Beikonvafðar kjúklingabringur fylltar með sólþurrkuðum tómötum og feta osti
Í dag átti elsti sonur minn 4 ára afmæli og þar sem pulsur og pasta er í uppáhaldi hjá honum ákvað ég að hann skyldi fá það í kvöldmat. Við fullorðnu vorum þó ekkert rosalega spennt fyrir þessu svona á laugardagskvöldi, auk þess sem við áttum von á gestum, þannig ég ákvað að reyna að finna frekar eitthvað annað sem passar með pasta handa okkur. Eftir smá umhugsun ákvað ég að gera fylltar kjúklingabringur með beikoni og reyna að búa til einhverja góða sósu með sem hentar með pastanu. Svolítil tilraunastarfsemi hjá mér – en mikið ofboðslega heppnaðist þetta vel. Þessi réttur er einfaldur og mjög bragðgóður og verður klárlega á boðstólnum aftur. Fyrir þá sem vilja hafa þetta aðeins hollara er hægt að minnka magnið af osti og beikoni og bera fram með heilhveitipasta frekar en venjulegu.
Beikonvafðar kjúklingabringur fylltar með sólþurrkuðum tómötum og feta osti:
Tími: 1 – 1,5 klst.
Ofnhiti: 200 gr.
Dugar fyrir 4-5
1 kg. kjúklingabringur
sirka 15 sneiðar af beikoni
1 krukka sólþurrkaðir tómatar
1 krukka fetaostur
1 dós hakkaðir tómatar
1/2 krukka Sacla tómatpestó (eða 1 lítil krukka frá öðru merki)
1/2 púrrulaukur
3-4 hvítlauksrif
salt + pipar eftir smekk
Bringurnar – aðferð:
Það eru til ýmsar aðferðir við að fylla kjúklingabringur; stinga gat í gegn og “troða” fyllingunni inn; skera vasa í þær og festa svo vel með tannstönglum; fletja þær út og rúlla síðan saman… Ég notaði seinustu af þessum 3 aðferðum, þ.e. ég flatti bringurnar út með kökukefli og setti svo svo 1-2 msk. af fetaosti og nokkra sólþurrkaða tómata á hverja og rúllaði þeim svo upp. Það ætti að fara sirka hálf krukka af hvoru í þetta. Svo er beikoni vafið utan um þær og fest eins og þarf með tannstönglum. Sumir vilja svo steikja bringurnar áður en þær eru settar í ofninn, en þess þarf í raun ekki – ég finn lítinn mun þótt ég sleppi því. Ég raða því bringunum bara í eldfast mót. Set þær svo í 200 gr. heitan ofn og elda í sirka 20-25 mín. Ég nota alltaf kjöthitamæli til að fullvissa mig um að kjúklingurinn sé eldaður, en mælirinn þarf þá að sýna lágmark 72 gráður. Ef maður á ekki svona mæli þá er hægt að skera smá í eina bringu til að athuga stöðuna – það þarf nefnilega að passa að elda ekki of lengi, því þá verða þær þurrar. Á meðan bringurnar eru í ofninum geri ég sósuna. Ég helli henni svo yfir bringurnar þegar um 5 mín eru eftir af eldunartímanum.
Sósan – aðferð:
Hakkið hvítlaukinn fínt eða pressið í hvítlaukspressu. Skerið púrrulaukinn frekar smátt og steikið hann ásamt hvítlauknum upp úr smá olíu. Skerið 1/2 krukku af sólþurrkuðum tómötum frekar smátt. Bætið þeim svo út í laukinn ásamt 1/2 krukku af pestó og einni dós af hökkuðum tómötum. Látið malla í smá stund – þynnið e.t.v. með smá vatni ef þetta fer að verða of þykkt. Smakkið að lokum til með salti og pipar ef þess þarf. Pestóið gefur mjög mikið bragð þannig það þarf ekki endilega að krydda meira.
Þegar um 5-7 mín eru eftir af eldunartíma kjúklingsins eru bringurnar teknar út og sósunni helt yfir. 1/2 krukku af fetaosti er svo dreift yfir þetta allt saman og sett svo aftur inn í ofninn. Þetta er svo tekið út þegar bringurnar eru tilbúnar og fetaosturinn bráðinn.
Gott er að bera þetta fram með pasta og góðu fersku salati og hvítlauksbrauði.
No Comments
No comments yet.
RSS feed for comments on this post.
Leave a comment