Frönsk súkkulaðikaka

Ég á mér nokkrar uppáhaldsuppskriftir sem ég geri svo aftur og aftur og aftur – alveg eins og brauðuppskriftin hér að neðan. Þetta er önnur svoleiðis uppskrift. Þessa hef ég gert ansi oft og hún klikkar aldrei. Er alltaf mjög vinsæl og er sú kaka sem þarf sérstaklega að passa að gera nóg af þegar hún er í boði. Hún er góð heit með vanilluís, en er alveg jafn góð köld með rjóma. Svo er stór kostur að hún geymist vel og verður ekkert verri þótt hún sé orðin 1-2 daga gömul. Það má líka frysta hana með eða án krems og bjóða upp á seinna.

Frönsk súkkulaðikaka

Botn:
2 dl sykur
200 g smjör
200 g suðusúkkulaði (eða gott dökkt súkkulaði)
1 dl hveiti
4 stk egg

Súkkulaðibráð:
150 g suðusúkkulaði (eða gott dökkt súkkulaði)
70 g smjör
2 msk síróp

Botn:
Þeytið eggin og sykurinn vel saman.
Bræðið smjörið og súkkulaðið saman við vægan hita í potti eða í örbylgjuofni. Athugið að passa að súkkulaðið brenni ekki ef örbylgjuofn er notaður.
Blandið hveitinu varlega saman við eggin og sykurinn með sleif. Bætið bráðnu súkkulaðinu og smjörinu að lokum varlega út í deigið.

Klæðið botninn í springformi með smjörpappír, smyrjið vel og hellið deiginu í það. Bakið svo við 170°C í 30 mínútur. Það má jafnvel stytta tímann eftir því hversu blauta í miðjunni þið viljið hafa hana. Þegar kakan er tilbúin þarf hún að kólna örlítið áður en hún er tekin úr forminu. Besta aðferðin til að taka hana úr forminu er að losa formið, setja disk á hvolfi á kökuna og snúa henni við þannig að hún liggji á hvolfi á diskinum, taka smjörpappírinn af og hvolfa svo aftur á það fat sem hún að að vera á.

Súkkulaðibráð:
Látið allt saman í pott og bræðið saman við vægan hita. Kælið bráðina svolítið og berið hana síðan á kökuna.
Það er líka í fínu lagi að sleppa súkkulaðibráðinni, og dreifa í staðinn smá flórsykri yfir botninn.

Það er mjög gott að setja jarðaber eða hindber á kökuna áður en hún er borin fram.

Share

No Comments

No comments yet.

RSS feed for comments on this post.

Leave a comment

WordPress Themes