Kanilmuffins með vanillurjómaostakremi

Mig langaði svo í jólaleg muffins fyrir síðustu jól – og prófaði þá að gera kanilmuffins sem ég fann einhvers staðar á netinu, með smá breytingum þó. Þessi muffins voru mjög góð, mjúk og alveg nógu jólaleg – en samt ekki of, þannig þau passa allan ársins hring.

Kanilmuffins með vanillurjómaostakremi:
Sirka 18 stk.
Hiti: 190 °C

Muffins:
180 gr. púðursykur
130 gr. smjör
2 egg
5 dl. hveiti
1 tsk. matarsódi
1/2 tsk. salt
1,5 tsk. mulið engifer (krydd)
1 tsk. kanill
1/2 tsk. mulinn negull
2 dl. vatn

Krem:
60gr. smjör
100 gr. rjómaostur
250 gr. flórsykur
1 tsk. vanilludropar

Muffins – aðferð:
Stillið ofninn á 190°C. Ég nota blástur, en undir/yfirhiti hentar fínt líka en þá gæti baksturstíminn orðið örlítið lengri.

Hrærið smjör og púðursykur saman þannig þetta verði blautur sykurmassi. Bætið eggjunum út í einu í einu og hrærið vel á milli. Hrærið þetta þangað til þetta verður létt og ljóst. Bætið hveiti, matarsóda, kryddum og vatni útí og hrærið þangað til þetta er búið að blandast saman. Passið að hræra ekki of mikið því þá verður þetta ekki jafn mjúkt og gott.

Setjið deigið í form, ég nota alltaf tvær skeiðar og rétt rúmlega hálfylli formin. Þetta verða um 18 muffins, allt eftir því hve mikið þið setjið í hvert form. Ef það á að sleppa kreminu er alveg óhætt að setja aðeins meira í formin – en ef það á að setja kremið á finnst mér betra ef muffinsin séu ekki of stór.

Þetta er svo bakað í sirka 15-18 mín. Eftir 15 mín er fínt að stinga prjóni í eina köku til að athuga hvort hún sé tilbúin – ef það festist deig á prjóninum þá þarf að baka þetta aðeins lengur. Muffinsin þurfa svo að kólna áður en kremið er sett á, þannig það er fínt að taka þau út og gera svo kremið á meðan þau kólna.

Krem – aðferð:
Hrærið saman smjör og rjómaost. Bætið flórsykri og vanilludropum út í og þeytið í nokkrar mínútur. Smyrjið þessu, eða sprautið á kökurnar.

 

Share

No Comments

No comments yet.

RSS feed for comments on this post.

Leave a comment

WordPress Themes