Frönsk lauksúpa
Þessi súpa er alveg tilvalin þegar manni langar í eitthvað hollt og gott sem má ekki kosta of mikinn pening. Megin uppistaðan er laukur og hann er hræódýr – þannig það er vel hægt að gera risa pott af þessu án þess að það kosti mikið meira en 1000 kr. Svo bætist brauð + ostur við, en það er alveg hægt að stjórna því hve mikið maður setur af því. Þessi uppskrift er ekki alveg eins og þessar hefðbundnu því ég set smá tómatpúrru og worcestershire út í til að gera þetta enn bragðbetra. Það er í góðu lagi að sleppa því og þá er restin alls ekki mjög frábrugðin öðrum hefðbundnari uppskriftum. Mér finnst líka mjög gott að gera hana aðeins “spicy” með því að setja smá cayenne pipar og jafnvel smá chili líka.
Frönsk lauksúpa með tómatívafi:
Tími: 1-2 klst. (þessi verður betri ef hún fær að malla svolítið lengi)
Dugar fyrir 4-6
ca. 6 laukar (650-750 gr. – þarf alls ekki að vera mjög nákvæmt)
1 msk. olía
50 gr. smjör
3 msk. hveiti
1 msk. worcestershire sósa
2 l. vatn
3 teningar af kjötkrafti
2 msk. tómatpúrra
cayenne og chili eftir smekk
salt
ristaðar brauðsneiðar (hér myndu flestir segja hvítt brauð, en ég nota oftast bara það sem ég á til svo framarlega sem það er ekki mjög dökkt brauð)
ostur
Laukurinn er skorinn í þunnar sneiðar. Smjörið og olían eru sett í stóran pott og hitað þangað til smjörið er bráðnað, svo er lauknum bætt út í og steikt við vægan hita þangað til laukurinn er farinn að brúnast aðeins. Þetta getur tekið smá stund, en um að gera að vera þolinmóður því súpan verður best ef laukurinn fær að brúnast. Svo er hveitinu stráð yfir og hrært í þessu í sirka 2 mín. Vatninu er svo bætt út í og svo kjötkrafti, worcestershire sósu og tómatpúrrunni. Mér finnst best að byrja á 2 teningum af kjötkrafti og bæta hinum svo við ef þess þarf í lokin til að þetta verði ekki of salt. Þetta er svo látið malla í lágmark 30 mín, helst lengur. Að lokum er þetta smakkað til með cayenne og chili og smá salti.
Þegar súpan er tilbúin er ofninn stilltur á grill og súpan sett í skálar, ristuð brauðsneið sett ofaná hverja skál og svo er rifnum osti, eða ostasneiðum dreift yfir. Þessu er svo skellt inn í ofn og osturinn látinn bráðna og gjarnan brúnast örlítið. Ef maður vill halda hollustunni í hámarki þá er best að vera sparsamur á brauð + ost, súpan er best með þessu ofaná, en er samt sem áður mjög góð ein og sér líka.
Farið varlega þegar þið takið þetta úr ofninum því skálarnar eru sjóðandi heitar.
No Comments
No comments yet.
RSS feed for comments on this post.
Leave a comment