setjið smjörið og sykurinn í skál og þeytið þangað til áferðin verður létt og ljós. Þetta getur tekið smá stund, en það er mikilvægt að þeyta nógu lengi því annars verða muffinsin ekki jafn mjúk og góð.

 

 

 

Bætið svo einu eggi við og þeytið áfram, svo næsta eggi og þeytið aðeins meira og að lokum síðasta egginu og þeytið vel þangað til eggin hafa blandast vel við smjörið og sykurinn. Núna á blandan að vera orðin enn ljósari og léttari en hún var áður en eggjunum var bætt út í.

 

 

Þegar búið er að setja eggin út í er óhætt að losa skálina frá hrærivélinni ef svoleiðis er notuð. En héðan í frá er best að nota bara sleif eða álíka til að hræra það sem á eftir að hræra. Núna má bæta hveiti, matarsóda, salti, jógúrti og vanilludropum út í og hræra varlega. Ég set stundum aðeins minna af jógúrtinu og set í staðinn smá rótsterkt kaffi út í til að fá enn meiri kaffibragð. Að lokum er súkkulaðinu bætt út í og blandað varlega saman við deigið.

Það er gott að nota muffinsofnplötu með muffinsformum í, en það er líka hægt að nota bara muffinsform – en þá verða muffinsin ekki alveg jafn há. Hálffyllið formin með deigi, best að nota tvær skeiðar til að koma deiginu í formin.

Muffinsin eru svo bökuð í 20 mín í 175°C. Það er gott að stinga prjóni eða tannstöngli í eitt þeirra til að fullvissa sig um að þau eru tilbúin áður en þau eru tekin út. Ef það er deig á prjóninum þurfa þau að vera lengur í ofninum. Þegar búið er að taka þau út úr ofninum er best að láta þau kólna í smá stund áður en átt er við þau eitthvað frekar.

 

Eins og fyrr sagði eru muffinsin góð ein og sér, en það má líka setja smjörkrem á þau. Þá er gott að nota smjörkremið sem er neðst í þessari uppskrift.  Hægt að nota ýmislegt skraut til að skreyta með og um að gera að leika sér aðeins með matarlitina til að þetta verði skrautlegt og flott 🙂

Share

Dökk og einstaklega mjúk skúffukaka

Það eru til endalaust margar skúffukökuuppskriftir, og margar þeirra hef ég prófað. Þær eru allar misgóðar, en sú besta og mýksta hingað til er þessi hérna. Hún er líka mjög einföld og það er mikill kostur að hún er rosalega mjúk og endist lengi án þess að verða þurr. Ég nota þessa í allar afmælistertur og sykurmassatertur sem ég hef gert og hún hefur alltaf vakið mikla lukku.

Mjúk skúffukaka

5 dl. hveiti
5 dl. sykur
1,75 dl. kakó
2 tsk. matarsódi
2 stór. egg
2,5 dl. súrmjólk/ab mjólk
2,5 dl. matarolía
1 tsk. vanilludropar
2,5 dl. sjóðandi heitt vatn eða kaffi
1 tsk. salt

Þessi uppskrift er aðeins of lítil í venjulega ofnskúffu, en hún er fín í minni skúffur. Til að gera heila ofnskúffu er gott að gera eina og hálfa uppskrift, eða jafnvel tvöfalda ef maður vill extra þykka köku. Á myndinni hér að neðan er kaka sem var gerð í venjulegri ofnskúffu úr 1,5 – faldri uppskrift.
Allt nema vatnið er sett í skál og hrært aðeins saman. Vatninu er svo bætt við og klárað að hræra. Smjörpappír er settur í ofnskúffuna og svo er pappírinn og hliðarnar smurðar vel áður en deiginu er hellt í. Þetta er bakað í miðjum ofni við 150°C í sirka klukkutíma. Gott að stinga brjón eða hníf í miðjuna til að fullvissa sig um að hún sé bökuð.

Súkkulaðikrem:
1 pakki flórsykur
100 gr smjör
kakó að vild
sletta af köldu kaffi

Flórsykur og mjúkt smjör er hrært vel saman. Kakói er bætt út í þangað til þetta verður hæfilega brúnt. Kaffi er notað til að bleyta upp í og ná þeirri þykkt sem óskað er. Það er gott að hafa kremið frekar fljótandi þegar það er sett á þessa köku því hún er svo mjúk að hún á það til að festast í kremskeiðinni þegar því er smurt á. Það er líka hægt að frysta kökuna aðeins áður en kremið er sett á, þá er þetta minna mál.

 

Fyrir þriggja ára afmæli sonar míns notaði ég þessa uppskrift, en gerði grænt smjörkrem til að skreyta með. Þetta er uppskriftin að því:

100 gr. mjúkt smjör
2-3 dl. flórsykur
1 stk. eggjarauða (nota eggjahvítu ef kremið á að vera hvítt)
smá vanilludropar
matarlitur

Smjör og eggjarauður eru hrærðar saman þannig þetta verði ljóst og létt. Flórsykrinum bætt við og að lokum matarlit. Passa að setja ekki of mikið af flórsykri svo þetta verði ekki of þykkt.

