Kjúklingaborgari með fetaosti
Ég er lengi búin að vera á leiðinni að prófa að búa til kjúklingaborgara frá grunni. Hef einhverra hluta vegna miklað það fyrir mér og gert ráð fyrir að það væri flókið og tímafrekt – en þar hafði ég heldur betur rangt fyrir mér. Prófaði þetta loksins í dag og þetta var ekkert mál. Notaði bara það sem var til í ísskápnum og þetta kom alveg ótrúlega vel út. Hlakka til að prófa að nota önnur krydd seinna meir. Ég bar þetta svo fram með spelt hamborgarabrauðum og sinnepsjógúrtsósu og grænmeti, en það má líka bera þetta fram sem buff með t.d. hrísgrjónum. Það kom mér mikið á óvart hversu safaríkt og bragðgott þetta var – sérstaklega gott fyrir einhvern eins og mig sem finnst kjúklingur oft verða of þurr. Uppskriftin er frekar stór, ég nefnilega notaði heilan poka af frystum kjúklingabringum – en það má auðvitað minnka magnið ef maður vill ekki eiga afgang. Mér sjálfri fannst tilvalið að skella bara afganginum í frysti og eiga næst þegar ég nenni ekki að elda 😉
Kjúklingaborgari með fetaosti:
Tími: 30-40 mín
dugar í sirka 10 stk. 100 gr. borgara.
900 gr. bein- og skinlausar kjúklingabringur
1/2 krukka fetaostur
1 msk. rautt pestó
1 tsk. salt
1 egg
Hakkið kjúklingabringurnar annað hvort í matvinnsluvél, mixer, töfrasprota eða í hakkavél. Passið að hakka ekki of mikið svo þetta verði ekki of maukað – það er gott að hafa þetta frekar gróft. Þar sem þetta er frekar mikið magn í uppskriftinni er líklegt að það þurfi að gera þetta í 2-3 skömmtum. Setjið hakkaða kjúklingakjötið í skál og bætið út í fetaosti (sleppið olíunni), eggi, pestó og salti. Mótið borgara/buff úr þessu og steikið á pönnu. Ef ykkur finnst borgararnir verða of lausir í sér er ekkert mál að bæta 1 dl. af brauðmylsnu út í þetta. Ég kýs þó að sleppa því þar sem það er alveg nóg að maður borði kolvetnin í brauðinu.
Gott að bera fram með (helst grófu) hamborgarabrauði, góðu káli, gúrkum, tómötum og því grænmeti sem ykkur langar í. Við steiktum líka sveppi til að hafa með. Svo er hægt að nota t.d. sinnepssósu með þessu. Ég fann tilbúna sinnepsjógúrtsósu frá E. Finnson sem passaði rosalega vel með og var ekki eins fiturík og majonessósurnar.
No Comments
No comments yet.
RSS feed for comments on this post.
Leave a comment