Vatnsdeigsbollur – skref fyrir skref

Núna nálgast bolludagurinn og þá er ekki annað hægt en að fá sér bollur. Í mínum huga eru það vatnsdeigsbollurnar sem eru hinar einu sönnu bolludagsbollur. Þessar tilbúnu sem fást í búðum og bakaríum finnst mér oft vera hálf þurrar – svona fyrir utan allt rjómamagnið sem er stundum sett á – þannig ég baka þetta eiginlega alltaf sjálf. Sumar uppskriftir virðast vera þannig að það er auðvelt að mistakast með þær, en ég tel mig hafa fundið hina fullkomnu uppskrift og hingað til hefur mér eiginlega alltaf tekist að gera flottar og góðar bollur. Galdurinn við að þetta gangi upp er að mínu mati að hræra eggin saman í skál áður en þeim er bætt við hveitiblönduna. Þá getur maður betur stjórnað magninu því eggin eru misstór og þess vegna getur gerst að deigið verði of þunnt ef of mikið af eggjum fara í það. Hér kemur uppskriftin, skref fyrir skref með myndum þannig að allir geti nú gert þetta. Þetta er nefnilega ekkert mikið mál, og tekur ekki langan tíma. Það er hægt að stækka myndirnar með því að smella á þær.

Vatnsdeigsbollur:
ofnhiti: 200°C
Tími: undirbúningur 20 mín. bökun: 20-30 mín
12 miðlungsstórar bollur

80 g. smjör eða smjörlíki
2 dl. vatn
100 gr. hveiti (1 3/4 dl. )
2-3 egg
1/8 tsk. salt

Stillið ofnin á 200°C. Ég nota blástur, en það er í lagi að nota bara undir og yfirhita. Setjið smjör og vatn í pott. Sjóðið þangað til smjörið bráðnar.

Setjið hveitið út í og hrærið vel með sleif þangað til deigið hættir að festast við pottinn og sleifina. Stráið svo salti yfir og látið þetta standa í nokkrar mínútúr þannig að þetta kólni.

Á meðan deigið er að kólna er gott að hræra eggin saman. Þegar ég nota hrærivélina þá þeyti ég þau bara í hrærivélarskálinni og set svo í litla skál og hef til hliðar. Það er þó nóg að hræra þau bara létt saman í skál með gaffli. Egg eru misstór og þar sem alls ekki má setja of mikið af þeim (þá verða bollurnar flatar) segir uppskriftin að það eigi að vera 2-3 egg, yfirleitt eru 2 egg of lítið en 3 egg örlítið of mikið. Til að koma í veg fyrir að bollurnar klikki eru öll eggin hrærð saman, notað svo það sem þarf og afgangi hent ef það verður einhver. Flestar uppskriftir miða við lítil egg. Mín reynsla er að í þessa uppskrift hérna þarf bara 2 egg ef þau eru stór, 2,5 ef þau eru meðalstór en 3 ef þau eru lítil.

Þegar deigið er búið að kólna aðeins er það sett í skál (hrærivélaskálina ef svoleiðis er notað). Deigið má ekki vera of heitt, það þarf að vera hægt að snerta það og ef maður hrærir aðeins í því á ekki að rjúka úr því. Svo er smá af eggjablöndunni bætt út í og þeytt vel í hrærivél eða með handþeytara og svo sett meira og aftur þeytt vel á milli. Þetta er gert alveg þangað til eggjablandan er alveg að verða búin. Það þarf að passa að setja ekki of mikið. Þetta á að vera frekar þykkt, á ekki að renna heldur eiga topparnir sem maður myndar með hrærivélinni að haldast en ekki renna saman þegar maður hættir að þeyta. Ég nota oftast meðalstór egg og enda alltaf á að henda smá, sirka hálfu eggi.

Deigið er svo sett á plötu með tveim skeiðum, en það er líka hægt að sprauta því þannig þetta verði fallegra. Þetta verða sirka 12 miðlungsstórar bollur. Ef það er erfitt að “móta” bollurnar og deigið rennur út er það of þunnt.

Þetta er svo sett inn í ofn og bakað í 25-30 mín. Það er mjög mikilvægt að opna ekki ofninn fyrstu 15-20 mín. en svo eftir þann tíma er hægt að opna og taka bollu út til að athuga hvort þær séu tilbúnar með því að skera bolluna í tvennt og athuga hvort hún sé of blaut inn í. Oft er betra að hafa þær 2-3 mín lengur inni því ef þær eru of blautar í miðju þegar þær eru teknar út þá eiga þær það til að falla smá saman (en verða samt ekki að klessu, heldur alveg nothæfar).

