Ítalskt pastasalat
Þegar ég held afmælisveislur og önnur boð vil ég helst hafa eitthvað matarkyns á boðstólnum. Ég er sjálf ekkert rosalega mikið fyrir sætindi og kökur og er því hrifnari af t.d. heitum réttum og álíka. Ég reyni því alltaf að vera með mikið af svoleiðis og hef t.d. boðið upp á súpur og pastasalöt. Í þriggja ára afmæli sonar míns núna fyrir viku síðan bauð ég upp á mjög gott pastasalat sem vakti mikla lukku. Ég veit ekkert hvert upprunalegt heiti salatsins er, en ég ákvað bara að nefna það “Ítalskt pastasalat” því það passar einhvern vegin miðað við hráefnin. Uppskriftin kemur upphaflega frá einni sem var í mömmuhóp með mér, en ég er búin að breyta henni örlítið.
Ítalskt pastasalat
300 gr pasta – slaufur, skrúfur eða álíka
6 msk sólþurrkaðir tómatar í olíu
3 msk fersk basilika
3 msk fersk steinselja (ég sleppi þessu stundum, set þá meira af basiliku)
2-3 hvítlauksgeirar
1 dl ólífuolía
2 msk balsamico-edik
1 tsk hlynsíróp (ég hef oft notað venjulegt síróp í staðinn)
(1-2 msk. grænt – pestó ekki í upprunalegu uppskriftinni, í góðu lagi að sleppa en mér finnst betra með pestó)
4 msk hakkaðar og ristaðar pekanhnetur eða furuhnetur
80 gr pepperóní – best að nota þessar litlu sem fást t.d. í Kosti og Krónunni.
2 msk grænar ólífur, skornar í bita.
2-3 msk rifinn parmesan ostur
lítill rauðlaukur skorinn í þunnar sneiðar
klettasalat
nokkrir kirsuberjatómatar skornir í tvennt
salt og pipar
Pastað er soðið í vatni með smá salti eftir leiðbeiningum á pakkanum.
Helmingur sólþurrkuðu tómatanna, helmingur kryddjurtanna, hvítlaukurinn, ólífuolían, balsamicoedikið, sírópið og pestó er látið í matvinnsluvél og mixað í smá stund. Til að auðvelda fyrir er gott að vera búin að skera sólþurrkuðu tómatana í minni bita og kremja hvítlaukinn.
Restin af sólþurrkuðu tómötunum og kryddjurtunum er skorið niður í hæfilega bita.
Þessu er öllu blandað saman við pastað ásamt ristuðum hnetum, pepperóní, ólífum, rauðlauk, klettasalati og kirsuberjatómötum. Saltað og piprað eftir smekk. Að lokum er parmesanostinum stráð yfir allt saman.
No Comments
No comments yet.
RSS feed for comments on this post.
Leave a comment