Hollt bananabrauð

Ég hef áður sagt frá því að ég er dugleg að nota gamla banana í baksturinn. Ég hef þó hingað til alltaf gert dísætt ansi óhollt bananabrauð og verið hálf hrædd við að prófa hollar uppskriftir. Þar sem núna er tíminn fyrir átak ákvað ég samt að láta á það reyna og prófa eina uppskrift sem ég fann á netinu – og hún kom mikið á óvart. Bragðast mjög vel og er alls ekki flókið.

 

Hollt bananabrauð, sykurlaust og með heilhveiti
Hiti: 170°C
Tími: undirbúningur 20-30 mín, bakstur 60 mín

150 gr. döðlur (sirka 2,5 dl.)
1,5 dl. heitt vatn
1/2 dl. olía
2 egg
1/2 tsk. salt
5 dl. hveiti eða heilhveiti (ég setti helming af hvoru)
1 tsk. matarsódi
1/2 tsk. lyftiduft
3 stórir vel þroskaðir bananar
1 tsk. vanilludropar
1,5 dl. hakkaðar hnetur, t.d. pecan hnetur (hér er líka hægt prófa t.d. fersk bláber – en þessu má líka sleppa)

 

Hitið ofninn í 170°C og smyrjið ílangt form með olíu eða smjöri.

Setjið döðlurnar í matvinnsluvél eða mixer (hér er líka hægt að nota skál og töfrasprota). Hellið heita vatninu yfir og látið standa í lágmark 10 mín. Á meðan er fínt að undirbúa restina af hráefninu. Stappið bananana og geymið þá til síðar. Blandið saman hveiti ( + heilhveiti ), matarsóda, lyftidufti og salti í skál.

Þegar döðlurnar hafa legið í vatninu í 10 mín eru þær maukaðar með vatninu þar til þetta er orðið leðjukennt. Olíunni er bætt út í og eggjunum svo einu í einu og hrært á milli. Bætið vanilludropunum og stöppuðu bönununum að lokum í og blandið þessu saman.

Döðlu og banana blöndunni er svo hellt út í hveitiblönduna ásamt hnetunum. Blandið þessu varlega saman. Passið að hræra ekki of lengi. Þessu er svo hellt í formið og bakað í sirka 50-60 mín. Prófið að stinga hníf eða öðru í þetta til að athuga hvort þetta sé tilbúið. Eftir að þetta er tekið út úr ofninum er gott að láta þetta standa í 10-20 mín og kólna aðeins í forminu. Þetta er svo losað úr forminu og helst borið fram heitt. Gott að bera fram með smjöri og osti (en þá hverfur hollustan aðeins..)

 

IMG_9309

Share

No Comments

No comments yet.

RSS feed for comments on this post.

Leave a comment

WordPress Themes