Heitur ostabrauðréttur

Þessi brauðréttur er í svo miklu uppáhaldi að hann er í boði í lang flestum veislum sem ég held – og aðalástæðan er sú að ég er að nota tækifærið því mér finnst hann sjálfri svo góður en fæ hann svo sjaldan. Svo er þetta svo góð tilbreyting við þennan klassíska með skinku og aspas 😉

Uppskriftin er ekkert heilög og ég fer yfirleitt ekki eftir henni staf fyrir staf, heldur nota ég t.d. þá osta sem mér dettur í hug hverju sinni. Stundum sleppi ég skinkunni og stundum sveppunum.

 

Ostabrauðréttur

4 ostar að eigin vali – ég nota oftast 2 mygluosta eins og Stóri Dímon og Camembert og svo 2 “kryddosta” eins og mexikóost og einhverja ostarúllu.
500 ml. rjómi
100 gr. skinka
100-200 gr. sveppir
1 lítil rauð paprika
Rifinn ostur
smá salt og pipar
Hálft brauð

 

Ostarnir eru brytjaðir niður frekar smátt svo þeir bráðni fyrr. Rjóminn og ostarnir eru svo settir í pott og hitað þangað til ostarnir hafa bráðnað alveg. Smakkað til með salti og pipar. Stundum þarf ekkert krydd, en það fer alveg eftir ostunum sem maður notar.

Sveppirnir eru skornir í sneiðar og steiktir á pönnu. Skinkan er skorin í litla bita og paprikan er skorin í litla teninga. Brauðið er svo rifið niður og sett í eldfast mót. Ég leyfi skorpunni að fara með en passa að hún sé frekar smátt rifin – það er þó í góðu lagi að sleppa henni, en þá þarf aðeins meira brauð. Sveppunum, skinkunni og að lokum paprikunni er dreift yfir brauðið – því næst er rjómaostablöndunni hellt yfir og að lokum er rifnum osti stráð yfir þetta allt saman.

Þetta er svo bakað í 20-30 mín. í 200 gr. þangað til þetta er alveg heitt í gegn. Svo er þetta borið fram með rifsberjahlaupi.

 

Share

2 Comments

Other Links to this Post

RSS feed for comments on this post.

Leave a comment

WordPress Themes