Döðlukonfekt

Ég borða almennt ekki döðlur, en í einstaka réttum finnst mér þær góðar. T.d. þegar þær eru beikonvafðar og svo smakkaði ég svona döðlukonfekt um daginn og fannst það rosalega gott. Ákvað að prófa að gera svona sjálf og gerði þá venjulega útgáfu og svo eina þar sem ég bætti smá kókos við. Bæði smakkaðist mjög vel.

Döðlukonfekt:
Tími: 20 mín. (undirbúa) + 60 mín (kæla)

400 gr. döðlur
270 gr. smjör
140 gr. púðursykur
4-5 dl. Rice Krispies
(2 dl. kókosmjöl)

200 gr. suðusúkkulaði

 

Döðlurnar eru hakkaðar smátt (líka hægt að klippa þær smátt niður). Smjör, púðursykur og döðlurnar eru svo settar í pott og látið malla þangað til smjörið er bráðnað og þetta er orðið að karamellumauki. Þá er Rice Krispies bætt út í (og kókosmjöli ef það á að vera). Svo er þetta hrært saman og sett í eldfast mót, eða á ofnplötu með smjörpappír undir. Það þarf að þrýsta þessu vel í formið. Að lokum er súkkulaðið brætt, annað hvort yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni (passa að það brenni ekki) og smurt ofaná – það kemur vel út að strá smá kókosmjöli yfir súkkulaðið til skreytinga. Þetta þarf svo að fara í ísskáp í sirka klukkutíma – eða þangað til súkkulaðið er búið að harðna. Þá er þetta skorið í hæfilega stóra bita.

 

Share

No Comments

No comments yet.

RSS feed for comments on this post.

Leave a comment

WordPress Themes