Útkoman varð þessi:

Share

Frönsk súkkulaðikaka

Ég á mér nokkrar uppáhaldsuppskriftir sem ég geri svo aftur og aftur og aftur – alveg eins og brauðuppskriftin hér að neðan. Þetta er önnur svoleiðis uppskrift. Þessa hef ég gert ansi oft og hún klikkar aldrei. Er alltaf mjög vinsæl og er sú kaka sem þarf sérstaklega að passa að gera nóg af þegar hún er í boði. Hún er góð heit með vanilluís, en er alveg jafn góð köld með rjóma. Svo er stór kostur að hún geymist vel og verður ekkert verri þótt hún sé orðin 1-2 daga gömul. Það má líka frysta hana með eða án krems og bjóða upp á seinna.

Frönsk súkkulaðikaka

Botn:
2 dl sykur
200 g smjör
200 g suðusúkkulaði (eða gott dökkt súkkulaði)
1 dl hveiti
4 stk egg

Súkkulaðibráð:
150 g suðusúkkulaði (eða gott dökkt súkkulaði)
70 g smjör
2 msk síróp

Botn:
Þeytið eggin og sykurinn vel saman.
Bræðið smjörið og súkkulaðið saman við vægan hita í potti eða í örbylgjuofni. Athugið að passa að súkkulaðið brenni ekki ef örbylgjuofn er notaður.
Blandið hveitinu varlega saman við eggin og sykurinn með sleif. Bætið bráðnu súkkulaðinu og smjörinu að lokum varlega út í deigið.

Klæðið botninn í springformi með smjörpappír, smyrjið vel og hellið deiginu í það. Bakið svo við 170°C í 30 mínútur. Það má jafnvel stytta tímann eftir því hversu blauta í miðjunni þið viljið hafa hana. Þegar kakan er tilbúin þarf hún að kólna örlítið áður en hún er tekin úr forminu. Besta aðferðin til að taka hana úr forminu er að losa formið, setja disk á hvolfi á kökuna og snúa henni við þannig að hún liggji á hvolfi á diskinum, taka smjörpappírinn af og hvolfa svo aftur á það fat sem hún að að vera á.

Súkkulaðibráð:
Látið allt saman í pott og bræðið saman við vægan hita. Kælið bráðina svolítið og berið hana síðan á kökuna.
Það er líka í fínu lagi að sleppa súkkulaðibráðinni, og dreifa í staðinn smá flórsykri yfir botninn.

Það er mjög gott að setja jarðaber eða hindber á kökuna áður en hún er borin fram.

Share

Haframjöls og rúsínukökurnar hennar langömmu

Þriðja sortin sem ég baka fyrir þessi jóla er haframjöls og rúsínukökurnar sem hún Ásdís langamma mín gerði alltaf. Ég reyndar breytti aðeins til og dýfði nokkrum þeirra að hluta til í súkkulaði, kemur svo bara í ljós hvort það verði vinsælla en þær sem eru án súkkulaðis.

Hér er uppskriftin:

Haframjöls og rúsínukökurnar hennar langömmu:

4 bollar haframjöl
3 bollar hveiti
4 bollar sykur
2 bollar rúsínur
400 g. Smjörlíki
2 tsk. matarsódi
2 egg

Haframjöl, rúsínur og smjörlíki er hakkað saman í matvinnsluvél.
Svo er restinni blandað saman við og hnoðað vel.

Rúllur búnar til sem eru svo skornar í sneiðar og settar á plötu.

Bakað við 170°-190°c (fer eftir ofni, lægri í blásturs). Í nokkrar mín, um 5-12 mín (þangað til fallega brúnar)

 

Share

Smákökur með kanil, súkkulaði og höfrum

Ég geri alltaf sömu smákökurnar, ár eftir ár, en þetta árið ákvað ég að prófa eitthvað nýtt. Ég fann þessa uppskrift í Gestgjafanum, en breytti henni örlítið og prófaði að gera hana í gær. Ég varð heldur betur sátt við hana, þessar smákökur eru æði! Mæli hiklaust með henni. Ekki flókin uppskrift heldur.

Smákökur með kanil, súkkulaði og höfrum:

115 gr. sykur

200 gr. púðursykur

225 gr. smjör, mjúkt

2 egg

1 tsk. vanilludropar

1 msk. síróp

145 gr. hveiti

5 tsk. kanill

1 tsk. matarsódi

1/2 tsk. salt

1/2 tsk. múskat

300 gr. suðusúkkulaði – saxað

240 gr. haframjöl

 

Hitið ofninn í 180°C. Sykur og smjör hrært saman vel. Egg, vanilludropar, sírópi bætt saman við blönduna. Hveiti, kanill, matarsódi, salt og múskati blandað saman og síðan bætt út í sykurblönduna. Að lokum er súkkulaðinu og haframjölinu bætt út í og hrært saman. Degið er sett á bökunarpappírsklædda ofnplötu með teskeið (eða matskeið ef þær eiga að vera stórar) og svo bakað í 10-12 mín. Kökurnar þurfa að kólna í smá stund áður en þær eru teknar af plötunni.

Share

WordPress Themes