Mexikósk kjúklingasúpa

Það hafa flestir smakkað einhverja útgáfu af mexikóskri kjúklingasúpu, enda mjög vinsæl súpa undanfarin ár. Ég byrjaði að nota einhverja uppskrift sem ég fann á netinu, en hún hefur svo þróast hjá mér, en fyrst og fremst hef ég einfaldað hana. Þetta er svona súpa sem þarf ekki að vera eins alltaf. Það er hægt að setja það sem maður á til í hana og hafa hana svolítið eins og maður vill. Það er jafnvel hægt að sleppa kjúkling og nota fleiri tegundir af baunum í staðinn. Ég set oftast nýrnabaunir í hana, en alls ekki alltaf – stundum sleppi ég þeim. Það sem mér finnst skipta miklu máli að hafa er hins vegar ferskt kóríander. En ef maður er ekki hrifinn af því þá sleppir maður því 🙂

Þessi súpa er í grunninn mjög holl og góð, en hún verður að sjálfsögðu óhollari ef maður bætir miklum osti og nachos út á hana – en ef maður sleppir því þá er þetta eintóm hollusta 🙂

 

Mexikósk kjúklingasúpa:
Tími: 1 klst.
Dugar fyrir 4-6

1-2 paprikur (litur skiptir ekki máli)
3 laukar
3 hvítlauksrif
2 fernur af tómata passata eða 3-4 dósir af hökkuðum tómötum  (tómat passata eru fínt maukaðir tómatar og fæst t.d. í fernum frá euroshopper – sjá mynd til hliðar – mér finnst betra að nota það því ég er ekki hrifin af of miklum tómatbitum )
4-6 kjúklingabringur (ca. 900gr. – 1kg)
1 dós nýrnabaunir eða aðrar góðar baunir eins og pintobaunir. (má sleppa, en gerir súpuna matarmeiri)
1 l. vatn
2 teningar af kjötkrafti
1 tsk. mulið kóríander ( má sleppa )
1 tsk. cumin
1 msk. worchestershire – sósa
1 tsk. chiliduft (má sleppa ef súpan á ekki að vera of sterk)
1 tsk. cayennepipar
3 msk. tómatpúrra (eða 1 lítil dós)
Ferskt kóríander

 

Skerið laukinn í þunnar sneiðar, hvítlaukur skorinn smátt eða pressaður og paprikan skorin í bita. Þetta er svo steikt þar til þetta er orðið mjúkt. Setjið restina, fyrir utan kjúkling og ferskt kóríander saman við og látið malla á meðan kjúklingurinn er undirbúinn.

Skerið kjúklinginn í bita og gegnumsteikið á pönnu. Þegar súpan hefur fengið að malla í smá tíma (20 – 30 mín. helst) er kjúkling og ferskum kóríander bætt út í.

Súpan er borin fram með sýrðum rjóma, nachos flögum og rifnum osti.

 

 

 

 

Share

No Comments

No comments yet.

RSS feed for comments on this post.

Leave a comment

WordPress Themes