Dökk og einstaklega mjúk skúffukaka

Það eru til endalaust margar skúffukökuuppskriftir, og margar þeirra hef ég prófað. Þær eru allar misgóðar, en sú besta og mýksta hingað til er þessi hérna. Hún er líka mjög einföld og það er mikill kostur að hún er rosalega mjúk og endist lengi án þess að verða þurr. Ég nota þessa í allar afmælistertur og sykurmassatertur sem ég hef gert og hún hefur alltaf vakið mikla lukku.

Mjúk skúffukaka

5 dl. hveiti
5 dl. sykur
1,75 dl. kakó
2 tsk. matarsódi
2 stór. egg
2,5 dl. súrmjólk/ab mjólk
2,5 dl. matarolía
1 tsk. vanilludropar
2,5 dl. sjóðandi heitt vatn eða kaffi
1 tsk. salt

Þessi uppskrift er aðeins of lítil í venjulega ofnskúffu, en hún er fín í minni skúffur. Til að gera heila ofnskúffu er gott að gera eina og hálfa uppskrift, eða jafnvel tvöfalda ef maður vill extra þykka köku. Á myndinni hér að neðan er kaka sem var gerð í venjulegri ofnskúffu úr 1,5 – faldri uppskrift.
Allt nema vatnið er sett í skál og hrært aðeins saman. Vatninu er svo bætt við og klárað að hræra. Smjörpappír er settur í ofnskúffuna og svo er pappírinn og hliðarnar smurðar vel áður en deiginu er hellt í. Þetta er bakað í miðjum ofni við 150°C í sirka klukkutíma. Gott að stinga brjón eða hníf í miðjuna til að fullvissa sig um að hún sé bökuð.

Súkkulaðikrem:
1 pakki flórsykur
100 gr smjör
kakó að vild
sletta af köldu kaffi

Flórsykur og mjúkt smjör er hrært vel saman. Kakói er bætt út í þangað til þetta verður hæfilega brúnt. Kaffi er notað til að bleyta upp í og ná þeirri þykkt sem óskað er. Það er gott að hafa kremið frekar fljótandi þegar það er sett á þessa köku því hún er svo mjúk að hún á það til að festast í kremskeiðinni þegar því er smurt á. Það er líka hægt að frysta kökuna aðeins áður en kremið er sett á, þá er þetta minna mál.

 

Fyrir þriggja ára afmæli sonar míns notaði ég þessa uppskrift, en gerði grænt smjörkrem til að skreyta með. Þetta er uppskriftin að því:

100 gr. mjúkt smjör
2-3 dl. flórsykur
1 stk. eggjarauða (nota eggjahvítu ef kremið á að vera hvítt)
smá vanilludropar
matarlitur

Smjör og eggjarauður eru hrærðar saman þannig þetta verði ljóst og létt. Flórsykrinum bætt við og að lokum matarlit. Passa að setja ekki of mikið af flórsykri svo þetta verði ekki of þykkt.

Útkoman varð þessi:

Share

2 Comments

Other Links to this Post

  1. Hér er matur um mat… » Muffins með súkkulaðibitum — 24/01/2012 @ 21:33

  2. Hér er matur um mat… » Súkkulaðimuffins með Rolo — 12/06/2012 @ 00:23

RSS feed for comments on this post.

Leave a comment

WordPress Themes