Kókosmuffins með bountykremi

Það er löngu kominn tími á nýja færslu hjá mér. Ég hef ekki verið nógu dugleg undanfarnar vikur, en ætla svo sannarlega að bæta úr því. Er með helling af uppskriftum sem bíða þess að fara á síðuna, en ætla að byrja á uppskrift af kókosmuffins sem eru góð ein og sér, en eru enn betri með bountykreminu sem fylgir með. Í fyrsta skipti sem ég gerði þessar bollakökur gerði ég þær í svona mini-cupcakes formum og þær komu einstaklega vel út svoleiðis líka. Þá er uppskriftin bara eins, en tíminn í ofninum styttri, kannski svona 10-12 mín – en best að stinga í með prjón þegar þær byrja að verða dekkri að ofan.

Kókosbollakökur með bountykremi
Gerir sirka 18 stk.

Muffins:

140 gr. sykur
140 gr. púðursykur
160 gr. smjör
2 egg
240 gr. hveiti
1 tsk. lyftiduft
100 ml. kókosmjólk
2 tsk. vanilludropar
1 dl. kókosmjöl

 

Stillið ofninn á 170°C. Ég nota blástur, en undir/yfirhiti hentar fínt líka en þá gæti baksturstíminn orðið örlítið lengri.

Hrærið smjör, sykur og púðursykur saman þannig þetta verði blautur sykurmassi.

 

Bætið eggjunum út í einu í einu og hrærið vel á milli. Hrærið þetta þangað til þetta verður létt og ljóst.

 

 

 

Bætið hveiti, vanilludropum, lyftidufti, kókosmjöli  og kókosmjólk útí og hrærið þangað til þetta er búið að blandast saman. Passið að hræra ekki of mikið því þá verður þetta ekki jafn mjúkt og gott.

Setjið deigið í form, ég nota alltaf tvær skeiðar og rétt rúmlega hálfylli formin. Þetta verða um 12-18 muffins, allt eftir því hve mikið þið setjið í hvert form. Ef það á að sleppa bounty kreminu er alveg óhætt að setja aðeins meira í formin – en ef það á að setja kremið á finnst mér betra ef muffinsin séu ekki of stór.

 

Þetta er svo bakað í sirka 18-20 mín. Eftir 17-18 mín er fínt að stinga prjóni í eina köku til að athuga hvort hún sé tilbúin – ef það festist deig á prjóninum þá þarf að baka þetta aðeins lengur. Muffinsin þurfa svo að kólna áður en kremið er sett á, þannig það er fínt að taka þau út og gera svo kremið á meðan þau kólna.

 

Bounty krem:

110 gr. mjúkt smjör
450 gr. flórsykur
100 gr. bounty
75 gr. suðusúkkulaði
1/2 tsk. vanilludropar
50 ml. kókosmjólk (eða venjuleg mjólk – ég nota kókosmjólkina ef það er afgangur úr muffinsbakstrinum)

 

Smjör og flórsykur eru hrærð saman. Þetta hrærist ekkert sérstaklega vel þar sem þetta er frekar þurrt. Súkkulaði + bounty er brytjað niður og brætt annað hvort yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni (passa samt að ofhita ekki ef örbylgjuofn er notaður). Bætið svo súkkulaðibráðinu út í sykurblönduna og þynnið með mjólkinni. Það er ekkert öruggt að það þurfi að nota alla mjólkina, best að þynna bara þangað til þetta er hæfilega þykkt.

Kreminu er svo sprautað yfir muffinsin og að lokum er gott að strá smá kókosmjöli yfir þær 🙂

Share

1 Comment

Other Links to this Post

  1. Hér er matur um mat… » Súkkulaðimuffins með Rolo — 12/06/2012 @ 00:23

RSS feed for comments on this post.

Leave a comment

WordPress Themes