Súkkulaðimuffins með Rolo

Margar af bestu súkkulaðimuffins uppskriftunum eru með miklu súkkulaði, sem getur oft kostað sitt. Þess vegna finnst mér alltaf gott að finna uppskriftir sem eru bragðgóðar en eru bara með kakó í staðinn fyrir bræddu súkkulaði. Þessi sem hér á eftir kemur er svoleiðis uppskrift. Reyndar eru súkkulaðibitar í henni og fyrir þá sem vilja þá er líka gott að setja Rolo í muffinsin, en þetta er alls ekki nauðsynlegt og þau eru alveg góð án þess að vera með þetta tvennt. Þau eru líka einstaklega mjúk og góð, en með svona “crunchy” topp sem mér finnst oft einmitt vanta á heimabökuð muffins. Það er svo alltaf hægt að gera þau enn betri með því að skella kremi á þau, en með súkkulaðinu og Roloinu í finnst mér það ekki þurfa. En með góðu súkkulaðikremi eins og því sem er í þessari uppskrift, eða með bountykreminu sem er hérna er maður kominn alveg ekta bollakökur 🙂

 

Súkkulaðimuffins
Gerir sirka 18 muffins

100 gr. sykur
200 gr. púðursykur
125 gr. mjúkt smjör
2 egg
260 gr. hveiti
1 tsk. lyftiduft
1 tsk. matarsódi
1/2 tsk. salt
2 tsk. vanilludropar
40 gr. kakó
2 dl. súrmjólk eða venjuleg mjólk
150-200 gr. súkkulaðidropar eða hakkað suðusúkkulaði (má sleppa)
1,5 rúlla Rolo (má sleppa)

 

Stillið ofninn á 180°C. Ég nota blástur, en undir/yfirhiti hentar fínt líka en þá gæti baksturstíminn orðið örlítið lengri.

Hrærið smjör, sykur og púðursykur saman þannig þetta verði blautur sykurmassi.

 

 

Bætið eggjunum út í einu í einu og hrærið vel á milli. Hrærið þetta þangað til þetta verður létt og ljóst.

Bætið hveiti, salti, vanilludropum, lyftidufti, matarsóda, kakó og súrmjólk/mjólk útí og hrærið þangað til þetta er búið að blandast saman. Passið að hræra ekki of mikið því þá verður þetta ekki jafn mjúkt og gott. Að lokum er súkkulaðidropunum bætt við og hrært örstutt til að þeir blandist saman við.

Setjið deigið í form, ég nota alltaf tvær skeiðar og rétt rúmlega hálfylli formin. Ef það á að vera Rolo þá er einum Rolo mola stungið ofan í hvert muffins.  Þetta verða um 18 muffins, allt eftir því hve mikið þið setjið í hvert form.

 

 

Þetta er svo bakað í sirka 20 mín. Til öryggis er best að stinga prjóni í eitt muffins til að athuga hvort hún sé tilbúin – ef það festist deig á prjóninum þá þarf að baka þetta aðeins lengur. Ef það á að setja krem á muffinsin þurfa þau að kólna áður en kremið er sett á, þannig það er fínt að taka þau út úr ofninum og gera svo kremið á meðan þau kólna.

 

Share

No Comments

No comments yet.

RSS feed for comments on this post.

Leave a comment

WordPress Themes