Muffins með súkkulaðibitum

Þetta er uppáhaldsmuffins uppskriftin mín. Hún er ekkert sérstaklega flókin, en það er mikilvægt að passa að þeyta smjör + sykur vel saman og að hræra ekki of mikið þegar búið er að bæta eggjunum við. Þessar eru mjög góðar einar og sér, en það er líka hægt að skella smjörkremi á þær.

 

Muffins með súkkulaðibitum:

24 meðalstórar muffins – hægt að hafa þær minni og gera fleiri
Ofnhiti 200°C
Tími: undirbúningur 20-30 mín bakstur 20 mín

5 dl. hveiti
4 dl. sykur
200 gr. mjúkt smjör
3 egg
1/2 tsk. matarsódi
1/2 tsk. salt
1 tsk. vanilludropar
100 gr. súkkulaði
1 lítil dós kaffi- eða karamellu og hnetujógúrt

 

Byrjaðu á því að hakka súkkulaðið í smáa bita eins og sést á myndinni til hliðar. Það er líka hægt að nota tilbúna súkkulaðidropa í staðinn. Einnig mætti nota súkkulaðispænir, en þá verða ekki neinir almennilegir súkkulaðibitar heldur blandast súkkulaðið meira við deigið.

 

 

Setjið smjörið og sykurinn í skál og þeytið þangað til áferðin verður létt og ljós. Þetta getur tekið smá stund, en það er mikilvægt að þeyta nógu lengi því annars verða muffinsin ekki jafn mjúk og góð.

 

 

 

Bætið svo einu eggi við og þeytið áfram, svo næsta eggi og þeytið aðeins meira og að lokum síðasta egginu og þeytið vel þangað til eggin hafa blandast vel við smjörið og sykurinn. Núna á blandan að vera orðin enn ljósari og léttari en hún var áður en eggjunum var bætt út í.

 

 

Þegar búið er að setja eggin út í er óhætt að losa skálina frá hrærivélinni ef svoleiðis er notuð. En héðan í frá er best að nota bara sleif eða álíka til að hræra það sem á eftir að hræra. Núna má bæta hveiti, matarsóda, salti, jógúrti og vanilludropum út í og hræra varlega. Ég set stundum aðeins minna af jógúrtinu og set í staðinn smá rótsterkt kaffi út í til að fá enn meiri kaffibragð. Að lokum er súkkulaðinu bætt út í og blandað varlega saman við deigið.

Það er gott að nota muffinsofnplötu með muffinsformum í, en það er líka hægt að nota bara muffinsform – en þá verða muffinsin ekki alveg jafn há. Hálffyllið formin með deigi, best að nota tvær skeiðar til að koma deiginu í formin.

Muffinsin eru svo bökuð í 20 mín í 175°C. Það er gott að stinga prjóni eða tannstöngli í eitt þeirra til að fullvissa sig um að þau eru tilbúin áður en þau eru tekin út. Ef það er deig á prjóninum þurfa þau að vera lengur í ofninum. Þegar búið er að taka þau út úr ofninum er best að láta þau kólna í smá stund áður en átt er við þau eitthvað frekar.

 

Eins og fyrr sagði eru muffinsin góð ein og sér, en það má líka setja smjörkrem á þau. Þá er gott að nota smjörkremið sem er neðst í þessari uppskrift.  Hægt að nota ýmislegt skraut til að skreyta með og um að gera að leika sér aðeins með matarlitina til að þetta verði skrautlegt og flott 🙂

Share

No Comments

No comments yet.

RSS feed for comments on this post.

Leave a comment

WordPress Themes