Karamellu marengsterta með Rice Krispies

Ég er enginn svakalegur aðdáandi marengsterta, en svo bakaði ég þessa fyrir veislu í sumar og þá var ekki aftur snúið. Þessi er klárlega í uppáhaldi og mun eflaust vera á boðstólnum í all nokkrum veislum í framtíðinni. Verð að deila uppskriftinni með ykkur svo að fleiri geti notið hennar 🙂

 

Karamellu marengsterta með Rice Krispies:

Botn:
4 eggjahvítur
2 dl. púðursykur
1 dl. sykur
5 dl. Rice Krispies
1 tsk. lyftiduft

Karamellubráð:
2 dl. rjómi
120 gr. púðursykur
50 gr. smjör
1 tsk. vanilludropar

Fylling:
1 peli af rjóma
Nóa Kropp, Daím kurl, súkkulaðirúsínur eða eitthvað í þeim dúr (má sleppa samt)

Eggjahvítur, púðursykur og sykur er stífþeytt þangað til hægt er að hvolfa skálinni án þess að innihaldið renni úr. Rice Krispies og lyftidufti er bætt varlega saman við.

Best er að nota kringlótt kökuform og teikna eftir því á tvær arkir af smjörpappír. Setja svo marengsinn inn í hringina þannig að úr verði tveir jafn stórir kringlóttir marengsbotnar.
Baka svo á 150°gr. í 50-60 mín. Í þessari köku á marengsinn að vera pínu mjúkur í miðjunni, en það er í góðu lagi að lækka hitann og baka hann lengur ( 100°C í 2 klst) ef maður vill hafa hann alveg stökkann.

Á meðan botnarnir eru að bakast er hægt að gera karamellubráðina. Þá er allt (rjómi, púðursykur, smjör og vanilludropar) sett í pott og látið sjóða þar til að bráðin þykknar. Passa að hafa ekki of mikinn hita og hræra mjög reglulega til að þetta brenni ekki. Látið þetta svo kólna aðeins áður en þetta er sett á kökuna.

Þegar botnarnir eru tilbúnir eru þeir látnir kólna. Rjóminn er þeyttur og settur ofan á annan botninn. Nóa Kroppi eða öðru nammi er dreift yfir rjómann og svo er hinn botninn settur ofan á. Að lokum er karamellubráðinni hellt yfir varlega.

Mér finnst best að setja kökuna saman kvöldið áður en hún er borin fram. En það fer allt eftir því hversu blaut hún á að vera. Það er líka hægt að útbúa hana löngu áður og frysta hana og taka hana þá út 1-2 klst. áður en veislan byrjar. Hún endist mjög vel í frysti.

Share

No Comments

No comments yet.

RSS feed for comments on this post.

Leave a comment

WordPress Themes