Bollurnar þurfa svo að kólna aðeins áður en sulta + rjómi – eða eitthvað annað gott – er sett á þær. Í uppáhaldi hjá mér er að setja annað hvort súkkulaðiglassúr ( 1-2 dl. flórsykur, 1 msk. kakó, smá vanilludropar og vatn þangað til þetta er hæfilega þunnt) eða súkkulaðibráð ( 1 plata suðusúkkulaði + sirka 1-2 msk. síróp + 2 msk. af rjóma brætt saman) á bollurnar og svo berjasultu og rjóma inn í 🙂

Ef bollurnar eru settar í poka til geymslu þá eiga þær það til að verða frekar mjúkar. Það er sniðugt að geyma þær bara undir viskustykki fyrst um sinn, ég geri það oftast ef þær eru bakaðar deginum áður en á að borða þær. Þá haldast þær stökkar og fínar.

Share

11 Comments

 • By Auður Ólafs, 08/02/2013 @ 09:55

  Frábær uppskrift og leiðbeiningar, allavegana komu bollurnar 100% út úr ofninum í fyrstu tilraun 🙂

  frábær síða hjá þér Unnur og gaman að sjá ykkur mæðgin í gær í Gerplu

  kveðja

 • By Unnur Karen, 08/02/2013 @ 17:36

  Frábært að heyra og sömuleiðis!

 • By Kristín Ósk, 10/02/2013 @ 17:10

  Takk fyrir þessar imbaheldu leiðbeiningar – bakaði mínar fyrstu bolludagsbollur og þær heppnuðust svona líka ljómandi vel 🙂

 • By Rebekka Maren, 10/02/2013 @ 19:34

  Sæl, ég ætla að fá að prufa þessa aðferð frá þér 🙂 en mín spurning er sú, hvað læturu degið kólna lengi áður en þú hrærir eggin út í?

  var nefnilega að prufa eina uppskrift hjá mér í dag og það tókst ekki aldrei þessu vant fór að spá hvort ég hefði ekki látið degið kólna nógu lengi

  og þá líka ef ég nota blástur hvað bakaru bollurnar lengi þá? Er ennþá að fikra mig áfram í blæstrinum nefnilega 🙂

  kv Rebekka.

 • By Sigrún, 10/02/2013 @ 19:40

  Kærar þakkir fyrir uppskriftina – ég fann hana í gegnum google. Ég hef reynt einu sinni áður að gera bollur og þær snarféllu allar, þrátt fyrir að ég hefði ekkert opnað ofninn. Núna gekk það mun betur 🙂

 • By Unnur Karen, 10/02/2013 @ 19:41

  Hæ hæ,
  ég læt deigið bara kólna í svona 15 mín sirka. Gott að hræra nokkrum sinnum í því og athuga hvort það rjúki úr því. Það þarf að vera hægt að snerta það án þess að maður brenni sig.

 • By Unnur Karen, 10/02/2013 @ 19:44

  Ég baka þær alltaf í blæstri og hef þær inni alveg í 25 – 30 mín. Tek stundum út eina eftir 25 mín og tékka hvort hún sé tilbúin. Fínt að hafa ofninn stilltan á 190°C ef það er blástur líka.

 • By Kristjana ;), 10/02/2013 @ 22:07

  Hæhæ
  Rakst á þessa síðu og sá þessar geggjuðu vatnsdeigsbollur. Langaði bara að þakka þér fyrir frábæra uppskrift og leiðbeiningar 😉
  Bollurnar voru Æði!

  Takk takk..

 • By Rebekka Maren, 11/02/2013 @ 16:32

  takk fyrir þetta, bollurnar mínar tókust þökk sé þessari uppskrift og aðferðarskrefunum sem eru algjör snilld 🙂 awsome !

 • By Unnur Karen, 11/02/2013 @ 16:43

  Frábæart að heyra 🙂
  Markmiðið mitt er að hafa uppskriftina það ítarlega að allir geti bakað bollurnar 🙂

 • By Tinna, 14/02/2013 @ 21:05

  Tókst í fyrstu tilraun – takk fyrir þessa frábæru uppskrift 🙂

Other Links to this Post

RSS feed for comments on this post.

Leave a comment

WordPress Themes