Graflaxsósan hans pabba
Nú fer að styttast í jólin, og því fylgir hellingur af bakstri og eldamennsku – enda einn af mínum uppáhalds tímum ársins.
Ég er nú þegar byrjuð að baka smákökur, búa til brjóstsykra og fleira í þeim dúr, en meira um það allt saman síðar. Núna ætla ég að segja frá einu af því sem ég gæti ekki verið án á jólunum – graflax + graflaxsósa. Ég þarf engan hamborgarhrygg, engar rjúpur og ekkert hangikjöt, svo framarlega sem ég fæ graflaxinn minn. Og þá er best að vera með heimagerða sósu. Uppáhalds graflaxsósuuppskriftin mín kemur frá pabba mínum, og er eiginlega ekki uppskrift heldur leiðbeiningar um hvað á að vera í sósunni. Magn af hverju innihaldsefni er eitthvað sem maður þarf svolítið að smakka sig áfram með, en ég ætla að reyna eftir bestu getu að sirka þetta út fyrir þá sem vilja prófa. Hér kemur uppskriftin:
Graflaxsósa (hans pabba:)
1-2 dl. majones
1-2 dl. þeyttur rjómi
4-5 msk. púðursykur
4-5 msk. af sinnepi (ég blanda mismunandi tegundum af sinnepi, set smá dijon, helling af hunangssinnepi, og oftast einhverjar fleiri tegundir – en ekki pulsusinnep, held það passi engan vegin)
1-2 msk. dill
Öllu blandað saman og best að láta standa svo í kæli í smá stund áður en hún er borin fram, þannig verður hún bragðmeiri.
Þetta eru allt sirka mál eftir minninu mínu, reyni kannski að skrá þetta niður næst þegar ég bý til sósuna. En best er að smakka til, það þarf t.d. meira af púðursykri en manni grunar, hún á að vera vel sæt – og það er gott að nota eitthvað annað sterkt sinnep en dijon sinnep líka.
No Comments
No comments yet.
RSS feed for comments on this post.
Leave a comment