Kjúklingasalatið hennar Ernu
Á jólunum er varla hægt að komast hjá því að borða mikið af góðgæti. Og mikið af þessu góðgæti er matur sem er þungur í maga og manni líður e.t.v. ekkert allt of vel alltaf eftir allt þetta át. Þá er gott að kunna uppskrift að góðu og léttu kjúklingasalati. Hér er uppáhalds kjúklingasalatið mitt. Það var í matinn í kvöld og verður pottþétt í matinn aftur eftir jól. Það er ekkert heilagt hvað er sett í sjálft salatið, ég breyti oft til og hef mismunandi tegundir af salati, set stundum papriku, stundum tómata og svo framvegis. Allt eftir því hvað maður á hverju sinni. Það var hún Erna Lóa vinkona mín sem bauð mér fyrst upp á þetta salat, þess vegna hefur það alltaf verið kallað Kjúklingasalatið hennar Ernu.
Kjúklingasalatið hennar Ernu:
Kjúklingabringur (Ég krydda þær bara með því sem ég á hverju sinni, en bestar eru þær með þessum kryddum)
Arabískt kjúklingakrydd
Tandorikrydd
Ólífuolía
salt
Blanda af klettasalati, spínati og tilbúinni salatblöndu
cherry tómatar
Vínber
Rauðlaukur
ristaðar pekan-hnetur
kryddi blandað í olíuna og bringurnar síðan marineraðar í allavegana klukkutíma áður en þær eru steiktar á háum hita þannig að þær brúnist aðeins. Þær eru svo settar í ofn í c.a 20 mín eða þangað til að þær eru eldaðar í gegn. Ég nota yfirleitt kjöthitamæli til að vera viss um að þær séu tilbúnar, þ.e. 72°C, en verði ekki of steiktar. Bringurnareru kældar og svo skornar í frekar þunnar sneiðar. Öllu blandað saman.
Þessi salatdressing er algjört æði – frábært að búa hana til og eiga hana svo inn í ísskáp fyrir seinni tækifæri.
1/2 bolli ólífuolía
1 bolli balsamik edik
4 msk sykur
4 msk sojasósa
3-4 kreystir hvítlauksgeirar
Öllu blandað saman í pott og látið sjóða í 2 mín. Þetta freyðir frekar mikið þegar suðan kemur þannig að það er best að hræra hressilega þessar 2 mínútur.
Dressingin látin kólna (ekki í ískáp því þá getur hún skilið sig).
No Comments
No comments yet.
RSS feed for comments on this post.
Leave a comment